18.12.1950
Neðri deild: 44. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (2218)

121. mál, almannatryggingar

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Brtt. við þetta frv. er í prentun og kemur væntanlega bráðum. (Forseti: Mundi hv. þm. vilja flytja skrifl. brtt., ef hann hefur hana við höndina?) — Eins og ég tók fram í ræðu minni fyrr um þetta mál, hefur talsvert breytt á því, að ýmis sveitarfélög hafa komizt í vanskil við Tryggingastofnun ríkisins, og hefur reynzt erfitt að ná þeim gjöldum, sem sveitarfélög eiga að greiða til Tryggingastofnunarinnar. Og það sjá allir, að ef sú óregla verður látin viðgangast og gerð að eins konar reglu, að sveitarfélög inni ekki þessar greiðslur af höndum, þá kemur það yfir á ríkið að greiða þetta. Og svo, þegar önnur sveitarfélög sjá það, hvað sumum bæjar- eða sveitarfélögum helzt uppi um að vera í vanskilum með þetta og safna skuldum að þessu leyti, þá er ekki ólíklegt, að þau muni kippa einnig að sér hendinni með að standa í skilum. — Þessi brtt., sem ég boðaði áðan, er um að veita ráðh. heimild til þess að herða á innheimtunni á þessum gjöldum sveitarfélaganna til Tryggingastofnunarinnar gagnvart sveitarfélögum og bæjarfélögum, sem ekki standa í skilum. Um þetta hefur nú oft verið rætt áður, bæði af tryggingaráði og Alþ., hvernig ætti að að fara í þessum efnum, og skiptar skoðanir hafa verið um þetta. En ég held, að till. sú, sem ég er hér með, sé þannig, að hv. þm. geti fallizt á hana yfirleitt í báðum hv. þd. Hún er svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 29. gr. Aftan við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svo hljóðandi:

Nú vanrækir sveitarfélag greiðslu á framlagi sínu til Tryggingastofnunar ríkisins í eitt ár eða lengur, og er ráðherra þá heimilt að ákveða, að hald skuli lagt á ákveðinn hluta álagðra, óinnheimtra útsvara í sveitarfélaginu á þann hátt, að gjaldkeri sveitarsjóðsins greiði hinn tiltekna hluta innheimtumanni ríkisins jafnóðum og útsvörin innheimtast.

Virði sveitarfélag að vettugi fyrirmæli ráðherra um að skila tilteknum hluta útsvara til lúkningar skuld sinni við Tryggingastofnun ríkisins, er ráðherra heimilt að ákveða, að á útsvör tiltekinna stofnana, fyrirtækja og einstaklinga í sveitarfélaginu skuli lagt hald og þau greidd innheimtumanni ríkisins, þegar þau falla í gjaldilaga. Skal sú skipun haldast, þar til skuld sveitarsjóðsins við Tryggingastofnun ríkisins er að fullu greidd eða ráðherra hefur afturkallað fyrirmælin.“

Þetta er orðað þannig til þess beinlínis að tryggja, að þessir aðilar standi í skilum. Því að það hefur viljað við brenna, að þó að sveitarfélög, sem ekki hafa staðið í skilum með þessar greiðslur, hafi verið búin að innheimta þessi gjöld sjálf frá gjaldendum, þá hafa þau látið hjá líða að láta Tryggingastofnunina fá þau. Þess vegna er þessi brtt. borin fram, í von um, að þessi lagaákvæði herði á innheimtunni á þessum greiðslum til Tryggingastofnunarinnar.

Ég fyrir mitt leyti hef getað fallizt á þá skoðun, bæði í tryggingaráði og hér á Alþ., að þetta yrði haft þannig, að þegar sveitarsjóðir væru komnir í mikil vanskil, þá yrði hætt að greiða bætur til viðkomandi sveitarfélaga, þar til gjöldin væru greidd frá þeim. Og það held ég, að sé bezta leiðin, því að þá fá stjórnir sveitarfélaganna það aðhald frá sínum sveitungum, sem dugir í þessu efni. Ýmsir vilja ekki fara þessa leið. En þetta, sem kemur fram í þessari brtt., er samkomulagsleið, og legg ég þessa skrifl. brtt. fram fyrir hæstv. forseta.