18.12.1950
Neðri deild: 44. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (2221)

121. mál, almannatryggingar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að mér finnst nú þessi brtt. ganga þó nokkuð langt gagnvart sveitarfélögunum, þar sem ráðh. er heimilað að leggja hald á ákveðinn hluta af óinnheimtum útsvörum. Við verðum að gá dálítið að, þegar það hefur komið fyrir áður hér á Alþ., að við samþ. lög, sem ákvæði hafa verið í um að herða ákaflega mikið á rétti ríkisins til þess að innheimta skatta og gjöld, sem ríkið leggur á hjá einstaklingum. Og hér er um að ræða að gefa ríkinu aukið vald til þess að innheimta hjá sveitarfélögum.

Það, sem gerir mig dálítið efagjarnan gagnvart þessu aukna valdi, það er, að mér finnst ekki fara saman í réttum hlutföllum það vald, sem ríkið tekur sér í þjóðfélaginu, og þær skyldur, sem það leggur á herðar sveitarfélögunum, og hins vegar það, sem ríkið gerir fyrir þau. Ríkið ræður nú öllu atvinnulífi þjóðarinnar og öllum verzlunarrekstri þess. Og ríkið hefur, eins og stendur, aðstöðu til að grípa fram fyrir hendur á sveitarfélögum um hvers konar atvinnulíf og hindra sveitarfélögin í sínum atvinnurekstri. Og ríkið gerir þetta. Ríkið kemur nú í veg fyrir, að sveitarfélög, sem annars gætu haft blómlegt atvinnulíf, geti haft það. Það ríki, sem þannig hagar sér, verður að gera svo vel að taka á sig ábyrgðir í hlutfalli við það vald, sem það tekur sér. Það er ekki hægt að segja við sveitarfélögin annars vegar, að þau megi ekkert frelsi hafa til þess að bjarga sér, og segja svo við þau hins vegar, þegar búið er að hálfdrepa atvinnulifið hjá þeim: Útsvörin, sem innheimtast, skulum við taka af ykkur handa ríkinu í það, sem ríkið krefst. — Ég held, að ef sveitarfélög geta ekki staðið í skilum með þessi gjöld, sem hér er um rætt, og ekki er hægt að ná inn hjá þeim lögbundnum framlögum til Tryggingastofnunarinnar, þá eigi ríkið að hlaupa þarna undir baggann og bæta Tryggingastofnuninni þetta upp, og þá verða það að vera samningar á milli ríkisins og viðkomandi sveitarfélags, hvernig fer um þessar greiðslur. Tryggingastofnunin þarf að fá sitt, og það er ríkið, sem verður að gera svo vel að vera ábyrgt gagnvart henni. Og það ríki, sem tekur sér svo mikið vald til þess að taka í sínar hendur öll afskipti af atvinnu- og verzlunarlífi í landinu, hefur líka skyldu til þess að sjá um, að Tryggingastofnunin fái nægar tekjur til þess að standa undir sínum miklu framlögum til almannatrygginganna.

Ég hef áður minnzt á samsvarandi atriði þessu í sambandi við þann sívaxandi rétt, sem ríkið er að taka sér viðvíkjandi lögtökum og öðru slíku. Mér finnst ákaflega langt gengið með þessu ákvæði, sem hér er sett, ég get ekki neitað því. Ég álít, að það væri heppilegra, ef hægt væri að finna einhverja aðra leið í þessu máli en að gefa ríkinu þetta mikla vald til þess að ganga beint til innheimtu útsvaranna í sveitarfélögunum, — fyrir utan það, að ég er dálítið hræddur við það að tengja þetta svona beint saman, að ríkið eigi beinlínis að innheimta þetta handa Tryggingastofnuninni og ganga að því með þessu móti. Tryggingastofnunin þarf að geta verið svo óháð fyrirtækjum út af fyrir sig, að hún fái frá ríkinu fé, þegar eitthvert sveitarfélag stendur ekki í skilum. Og það þarf síðan að vera samkomulag um það, að ríkið beiti einhverjum sérstökum aðferðum til þess að ná þessum skuldum, sem það þannig á inni hjá viðkomandi sveitarfélögum. Mér finnst, að það gæti gert Tryggingastofnunina óvinsæla, ef þetta er gert þannig beint fyrir hana að innheimta útsvarsgreiðslurnar til lúkningar skuldum við hana, og því vil ég ekki stuðla að. Það er gefið, að Tryggingastofnun ríkisins verður að fá sitt, og ef sveitarfélögin greiða ekki sitt framlag, þá er það af því, að þau eru að komast í þrot, meðal annars vegna aðgerða hæstv. ríkisstj. sjálfrar. En ég held, að ef eitthvað á að gera í þessu máli, þá verði að gera ríkið þarna beinan millilið, og að það verði sjálft að innheimta hjá sveitarfélögunum. Það er mjög óþægilegt að fá svona till. fram við síðustu umr. í síðari d., og á það við fleiri mál en þetta, sem nú er verið að reyna að flaustra af, og hér eru einu sinni ekki allir úr hv. heilbr.- og félmn. viðstaddir. Ég tel heppilegt, að reynt yrði að fara einhverja aðra leið til þess að tryggja Tryggingastofnun ríkisins það, sem hún þarf, og leyfi ég mér að skjóta því til hv. n., hvort hún vilji ekki athuga um breyt. á þessu.