19.12.1950
Neðri deild: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (2238)

121. mál, almannatryggingar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að segja, að mér kemur á óvart, hvað hart er sótt af hálfu framsóknarmanna í heilbr.- og félmn. að fá þessa till. samþ. og reyndar fleiri framsóknarmanna, sem hér hafa talað um þetta mál. Ég er satt að segja dálítið undrandi yfir þessari mjög harðvítugu afstöðu. Satt að segja eigum við frekar að venjast því þó, þegar sveitarfélög eiga í hlut, að framsóknarflokksþingmenn vilji þar í orði kveðnu frekar halda uppi rétti sveitarfélaga. Mér finnst þetta skjóta dálítið skökku við. Í öðru lagi finnst mér einkennileg afstaða, sem kemur fram um skyldur sveitarfélaganna annars vegar og ríkisins hins vegar, þegar um það er að ræða að standa við sínar löglegar skuldbindingar. Þótt Alþingi sé handhafi ríkisvaldsins gagnvart almenningi, þá er það ekki skylda okkar þm. að hugsa um hagsmuni ríkisins sem fyrirtækis gagnvart almenningi frekar en hagsmuni almennings gagnvart sveitarfélögum. En hvernig fer nú ríkið að, þegar það er að einhverju leyti í vandræðum með atvinnulífið? Hvernig stendur það við þær skuldbindingar, sem Alþingi hefur lagt því á herðar með samþykkt ýmissa l.? Fyrir nokkrum árum voru samþ. l., sem lögðu ríkinu á herðar að hjálpa bæjar- og sveitarfélögum að útrýma heilsuspillandi íbúðum. Þau lögðu ríkinu á herðar að greiða ákveðna fjárhæð til bæjar- og sveitarfélaga í þessu skyni. Nokkru seinna segir ein ríkisstj., að hún geti ekki staðið undir þessum skuldbindingum. Hvað gerir ríkið þá? Það losar sig við þessa skuldbindingu. Þá var ekki verið að tala um harðýðgi gagnvart ríkinu. Þá var ekki verið að tala um að taka part af sköttunum, sem innheimtir voru hjá almenningi, eða part af tollunum og láta þá fara til að hjálpa til að útrýma heilsuspillandi íbúðum. Þá var ekki verið að taka part af því, sem ríkið á að fá, og segja: Þessi partur skal ganga til að útrýma heilsuspillandi íbúðum. — Ef löggjöfin hefði ætlað að verja héruðin gegn ríkissjóði, eins og stefnt er að með þessari tili. að gera gagnvart bæjarfélögunum, þá hefði átt að leggja fram till. um það, svipaða þessari. En ríkið gerir sér hægt um hönd. Það segir bara: Það hefur að vísu ekkert breytzt. Húsnæðið er jafnslæmt og áður og þörfin eins mikil og fyrr. En ríkið getur bara ekki staðið undir þessu. Við gætum það, ef við vildum taka meira af gróðafyrirtækjunum og nota það til að auka tekjur ríkisins, en við bara viljum ekki gera það. Þess vegna losum við ríkið við að standa við þessi l. og setjum l., sem fresta þessum framkvæmdum. — Þannig hefur ríkið það, þegar það þarf að fara í sjálfs sín vasa.

Hér er um annað að ræða. Hér er um sveitarfélög að ræða, sem ríkið sjálft ræður, hvort hefur tekjustofna aðra en útsvörin. Hér er um aðila að ræða, sem hafa margsinnis farið fram á það við ríkið að fá einhverja aðra tekjustofna, en fá það ekki. Hér er enn fremur um skyldu að ræða, sem ríkið hefur lagt bæjarfélögunum á herðar, samhliða því sem ríkið hefur séð um að afla sjálfu sér tekna og á sjóði til að standa undir sínum skuldbindingum, en skeytir ekkert um, hvort bæjarfélögin hafa nokkrar tekjur til að standa undir sínum. Bæjarfélögin hafa reynt að fá ríkið til að endurskoða þessa afstöðu sína og hafa sent samþykktir, sem hafa verið meira og minna þýðingarlausar. Ég vil minna á í þessu sambandi, að það hafa komið saman fulltrúar frá bæjarfélögunum víðs vegar um land til að biðja stjórn og þing að breyta til um það kerfi, sem verið hefur um innflutnings- og útflutningsverzlun og atvinnulíf. Þetta hefur verið einróma samþ. af þeim til þess að fá einhver ofurlitið meiri réttindi til sín, svo að þeir ættu auðveldara með að efla sitt atvinnu- og verzlunarlíf, svo að það sveitarfélag gæti orðið sterkara en ella. Ríkisstj. hefur engu sinnt af því, sem fram hefur komið af slíkum óskum frá bæjarfélögunum. Hún hefur skellt skolleyrunum við öllu slíku, svo að bæjarfélögin eiga erfitt, eins og nú er, og eiga kannske erfitt vegna ráðstafana, sem ríkissjóður og ríkisvaldið gerir, en sumpart af óviðráðanlegum orsökum. En þá segir ríkið: Það þýðir ekki annað en að ganga að þessum skuldaþrjótum. Það verður að beita því harðasta til að láta þessa þrjóta borga. — Þá er ekki verið að tala eins og þingið væri að tala við ríkissjóð, þegar það er að skjóta honum undan skuldbindingum sínum. Nei, það er eins og harðvítugur sýslumaður ætti að halda uppboð vegna vanskila hjá fátæklingum. Ég kann ekki við, að þingið hafi þannig tvo mælikvarða. Ef ríkið, sem er ríkt og hefur nóga möguleika og nóg vald til að hafa nóg fé og á miklar skuldlausar eignir, sem skipta hundruðum milljóna, og ræður yfir stofnunum, sem eiga svo að skiptir hundruðum milljóna, skýzt undan skuldbindingum sínum, en ætlar að beita svona harðýðgi fátæk bæjarfélög, sem það meinar að standa undir sér, þá er farið að beita tveimur ólíkum mælikvörðum.

