19.12.1950
Neðri deild: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (2233)

121. mál, almannatryggingar

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér nauðsyn, að Tryggingastofnunin fái þá peninga, sem henni ber í lögum og miðað hefur verið við, að hún þurfi á að halda til að standa undir þeim greiðslum, sem henni ber að greiða. Þess vegna vil ég ekki mæla því ástandi bót, sem skapazt hefur í ýmsum bæjar- og sveitarfélögum, sem ekki hafa getað staðið í skilum. Vitanlega verður að fást á því einhver lausn, en þetta mál er bara flóknara en þessi till. virðist gera ráð fyrir. Það er ekki þannig, að bæirnir hafi neitað að greiða af því fé, sem þeir höfðu, heldur hefur annað tveggja orðið, að útsvarsinnheimtan í bæjunum hefur ekki verið eins góð og hún ætti að vera vegna atvinnuástandsins, eða að áföll hafa orðið til að rýra aðrar tekjur eða valda nýjum útgjöldum. Ég veit t.d. um Siglufjörð. Bæjarfélagið þar hefur orðið fyrir ákaflega stórfelldum útgjöldum og ákaflega stórfelldum tekjumissi, og ég geri ráð fyrir, að illa hafi gengið að innheimta þær útsvarsupphæðir, sem á hafa verið lagðar, t.d. hafa útsvörin af síldarverksmiðjum ríkisins brugðizt, og síldarleysið hefur komið fram í því, að almenningur hefur haft mjög lágar tekjur. Þetta hefur haft tvöfalda verkun, 1) illa hefur gengið að innheimta útsvörin, 2) lítið er til að leggja á næsta ár. Ríkið hefur alltaf gengið lengra og lengra í að innheimta sínar tekjur sem tolla og gengur því alltaf fyrir, svo eiga bæjarfélögin að ná í sínar tekjur af því, sem eftir er hjá almenningi. Það er því ekki að furða, þó að það gangi misjafnlega, t.d. þegar síldarleysi hefur líka verið, og þá er ekki að undra, þó að til svona vandræða komi. Þess vegna held ég, að það þurfi að rannsaka tekjustofna bæjarfélaganna, bæjarstjórarnir eru fúsir til að athuga þetta sjálfir, þ.e. hvernig þetta stendur af sér og hvers vegna þeir hafa ekki greitt þessi gjöld. Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um, að bæjarfélögin vilja standa í skilum, þetta eru ekki viljandi vanskil, og mér finnst það tæpast sæmandi af hv. þm. V-Húnv. að segja, að bæjarfélögin hafi viljandi tekið þessa peninga og notað þá til annars. Það getur verið, að í einstökum og aðkallandi tilfellum hafi verið óhjákvæmilegt að grípa til þeirra í stórvandræðum, en bæjarstjórarnir reka varla þá fjármálapólitík. Nei, þetta er miklu meira vandamál en svo. Ef það væri ekki annað en það, að peningarnir væru yfirleitt notaðir til annars, þá væri hægt að .leysa vandræðin með þessari brtt. Mér virðist liggja beinast við, að ríkisstj. ætti fyrst viðræður við bæjarstjórana og þeir athuguðu möguleikana á að bæta um tekjustofninn, sem bæjarfélögin hafa, og tækju þá kannske upp löggjöf í því skyni að fá nýjan tekjustofn, ef sú verður niðurstaðan. En áður en Alþingi fer að gera svona ráðstafanir, finnst mér sjálfsagt, að rætt verði við bæjarstjórnirnar. Það er ofstæki að halda fram, að bæjarstjórnirnar noti þessa peninga til annarra hluta.

Ég held þess vegna, að það væri langbezta lausnin á þessu, að þessi till. verði tekin aftur og ríkisstjórnin ræði við bæjarstjórnirnar, sem hlut eiga að máli, og leitazt verði við að fá lausn á þessu án þess, að til slíkra ráðstafana komi, sem hér er talað um. Ég vil benda á, að ef farið verður inn á þessa braut, sem kannske er ekki óeðlileg frá sjónarmiði þeirra manna, sem telja, að þetta hafi verið gert vísvitandi, — en það er áreiðanlega undantekning, ef slíkt hefur komið fyrir —, þá er hætt við, að bráðlega verði farið að halda svona áfram við innheimtu á mörgum fleiri gjöldum. Verður það þá ekki næsta skrefið að taka ákveðinn hluta af útsvörunum í bæjunum, og þannig verður svo haldið áfram. Hver verður svo útkoman? Útkoman verður sú, að ríkið fær þessi bæjarfélög á sína könnu, ef það vill ekki lita á þá hlið, hvernig tekjum bæjarfélaganna er varið og vill ekki, að þessir aðilar snúi bökum saman til að reyna að finna heppilega lausn, heldur setja hnefann í borðið og segja, að það taki svo og svo mikið af útsvörunum. Þá er viðbúið, að ríkið fái á sig þungann af þessum bæjarfélögum, og það er ekki víst, að það verði heppileg útkoma fyrir ríkið. Mér finnst, að þeir menn, sem að þessari brtt. standa, geti gert sig ánægða með að vera búnir að sýna hana í þinginu, og geti því tekið hana aftur og hæstv. ríkisstjórn eða félmrh. ræði síðan við þau bæjarfélög, sem hlut eiga að máli, um þetta, og þeir geta athugað þessa till. í sambandi við þær umr. Þingið kemur saman aftur eftir nýár og stendur eitthvað, svo að það er engin hætta á ferðum með, að ekki sé hægt að koma þessu fram, ef það verður talin óhjákvæmileg nauðsyn að koma þessu í lög. Mér finnst það óneitanlega heppilegri aðferð, að þessu sé ekki skellt yfir nú í skyndi, heldur sé gefinn umhugsunarfrestur og viðræður látnar fara fram milli ríkisstj. og þeirra aðila, sem hafa safnað skuldum, og svo, ef ríkisstjórnin kemst að þeirri niðurstöðu, að ekki sé um annað að gera eftir þær viðræður, má setja þetta ákvæði á. Mér finnst dálítið fruntalegt að koma með þetta nú, því að það er fullur vilji hjá þessum bæjarfélögum að standa í skilum og losa sig við skuldirnar og lenda ekki aftur í vanskilum.

Ég vil þess vegna mjög eindregið fyrir hönd þess kjördæmis, sem ég er fulltrúi fyrir, fara þess á leit við hæstv. félmrh. og hv. heilbr.- og félmn., að þessi till. verði að svo stöddu dregin til baka og ekki verði gripið til ráðstafana svipaðra þessum, fyrr en annað er óhjákvæmilegt, og þá mundi vafalaust vinnast tími til þess, er þingið kemur saman að loknu jólafríi.