18.12.1950
Neðri deild: 44. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (2229)

121. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Já, ég sé, að það geta orðið allmiklar umr. um þetta mál, ef á að fara að ræða greiðslumöguleika almennt og nýjar tekjuöflunarleiðir bæjarog sveitarfélaga. En ég tel það ekki rétt að binda það við þetta atriði. Það er aðeins innheimtuatriðið, sem ég ætla að ræða, og hv. þm. geta séð, að það er ekki skynsamleg skoðun, að þegar ríkið hefur lagt á almenn gjöld, þá sé ekki við þau staðið. Og það getur ekkert réttarríki staðizt, þar sem svo er látið til ganga.

Ég get því ekki skilið þá röksemdafærslu hv. þm. Hafnf., að hér eigi að fara að skera á tekjuöflun sveitarfélaga. Hér á ekki að fara að skera á neitt, heldur aðeins, að það fé, sem greiða á til almannatrygginganna, sé greitt. Þetta er einu sinni ákveðinn hlutur, og þá getur það ekki staðizt, að undan þeim greiðslum sé skorazt.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á erfiðleika bæjar- og sveitarfélaga, svo sem þeir þm. Hafnf. og þm. Ísaf. hafa þrástagazt á þeim. Og ég ætla ekki að bera á móti því, að þau eigi við marga erfiðleika að stríða. En ég man nú ekki betur en þessir hv. þm. hafi greitt atkv. með auknum útgjöldum sveitarfélaga. Það er heldur lítið samræmi í þessum aðgerðum hv. þm. Eftir því sem þessir hv. þm. hafa sagt, er hér verið að skera á tekjur sveitarfélaga og auka á erfiðleika þeirra, og sé svo, að ekki sé hægt að innheimta þessi gjöld, hvernig fer þá, ef á að leggja enn þyngri gjöld á vegna sömu stofnunar?

Þá hygg ég, að það verði að taka mál þetta upp á öðrum grundvelli og athuga hlutfallið milli þeirra byrða, sem almannatryggingarnar leggja þegnunum á herðar. Það er lýðum ljóst, að þeir hugsa sér að flytja þessi gjöld af sveitarfélögunum yfir á aðra aðila, ef auka á gjöld til þeirrar stofnunar, er ekki önnur leið til að breyta því hlutfalli, að flytja gjöldin yfir á einstaklingana og hlífa sveitarfélögunum. En það hefur ekki komið fram till. frá þeim um að raska því hlutfalli, sem þarna er á milli. — Ég gat ekki látið hjá liða að drepa á þetta, úr því að komið var inn á almennar umr. um þetta mál. Hv. þm. vita, að þetta mál er ekki borið fram að gamni sínu, heldur borið fram í samráði við þá aðila, sem hlut eiga að máli, og vildu þeir þó enn strangari ákvæði en þetta. Ég geri ekki ráð fyrir, að þessir aðilar geri þetta af fjandskap víð sveitarfélögin. Hv. þm. Ísaf. vildi draga úr því, sem að mínum dómi var ekki annað en neyðarúrræði. (FJ: Er þetta ekki neyðarúrræði?) Hitt er vissulega neyðarúrræði, að setja sveitarfélög undir opinbert eftirlit; með því er í raun og veru verið að gera þau ómyndug, og ég mun ekki viðurkenna þá leið, ef nokkur önnur er fær.

Ég viðurkenni, að það er óheppilegt að láta till. sem þessa koma fram á þessu stigi málsins, og ég vil beina því til forseta, hvort ekki sé rétt að fresta umr. til morguns. Ég gat um það áðan, að ef ég yrði var við mikinn andróður gegn þessari till., þá mundi ég draga hana til baka, ef forseti gæti fallizt á það. En ég er sannfærður um það, að breytingar er þörf í þessu máli, hvort sem sú leið, er till. gerir ráð fyrir, er fær eða ekki.