15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

121. mál, almannatryggingar

Karl Kristjánason:

Herra forseti. Ég vona, að enginn hafi tekið orð mín svo, að ég væri að mæla vanskilum bót eða undanbrögðum sveitarfélaganna um lögmætar greiðslur. En ég bendi hins vegar á það, að ef svo fer, sem oft vill verða, að þau komast í erfiðleika með greiðslur, þá verður að gæta hófs gagnvart þeim. — Mér virtist þess gæta í ræðu hv. þm. Barð., að hann skildi þetta mál ekki allt of vel. Gjaldið til trygginganna er víðast hvar ekki svo lítill hluti af útsvarsgjöldunum, t.d. er það 12–14% á Húsavík, og þó þetta sé tekið á áætlun, þá getur sú áætlun brugðizt, af því að tekjur innheimtast ekki. Þetta ber líka að athuga vel. Þá er ekki heldur rétt að gera mikið úr þeim samanburði, að sveitarfélögin fái ekki minna fé frá tryggingunum en þaðan er goldið til þeirra. Mörgum bótunum er þannig háttað, að sveitarsjóður hefur engar tekjur af þeim eða möguleika til að bæta hag sinn vegna þeirra. Ég veit t.d. um margt fólk, sem dvelur í elli sinni hjá vandamönnum sínum og notar þetta fé til gjafa, og það kemur ekki fram sem aukið gjaldþol hinna tryggðu.

Varðandi þetta mál álít ég annars, að það væri einkum tvennt, sem fremur kæmi til álita en sú leið, sem lögð er til í þessari till. Það væri þá í fyrsta lagi, að sveitarfélögin væru sett undir eftirlit, ef þau komast verulega í þrot, og í annan stað, sem réttara væri, að tekinn væri til skuldalúkningar ákveðinn hluti af hverju útsvari, eftir því sem þau innheimtast.

Nú hefur hæstv. félmrh. lagt til, að þessi till. sé tekin aftur, og verður það gert og málið fer til Nd., og vænti ég þess, að þetta verði þar athugað. Ég er ekki á móti því, að þeir greiði, sem geta, og vil ekki vera með því, að sveitarfélög geti haft undanbrögð, en ég vil leggja áherzlu á það, að um leið og hugsað er um hag ríkissjóðs, þá sé vel séð fyrir hag sveitarfélaga og rétti þeirra.