19.12.1950
Neðri deild: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

121. mál, almannatryggingar

Finnur Jónsson:

Ég hef mótmælt þessari brtt. á þeim grundvelli sérstaklega, að ekki væri gert ráð fyrir, að nein athugun færi fram á fjárhag viðkomandi sveitarfélaga, áður en slíkar aðgerðir væru gerðar. Að vísu var því lýst yfir af hv. frsm., að sjálfsagt væri, að fjmrh. talaði við viðkomandi sveitarfélög, áður en þessum aðgerðum væri beitt. En þá tel ég viðkunnanlegra, að Alþingi setti ákvæði um, að slík athugun færi fram. Það má vel vera, að það megi skipta þessum vanskilasveitarfélögum í tvennt, félög, sem alls ekki geta innt af hendi þessi gjöld, vegna þess að þau hafa ekki bolmagn til þess, vegna þess, að atvinnuástandið sé orðið þar svo slæmt, m.a. vegna síldarbrests og aflabrests, að þau geti ekki innt af hendi þessar skuldbindingar eða aðrar. Það er svo um Ísafjörð, að ég hef enga trú á, að hægt sé að innheimta þessi gjöld þar með því ástandi, sem þar er nú, því að kaupstaðurinn skuldar m.a. föstu starfsfólki fimm mánaða laun og er búinn að veðsetja útsvör næsta árs meira og minna fyrir útgjöldum á þessu ári. En það kunna að vera til einhver önnur félög, sem hefðu magn til að greiða þessi gjöld og efla aðkallandi framkvæmdir og eru í rauninni ekki í neinni fjárþröng. Það mætti ef til vill skipta þessum sveitarfélögum þannig í tvennt. Ég hef aðeins verið að mótmæla að ganga of hart eftir að innheimta fyrir tryggingarnar. Ég hef bent á, að það þyrfti að gera mun á eftir því, hvort um er að ræða sveitarfélög, sem hafa getu, en lítinn vilja til að greiða, og hinum, sem hafa góðan vilja, en enga getu vegna yfirstandandi atvinnuvandræða og aflaleysis. Ég tel, að engu sveitarfélagi á landinu sé um of að inna af hendi þessi gjöld til trygginganna, sem þeim er gert að greiða, með þeim hlunnindum, sem þau fá frá tryggingunum, svo framarlega sem eðlilegt atvinnuástand er í sveitarfélaginu. En af því að ég tel nauðsynlegt, að hagur þessara sveitarfélaga sé athugaður og það sé fram tekið í l., vil ég leyfa mér að leggja fram skrifl. brtt. við 1. málsgr., að á eftir orðunum „og er þá ráðherra heimilt að ákveða“ komi: komi það í ljós, að um vanskil sé að ræða, er ekki stafa af getuleysi. — Þessi málsgr. hljóðar þá þannig, verði brtt. samþ.: Virði sveitarfélag að vettugi fyrirmæli ráðherra um að skila tilteknum hluta útsvara til lúkningar skuld sinni við Tryggingastofnun ríkisins, er ráðherra heimilt að ákveða, komi það í ljós, að um vanskil sé að ræða, er ekki stafa af getuleysi, að á útsvör tiltekinna stofnana, fyrirtækja og einstaklinga í sveitarfélaginu skuli lagt hald - o.s.frv.

Ég vænti þess, að hv. n. og d. geti fallizt á þessa till. Mér virðist, að hún sé í þeim anda, sem á að framkvæma eftir, og þá er skaðlaust að taka hana upp í frv.