18.12.1950
Neðri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

121. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. heilbr.- og félmn. fljóta afgreiðslu þessa máls. Ég gat þess við 1. umr., að tíminn væri naumur til stefnu, en n. hefur ekki sett það fyrir sig, og þótt einstakir nm. hafi ekki þótzt geta komizt hjá að flytja sérstakar brtt. við frv., þá er ég eigi að síður þakklátur n. í heild, að hún skyldi afgr. málið svo fljótt.

Ég sé ekki ástæðu til að tala hér langt mál. Umræður hafa hér verið öfgalausar og gefa ekki sérstakt tilefni til þess, enda þótt flm. brtt. á þskj. 436 og 437 sé á nokkuð annarri skoðun en ég um ýmislegt í frv. og fyrst og fremst það, hvað langt eigi að ganga nú í því að auka tryggingarnar; en ég lít svo á, að það sé að svo stöddu hættulegt fyrir tryggingarnar sjálfar.

Þess var getið af frsm. n., að það bæri nú talsvert á erfiðleikum við innheimtu gjalda hjá sveitarfélögunum og erfiðleikum ríkissjóðs að standa skil á sínum hluta. Í frv. þessu er ætlazt til, að nokkuð verði gengið á tryggingasjóð til að draga úr þessum erfiðleikum, sennilega sem nemur um 4 millj. kr. Þetta tel ég forsvaranlegt að gera einu sinni, vegna þess að stofnunin ræður yfir miklum sjóðum, en til langframa má það vitaskuld ekki. Það kemur brátt að því, að auka verði tekjur stofnunarinnar, og er það í samræmi við það, sem flm. gerir ráð fyrir í umræddum brtt. Enda er ekki forsvaranlegt að samþ. aukin réttindi til handa hinum tryggðu, nema framlög til stofnunarinnar séu þá aukin jafnframt.

En nú er að því að gæta, að búið er að afgreiða fjárl. fyrir næsta ár og því ekki unnt að ná samræmi á milli þeirra og tryggingafrv. héðan af, ef breyt. verða gerðar á því. Auk þess, ef nú ætti að samþ. jafnvíðtækar brtt. og þessar í þessari deild, þá mundi það leiða til þess, að frv. fengi ekki afgreiðslu fyrir áramót, fyrst og fremst af því, að hv. Ed. var búin að fella allar þessar brtt. áður; frv. yrði að fara þangað aftur og mundi daga uppi á hinum nauma tíma, sem nú er til stefnu. Ég skoða því þessar brtt. frekar sem stefnuyfirlýsingu þeirra, er að þeim standa, þar sem þeir vita, að búið er að taka afstöðu nú þegar í þessu máli af meiri hl. Alþ.

Mér finnst líka, að menn megi ekki vera allt of óþolinmóðir um endurbætur á tryggingalöggjöfinni. Það verður að teljast eðlilegt, að um þróun sé að ræða í þessum málum. Mér verður í því sambandi hugsað til annarrar löggjafar, sem á langa sögu að baki sér, en það eru jarðræktarlögin frá 1924, — eða 1925, er þau komu fyrst til framkvæmda. En þar er um að ræða nokkra hliðstæðu við tryggingalögin, því hvor tveggja fjalla um lífræna hluti, sem eru stöðugum breytingum undirorpnir. En allan þann tíma, sem liðinn er síðan jarðræktarlögin voru sett, hefur stöðugt þurft að vera að breyta þeim eftir nýjum viðhorfum. Og hvað væri þá eðlilegra um slíka löggjöf sem almannatryggingalögin en að þau yrðu ekki fullkomnuð þegar í upphafi? Menn mega gá að sér að stíga ekki í slíkum málum of stór skref í senn og leggja mönnum ekki of þungar byrðar á herðar; það getur skapað andúð í stað þeirrar samúðar, sem slíkum nýmælum er svo nauðsynleg. Það hefur oft heyrzt hér á Alþ. og annars staðar kveðið við þann tón, að sumir menn og sumir flokkar væru vinir alþýðutrygginganna og aðrir ekki. Ég verð nú að segja, að ég vil telja mig vin trygginganna, þótt ég telji ekki fært í bili að auka byrðar þeirra, sem eiga að standa undir þeim. Gegn því álít ég, að við verðum að standa nú og leita lags, þegar betur stendur á fyrir ríkinu og sveitarfélögunum að taka á sig auknar byrðar. Hins vegar mun þurfa að endurskoða frv. þegar á næsta ári af ýmsum ástæðum og taka þá til vandlegrar athugunar ýmislegt, sem ekki hefur unnizt tími til nú.

Ég mun ekki fara út í að ræða hinar einstöku brtt. á þskj. 436 og 437 og af þeim ástæðum, er ég hef þegar lýst. Ég er ekki á móti þeim í sjálfu sér. Mér mundi þykja mikils um vert að geta fylgt þeim, ef fjárhagslegur grundvöllur væri fyrir hendi. En ef það á að takast að ljúka málinu nú, sem er alveg nauðsynlegt, þá má ekki samþ. þessar brtt. að þessu sinni. Og ég legg því áherzlu á, að frv. verði samþ. óbreytt. Ég veit, að heilbr.- og félmn. er að athuga eina brtt. nú og leita samþykkis hv. Ed. um hana, og mætti hún þá koma fram við 3. umr., og þyrfti þá ekki nema eina umr. til viðbótar í Ed., ef samkomulag verður um hana.

Ég mun svo ekki hafa þessi orð mín fleiri að sinni og læt máli mínu lokið.