18.12.1950
Neðri deild: 44. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (2226)

121. mál, almannatryggingar

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja málið með langri ræðu, en mig langar til að leiðrétta þann misskilning hjá hæstv. forsrh. og hv. 1. þm. Rang., að ég vilji endilega setja sveitarfélögin undir opinbert eftirlit, ef þau standi ekki í skilum. Hv. 1. þm. Rang. vildi segja, að ég teldi slíkt eitthvert keppikefli. Ég hef ekki látið nein orð falla um það, en ég benti á, að mannúðlegra væri og minni harðýðgi, að fram væri látin fara athugun á fjárhagsafkomu bæjarfélaganna samkv. l., áður en gripið væri til ráðstafana þeirra, sem felast í skrifl. brtt.

Það mun nú vera svo, að varla er hægt að taka lögtak hjá einstaklingum án þess að skilja eitthvað örlítið eftir. Með samþykkt þessarar lagabreytingar, sem heilbr.- og félmn. ber fram, er hægt að gera löghald í væntanlegum tekjum bæjar- og sveitarfélaga án þess að vita nokkuð, hvort þau geti haldið áfram að halda uppi sínum þurfalingum. Ég tel, að heppilegra væri, að fram færi rannsókn á starfsemi sveitar- og bæjarfélaga, áður en slíkar ráðstafanir yrðu gerðar. En hv. frsm. heilbr.- og félmn., 1. þm. Rang., og hæstv. forsrh. vilja láta gera lögtak hjá bæjar- og sveitarfélögum, áður en slík athugun færi fram. Þetta tel ég of harkalega að farið.

Ég vil leyfa mér að mótmæla því, að ég vilji koma bæjar- og sveitarfélögum undir eftirlit. En ég vil undirstrika það, að af þeim tveimur leiðum, sem um er að velja, þá tel ég ólíkt nærfærnislegra gagnvart sveitarfélögum að fara þá leið, sem áður hefur verið farin hingað til heldur en þessa lögtaksleið, sem nú er til umr.

Ég get ekki skilizt svo við þetta mál, að ég minnist ekki örfáum orðum á þá skoðun, sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. Rang., sem sé að hætta að greiða gamalmennum styrk, af því að viðkomandi sveitar- eða bæjarfélag hafi ekki staðið í skilum við tryggingarnar. Með öðrum orðum, menn, sem hafa stritað langa ævi við að greiða sín gjöld, eiga ekki að fá sínar bætur, af því að það opinbera hefur ekki staðið í skilum. Ég hafði ekki átt von á þessu frá 1. þm. Rang., jafnvel þó að hann sé stundum nokkuð einsýnn í þessum efnum.