15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (2200)

121. mál, almannatryggingar

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það er reginmisskilningur hjá hv. þm. S-Þ., að hér sé verið að gefa Tryggingastofnuninni einhvern stórkostlegan rétt, enda er þessi till. ekki komin frá þeirri stofnun né heldur frá heilbr.- og félmn., heldur flutt að undirlagi ráðuneytisins, sem fer með þessi mál. Og það er ráðuneytið, sem fær þennan rétt; tryggingarnar eiga kröfu á að fá þetta fé beint frá ríkissjóði, ef annað bregzt, og bað er gegn því, sem ráðuneytið vill tryggja sig. Þetta er augljóst mál.

Enn fremur ber þess að gæta, að þegar sveitarstjórnir og bæjarstjórnir gera sína fjárhagsáætlun og leggja á útsvör, þá leggja þær á ákveðið gjald til þess að standa straum af iðgjöldum til trygginganna, og um leið og búið er að greiða útsvörin, þá hefur þetta gjald líka verið greitt og er raunveruleg eign trygginganna, en ekki sveitarsjóðanna. En það hefur hins vegar komið fyrir, að sveitarfélög, sem hafa lagt á útsvör og fengið þau innheimt að fullu og þar með hið áætlaða gjald, hafa svo notað það í allt annað, þótt óheimilt sé. Því að þetta gjald er nefnilega ekki eign sveitarsjóðanna, heldur trygginganna, og þeir geta því ekki varið því eftir sínum geðþótta.

Þá vil ég leyfa mér að benda á, að flest sveitarfélög hafa fengið svo að segja jafnháar bætur frá tryggingunum eins og þau hafa lagt út í iðgjöldum, svo að þau þurfa raunverulega ekki að kvarta. Og því hefur m.a. komið tillaga til n. um að fara þá leið að fella niður bætur til einstaklinga í þeim sveitarfélögum, sem ekki standa í skilum. Á þetta gat n. þó alls ekki fallizt, að klípa t.d. af fé til gamalmenna vegna þess, að viðkomandi sveitarstjórnir hefðu tekið það fé, sem tryggingunum ber, og notað það til annars. Og fyrir mitt leyti get ég ekki fylgt því, að bætur verði felldar niður undir neinum kringumstæðum. Þær minnka líka beinlínis útgjöld bæjar- og sveitarfélaga með því að þær eru hjálp hinum fátækari og styrkja einnig hina efnaðri til að standa enn betur undir útgjöldum sveitarsjóðanna.

Það er því misskilningur hjá hv. þm. S-Þ., að hér sé gengið á rétt sveitarfélaganna. Hér er aðeins verið að gefa viðkomandi ráðh. rétt til að fara þessa leið, í stað þess t.d. að hlutaðeigandi sveitarstjórnir séu settar undir eftirlit. Og ég vænti þess, að hv. þm. geti verið till. fylgjandi, er hann hefur athugað þetta.