15.12.1950
Neðri deild: 42. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

121. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þetta frv., á þskj. 410, um breyt. á almannatryggingal., var verið að afgr. frá Ed. rétt áðan. Ég tel rétt að láta þessu frv. fylgja örfá orð um undirbúning þess og önnur atriði. — Þetta frv. er í rauninni ekki nýr gestur hér á Alþ. Fyrir Alþ. í fyrra lá frv. um breyt. á ahnannatryggingal., sem samið hafði verið af tryggingaráði samkv. ósk þáv. félmrh. Þetta frv. var allumfangsmikið og var m.a. gert ráð fyrir, að tekjur væru auknar hjá tryggingunum á mörgum sviðum, um leið og hækkuð væru framlög að nokkru leyti frá þeim aðilum, sem að tryggingunum standa, sem eru ríkissjóður og sveitarfélög og svo einstaklingarnir í þjóðfélaginu og svo að lokum atvinnurekendur. Í fyrra var þetta frv. stöðvað af ríkisstj. þeirri, sem nú situr, og var það gert af þeim ástæðum, að ríkisstj. hafði nokkurn ugg um það, að það væri ekki á þessum tíma hægt að auka tryggingarnar að neinu ráði. Því var hins vegar lofað af mér þá, að það skyldi verða lagt fyrir næsta Alþ. frv. um þetta efni, því að ýmis ákvæði í frv., eins og það lá fyrir í fyrra, voru á þann veg, að nauðsynlegt var að fá þau samþ. sem fyrst, því enginn ágreiningur var um þau. Ráðuneytið lét því í sumar endurskoða frv. frá því í fyrra og lagði það síðan fyrir Ed. fyrir nokkru. Við þá endurskoðun voru felld niður að mestu leyti eða öllu þau ákvæði, sem höfðu auknar tryggingar í för með sér, og af ástæðum, sem óþarfi er að fjölyrða um, þar sem spár okkar, um fjárhagsafkomu og atvinnumál landsins og möguleika til þess að auka tryggingarnar með auknum framlögum frá þeim aðilum, sem undir þeim standa, hafa allar rætzt; því miður, meira en búizt var við, af ýmsum ástæðum. Svo bætist við það, sem er enn meira áberandi nú en í fyrra, að ýmis sveitarfélög eru að verða algerlega í vanskilum við Tryggingastofnunina, vegna þess að þau hafa ekki fjárhagslega möguleika til að standa undir gjöldum, sem til hennar á að greiða, og það hefur mikil áhrif á mig um það að ganga ekki fast að því nú á þessum tíma að auka við tryggingarnar, meðan þannig er ástatt um þá veigamestu aðila, eins og sveitarfélögin, sem eiga að standa straum af kostnaðinum við þetta. Í frv., eins og það var lagt fyrir hv. Ed., var allmjög hert á því um fjárframlög til trygginganna á þann hátt, að gert var ráð fyrir því, að það yrði á næsta ári að ganga nokkuð á tryggingasjóð almannatrygginganna, til þess að geta staðið straum af tryggingunum, eins og það var, og gert var ráð fyrir að hið sama gilti nákvæmlega um sveitarfélögin. Hins vegar var þá í því frv. ráðgert, að iðgjöld á einstaklingum hækkuðu sem næmi 15%. Hv. Ed. hefur nú afgr. frv., og það náðist samkomulag milli mín og hv. Ed. um nokkrar breyt. á frv., sem fara í þá átt að auka nokkuð fjárframlög til trygginganna og gera þeim á þann hátt hægt að standa undir sömu tryggingagreiðslum eins og áður hafði verið, og frv. hafði verið afgr. frá hv. Ed. á þeim grundvelli, að samkomulag hafði þannig náðst um þetta atriði. Það er svo til ætlazt, að auk þess fasta framlags, sem ákveðið er í 24. gr. til almannatrygginganna, sem er 17,4 millj. kr. úr ríkissjóði og 10,8 millj. kr. frá sveitarfélögunum, verði greitt á það vísitöluálag, sem nemur 81/3 stigs, sem er meðalvísitala þessa árs, miðað við hina nýju vísitölu, og það er það álag, sem nú verður greitt á hið fasta framlag. Hv. Ed. tók upp að hafa sömu hlutföll um greiðslur þeirra aðila, sem undir tryggingunum standa, ríkissjóðs, sveitarfélaga, einstaklinga og atvinnurekenda, eins og verið hafði áður; einnig var hafður líkur háttur á framlagi ríkisins til sjúkrasamlaga, og var það samkomulagsatriði. Má segja, að eins og frv. er afgr. frá hv. Ed., þá hafi í rauninni náðst fullt samkomulag um frv. eins og það er, þótt hitt sé aftur á móti rétt, að það voru bornar fram ýmsar brtt. við frv. frá einstökum þm., þar sem þeir vildu gera frekari breyt. á því, en út í það atriði er ástæðulaust að fara hér, enda munu hv. þm. hér í d. hafa kynnt sér, hvernig það hefur verið.

Það er nauðsynlegt, að þetta frv. verði að l. áður en þessu þingi slítur nú, og þar sem gert er ráð fyrir, að því verði frestað eða þinghlé verði nú innan fárra daga, þá hefur hv. heilbr.- og félmn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, ekki langan tíma til þess að sinna frv., og má segja, að það sé leitt með jafnstórt mál og þetta er. En ég vænti þess, að sá undirbúningur og það samkomulag, sem orðið er um málið í hv. Ed., verði til þess, að það geti gengið allmiklu greiðara í gegnum þessa hv. d. fyrir það. — Ég vil geta þess, að við 3. umr. í Ed. kom fram skrifleg brtt. varðandi tryggingarnar, um innheimtu iðgjalda frá sveitarfélögum, en það náðist ekki fullt samkomulag um hana undir umr., og samkv. minni ósk var hún tekin aftur af meiri hl. heilbr.- og félmn., sem flutti till., en þó á þeim forsendum, að þetta yrði athugað hér í Nd. Vildi ég því biðja hv. n., sem fær málið til meðferðar, að hafa samráð við n. í Ed. um þetta atriði sérstaklega; vildi ég mega vænta þess, að það næðist samkomulag milli n. í báðum d. um þetta atriði. Það var ekki mikill meiningamunur í Ed. um það, að eitthvert ákvæði yrði sett til að tryggja greiðslur frá sveitarfélögum, og ætti því að nást samkomulag um það.

Ég mun ekki að svo stöddu hafa þessi orð fleiri, það verður sjálfsagt frekar ástæða til þess við 2. umr. að ræða málið. Ég vil gera það að till. minni, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn. Ég vil svo að síðustu endurtaka þau ummæli, að hv. n. reyni að vinna að málinu, þó tíminn sé naumur, eins fljótt og hún sér sér fært.