19.12.1950
Neðri deild: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (2232)

121. mál, almannatryggingar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Við fyrri hluta þessarar umr. var aðallega rætt um brtt., sem þá lá fyrir skrifleg, en er nú komin hér prentuð frá hv. heilbr.- og félmn.

Ég er eiginlega hissa á, að nokkrir menn, sem töluðu um þetta mál, virtust hafa ímugust á þessari till. og mæltu gegn henni, og meðal þeirra eru menn, sem hafa talið sig mjög fylgjandi þessari löggjöf um almannatryggingar og talið hana merka og sagt, að Tryggingastofnunina þyrfti að efla og tryggja, svo að hún gæti haldið áfram störfum á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í lögunum.

Það munu hafa verið nokkur brögð að því með einstök sveitarfélög, sérstaklega kaupstaði, að þau hafa ekki staðið í skilum við Tryggingastofnunina að undanförnu, og safnast þannig töluverðar skuldir hjá ýmsum sveitar- og bæjarfélögum. Mér er sagt, að einstaka kaupstaðir hafi, í stað þess að greiða Tryggingastofnuninni það, sem henni ber, notað féð til ýmissa framkvæmda, sum jafnvel varið fénu til skipakaupa og önnur til vatnsveitna, sem að vísu eru nauðsynlegar framkvæmdir, og mörgum sveitarfélögum hefur gengið illa að fá lán til þess að undanförnu. Ég þekki hreppsfélag, sem nauðsynlega þarf að koma upp vatnsveitu og vantar fé, en þetta hreppsfélag hefur ekki aflað fjár til framkvæmdanna á þann hátt að vanrækja að greiða Tryggingastofnuninni það, sem henni ber. Sem betur fer eru margir enn í þessu landi, sem meta það mest að standa í skilum með það, sem þeir eiga að greiða, meðan þess er nokkur kostur, og fresta heldur ýmsum framkvæmdum, þó að nauðsynlegar séu. Ég óttast það mjög, ef það verður látið viðgangast, að einstök sveitar- og bæjarfélög geti látið safnast skuldir hjá Tryggingastofnuninni ár eftir ár, og nota féð til annars; ég óttast, að mörg af þeim sveitarfélögum, sem nú standa í fullum skilum, fari að leika sama leikinn, og verði vanskilin því meiri áður en langt um liður en þau eru nú.

Mörg sveitarfélög eiga erfitt með þessar greiðslur. Það hefur heyrzt og er kunnugt mál, að mörg sveitarfélög, sem þó hafa staðið í skilum við Tryggingastofnunina, hafa átt erfitt með að ná inn þeim tekjum, sem þarf til að mæta öllum gjöldum, en ég er viss um, að mörg hin smærri sveitarfélög, sem hafa staðið í skilum, hafa ekki átt betra með það en mörg hinna stærri.

Ég held, að ef það verður látið viðgangast, að skuldir safnist í stórum stíl, þá sé verið að grafa grunninn undan Tryggingastofnuninni, og það eigum við ekki að gera, heldur leggja áherzlu á, að gjöldin séu innheimt. Það er hægt að létta þessum gjöldum af sveitarfélögunum og draga úr útgjöldum Tryggingastofnunarinnar að sama skapi. Það yrði vafalaust vel þegið af ýmsum. Þetta gæti sem sé komið til mála. En hitt er alveg ófært, að láta það viðgangast, að ýmsir safni skuldum í stórum stíl, sem verða óviðráðanlegar, því að þá mun svo fara, að mörg byggðarlög, sem nú standa í skilum, leika sama leikinn.

Ég geri ekki ráð fyrir því, að það sé hættulegt að samþykkja þessa till., því að þessu ákvæði verður tæpast beitt nema í ýtrustu nauðsyn af hæstv. ríkisstj., heldur verði farið eins vægilega í sakirnar og hægt er, án þess þó, að skuldasöfnun verði leyfð.