18.12.1950
Neðri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (2214)

121. mál, almannatryggingar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég harma það, að ekki skuli hafa náðst samkomulag um að gera víðtækari breytingar á almannatryggingunum en gert er í þessu frv. Í fyrra lá fyrir Alþ. frv., samið af milliþingan., um endurbætur á tryggingalögunum, víðtækara en þetta og tvímælalaust til bóta, ef samþykki hefði náð. Sú stefna hefur hins vegar orðið ofan á að taka ekki upp í þetta frv. ýmsar umbætur, sem í því fólust. Af því að komið er að þinglokum, skal ég þó ekki ræða mikið um þetta, og vil ekki standa í vegi fyrir því, að frv. nái fram að ganga. En hins vegar hef ég leyft mér að flytja við frv. nokkrar brtt. á þskj. 436 og 437 ásamt hv. 7. þm. Reykv. og hv. 10. landsk., og skal ég gera fyrir þeim nokkra grein.

Fyrsta brtt. á þskj. 436 er við 4, gr. Samkv. reglum, sem nú gilda, má samantalinn lífeyrir og eftirlaun úr opinberum sjóði eða t.d. fé á 18. gr. fjárlaga ekki fara fram úr upphæð, sem samsvarar ellilífeyri Tryggingastofnunarinnar. Þetta hefur að vonum þótt hart og verið deilumál. En hér er lagt til, að samtals megi slík gjöld og lífeyririnn fara 50% fram úr lífeyrisupphæð þess verðlagssvæðis, þar sem hlutaðeigandi er búsettur. Yrði þetta dálítil viðbót, sem kæmi sér vel fyrir margt gamalt fólk, sem fengið hefur viðurkenningu ríkisvaldsins, en hins vegar orðið nokkuð hart úti vegna þeirra ákvæða, sem um ellilífeyrinn hafa gilt.

Um aðrar brtt. okkar á þskj. 436 vildi ég segja þetta: Uppbót á tryggingabætur er nú greidd samkvæmt vísitölunni 13,3. En Alþ. ákvað með þál. á s.l. ári, að greiða skyldi 15% álag á eftirlaun, eða sömu uppbót og ákveðið var að greiða til opinberra starfsmanna í sömu þál. Ég tel óviðurkvæmilegt, að grunnuppbætur séu lægri en þessi 15%, og tölur þær, sem gert er ráð fyrir sem grunnupphæðum bóta á þessum lið till. okkar, miðast við það, að vísitalan sé hækkuð úr 13,3% í 15%. Þá er í 6. lið till. gert ráð fyrir, að hámark lífeyrishækkunar, sem tryggingaráði sé heimilt að veita vegna sjúkleika og ellilasleika, miðist við 50% af lífeyrisupphæðinni, og megi einnig veita hana mönnum, sem eru algerlega eignalausir og sökum fullkomins skorts á vinnugetu og einstæðingsskapar geta eigi komizt af með venjulegan lífeyri. — Enn fremur að heimila tryggingaráði að binda hækkun samkv. 17. gr. því skilyrði, þegar um einstæðingsskap er að ræða, að stjórn þess sveitarfélags, þar sem lífeyrisþeginn á heima, sjái honum fyrir viðunandi húsnæði gegn leigu, sem ekki fari fram úr 25% af lífeyrisupphæðinni, enda hafi hann verið búsettur í sveitarfélaginu eigi skemur en s.l. 2 ár. — Að þessari hækkun á lífeyri til eignalausra manna og einstæðinga væri mikil bót; reynslan hefur sýnt, að þetta gæti komið sér mjög vel fyrir margt fólk, enda þótt hér sé ekki um háar upphæðir að ræða, og því er farið fram á þetta hér.

Þriðja brtt. okkar á þskj. 436 er um hækkun til samræmingar á slysatryggingaliðunum, og skal ég ekki fjölyrða um það.

Þá er 4. tölul. á sama þskj. Markmið þeirrar till. er að tryggja, að ríkissjóður og sveitarsjóðirnir greiði 1/3 á móts við sjúkrasamlögin til tryggingasjóðs, en það hefur orðið misbrestur á því í framkvæmd, að þessir aðilar greiddu fullan 1/3 hluta, eins og l. ætlast þó til.

Um 5. brtt. á sama þskj. vildi ég segja þetta: Þar er gert ráð fyrir hækkun á iðgjöldum og framlögum til Tryggingastofnunarinnar til að mæta þeim útgjöldum, sem hér hefur verið gert ráð fyrir og fyrst og fremst eru hækkanir á lífeyrinum; en enn fremur felast í þessum till. hækkanir, sem gætu mætt því, ef mæðralaun væru upp tekin samkv. till. okkar á þskj. 437.

Þá er 6. till. okkar á sama þskj. Hana vildi ég láta nægja að skýra með þessum orðum: Eins og hv. Ed. afgreiddi þetta frv., þá er gert ráð fyrir að greiða bætur trygginganna með 22% álagi, en innheimta tekjur Tryggingastofnunarinnar með 81/3% álagi aðeins. Er mismunurinn þannig um 14 stig, og veldur hann um 8 millj. kr. halla á rekstri Tryggingastofnunarinnar. Till. er um að jafna þennan halla og gerir ráð fyrir innheimtu iðgjalda með vísitöluálagi samkv. vísitölu framfærslukostnaðar í janúar ár hvert, en ekki vísitölu s.l. árs.

Þá er brtt. okkar á þskj. 437, a-liður, við 10. gr. Eins og nú er, þá fær aðeins nokkur hluti fólks á starfsaldri, þ.e.a.s. á aldrinum frá 16–67 ára, og aðeins ekkjur, dánarbætur. Hér er gert ráð fyrir, að bæði kynin fái dánarbætur, og eins þótt hlutaðeigandi einstaklingar fái greiddan ellilífeyri. Hér er um að ræða augljósan galla á l., sem ætlunin er, að bætt verði úr með þessari brtt. — B-liður brtt. á þessu þskj. fjallar svo um mæðralaunin. Á því er enginn vafi, að með upptöku mæðralaunanna væri stigið mikið framfaraspor í tryggingamálum. Það hefur verið einn helzti galli þeirra l., að ekki er séð fyrir þörfum ekkna og þeirra mæðra, sem eiga fyrir börnum að sjá. Það er augljóst mál, að kona, sem hefur t.d. 4 börn á framfæri, hefur engin skilyrði til að vinna fyrir sér, þar sem hún hefur þegar nógu mikið starf við að sjá um börnin. Það er því mjög óeðlilegt, að slíkar konur fái ekki sérstakar bætur. Samkv. tili. er gert ráð fyrir, að grunnupphæðir mæðralauna nemi frá 1200 kr. til 3600 kr., eftir því, hvað mæðurnar hafa mörg börn á framfæri sínu. Þessi till., sem kom fyrst fram fyrir 2 árum, hefur síðan átt vaxandi fylgi að fagna, og flest kvennasamtök í landinu hafa skorað á Alþingi að veita henni brautargengi. Hún á þó ekki eingöngu fylgi meðal kvenna, því að fleiri skilja þá nauðsyn, sem hér er á, svo að varla getur langt um liðið, unz þessi augljósa endurbót verður samþykkt. Ég vona, að hv. Alþ. sjái sér fært að styðja hana nú þegar.

Ég tel ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum nú og læt máli mínu lokið.