En hverjir ætla að byrja á þessu, og hverjir vilja beita því? Það eru framsóknarmenn, sem ætla að byrja og beita því í sambandi við tryggingarnar. Er það af umhyggju fyrir alþýðutryggingunum? Ef það á að beita þessari aðferð við sveitarfélögin, sem vegna aðgerða ríkisvaldsins og þess, hvernig minnkandi framkvæmdir þar standa atvinnulífinu fyrir þrifum, og ef bæjarfélögin eru að reyna að halda við atvinnu hjá sér, reyna að standa undir fátækraframfærinu á þessum stöðum, sem fer vaxandi, ef það á þá að ganga að útsvörum þessara bæjarfélaga, ef gjöldin nást ekki inn, og ef það á að taka af mönnum það litla, sem þeir eiga, upp í ógreidd gjöld, eins og nú er verið að auðvelda með nýrri löggjöf, og svo er því skellt við, að þessar harðvítugu ráðstafanir séu gerðar vegna trygginganna, hver verður afleiðingin þá? Hún verður sú, að reynt verður að koma óvinsældunum af slíkum aðgerðum yfir á alþýðutryggingarnar. Framsóknarmenn hafa ekki staðið svo vel að verki, þegar verið var að berjast fyrir endurbótum á alþýðutryggingunum upp á síðkastið, að það sé vegna einlægrar umhyggju, að svona hart er fram gengið nú. Afleiðingarnar af þessum aðgerðum mundu koma óvinsældum á alþýðutryggingarnar. Ég kysi heldur frá trygginganna sjónarmiði, ef á að byrja á svona innheimtu, að það væri byrjað nú á einhverju áður. Alþýðutryggingarnar eru fjárhagslega öruggar, meðan ríkið stendur í ábyrgð fyrir þeim, og ríkið er nógu ríkt til að standa undir öllum skuldbindingum, sem á það kynnu að koma vegna einhverra sveitarfélaga, sem brotna kynnu saman fyrir þeirra tilstilli.

Ég held þess vegna, að það eigi ekki að samþ. þessa till. nú, vegna alþýðutrygginganna eigi ekki að samþ. hana. Hitt álit ég ákaflega heppilegt, að athuga og helzt undirbúa undir framhald þessa þings eftir nýár að útvega sveitarfélögunum nýja tekjustofna. Þetta ástand getur ekki gengið lengur. Það er enginn efi á því, að ef því væri lýst yfir prinsipielt, að vilji væri til að veita sveitarfélögunum nýja tekjustofna, þá mundi ekki skorta till. um slíkt.

Hv. 1. þm. Rang. talaði um, að ekki mætti gera of miklar kröfur til trygginganna, þær væru stofnaðar á góðum tíma, en það væri að harðna í ári. Ég fæ ekki séð stoð í þessari röksemd 1. þm. Rang. Tryggingarnar eru stofnaðar á góðum tíma, og það er því meiri nauðsyn fyrir fólkið, að þær séu því fullkomnari, sem kynni að verða harðara í ári. Ég kann ekki við þessa gömlu íhaldsröksemd hv. þm., að menn, sem eru tryggðir, séu lengur veikir en þeir, sem ótryggðir eru. Það er gamaldags mótbára gegn tryggingunum, sem maður þekkir frá fyrstu tímum alþýðutrygginganna.

Ég get ekki samþ. þá röksemd hv. þm., að það sé að harðna í ári, eins og hann segir. Hitt er annað mál, að það er verið að gera mönnum erfiðara fyrir að lifa nú en var fyrir nokkrum árum. Það er verið að þjarma að þjóðinni. Það er verið að svipta hana fleiri og fleiri réttindum, sem hún hefur aflað sér. Það er verið vitandi vits að taka af henni atvinnuna. Það er verið með ofríki ríkisvaldsins að taka af henni ráðin, hvar hún verzlar. Það er verið að gera vaxandi kúgunarráðstafanir í þágu lítillar auðmannastéttar í Reykjavík, á kostnað almennings. Það er verið að gera harðvítugar ráðstafanir, að sem þrengst verði í búi hjá almenningi og reyna að brjóta niður hans efnahagslega styrkleika. Það er engin þörf að kenna það versnandi árferði, sem beinlínis stafar af ákveðinni pólitík, sem rekin er af hæstv. ríkisstj. og hv. þm. ásamt sínum samflokksmönnum á ekki sízt sök á. Ég vil því mótmæla eindregið þeim rökum, sem fram komu hjá hv. 1. þm. Rang. í því tilliti, að þessa till. ætti að taka til baka. Það eru vissulega möguleikar fyrir hendi til að gera þær ráðstafanir eftir jólahléið, sem meiri hluti Alþingis og ríkisstj. telja óhjákvæmilegt, að þurfi að gera.

Mér finnst það ekki viðfelldið að skella þessari till. allt í einu fram við 6. umr., þegar búnar eru 5 umr. í deildunum, og afgreiðsla málsins var mjög fljót í Nd., og ætla að knýja þetta í gegn á skömmum tíma. Ég mælist því til, að till. verði tekin til baka, og ríkisstj. veit, að hún hefur nægilega möguleika að taka þetta upp, er Alþingi kemur saman eftir nýár, ef hún telur óhjákvæmilegt að setja þessa breytingu.