30.11.1950
Neðri deild: 31. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (2251)

61. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. minni hl. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Frv. á þskj. 101, sem hér er til umr., telur minni hl. sjútvn., að sé ekki til bóta og mælir gegn því, að það verði samþ. Hv. frsm. meiri hl. hefur nú rætt málið nokkuð í sinni framsöguræðu, og þó að frv. láti lítið yfir sér, þá er því ekki að leyna, að það kollvarpar þeim reglum, sem hingað til hafa gilt um bann við dragnótaveiðum í landhelgi. Þótt í 1. gr. standi aðeins, að fyrir orðin „samkvæmt tillögum“ í 1. gr. l. frá 1945 komi: að fengnum tillögum, — þá er mikill efnismunur á þessu tvennu, og teljum við, að þetta ákvæði megi ekki lögfesta, því að það fellir burtu það atriði, að Fiskifélag Íslands og fiskideild atvinnudeildar háskólans eigi að samþ. það samhljóða, ef friðuð verða fleiri svæði. Þetta teljum við vera þarft ákvæði og eigi ekki að falla burt. Þessir tveir aðilar eru trúnaðarstofnanir sjávarútvegsins, og ekkert er eðlilegra en þær eigi að láta uppi samhljóða álit til þess, að frekari friðun nái fram að ganga. Minni hl. leggur því til, að þetta frv. á þskj. 101 verði fellt. — Hv. frsm. meiri hl. talaði á víð og dreif um þann mikla skaða, sem hann taldi dragnótaveiðina valda ýmsum veiðisvæðum hér við land, og tók jafnvel svo djúpt í árinni, að dragnótaveiðarnar yllu svo miklum skemmdum á botngróðrinum, að þar sem dragnótaveiðar hefðu um skeið verið stundaðar á landgrunninu, þar kæmi ekki kvikt kvikindi: Þetta er herfileg missögn, því að þar, sem dragnótaveiðar hafa verið stundaðar síðast liðin 15–18 ár, er nú jafngóð veiði og var, þegar byrjað var þar á dragnótaveiðum, og vil ég hér sérstaklega nefna Breiðafjörð, að þar virðist það engu breyta um aflasæld, þó dragnótaveiðar hafi verið stundaðar þar langtímum saman. Minni hl, álítur og, að eftir því, sem lengra er gengið í þá átt að friða svæði fyrir dragnótaveiði, þá verði þeim svæðum, sem bezt eru fyrir þessar veiðar, hætt, því að eftir því sem hin ófriðuðu svæði smækka, eftir því verður ásóknin meiri á þau mið, sem eftir eru. Ég vil fullyrða, að af hendi þeirra, sem mest berjast fyrir friðuninni, er hafður í frammi óheillavænlegur áróður í sambandi við þann skaða, sem dragnótaveiðarnar eiga að valda á miðunum. Þeir, sem bezt þekkja til, vita, að dragnótin fer aðeins yfir 1/10 hluta og allt niður í 1/15 hluta þess hluta grunnsins, sem botnvarpan fer yfir, og orsakirnar eru þær, að þó að dragnótaveiðar séu stundaðar þann tíma, sem leyfilegur er, þá virðist því frá náttúrunnar hendi svo fyrir komið, að það er aðeins lítill hluti landgrunnsins, sem dragnótin fer yfir, og virðist því tryggt, að ekki verði um of gengið á fiskistofninn. Sérstaklega vil ég benda á stað, þar sem 1/7 alls flatfisksaflans veiddist yfir þann tíma, sem dragnótaveiðar eru leyfðar, en það er Ólafsvík. Frá þessu litla kauptúni veiddist 1/7 hluti alls flatfisksaflans á tímabilinu frá 1. júlí til yfirstandandi tíma. En hvergi er eins almenn dragnótaveiði og þar og á veiðisvæðunum í grenndinni. Það stenzt því ekki fullyrðing hv. frsm. meiri hl., að dragnótaveiðar eyðileggi fiskistofninn, þar sem þær eru stundaðar. Aldrei hefur verið meiri flatfisksafli í Ólafsvík en nú, þó að aldrei hafi fallið niður dragnótaveiði þaðan s.l. 16 ár. Ég vil enn taka það fram, að það er ekkert vantraust á hæstv. atvmrh., þótt því sé haldið fram, að heppilegra sé, að það ákvæði sé í l., að til frekari friðunar þurfi samhljóða álit þeirra tveggja stofnana, sem um getur í 1. gr. l. Ég álít þetta heppilegt ákvæði og vona, að hv. d. sjái, að það á að vera áfram, en það eigi ekki að vera í valdi hæstv. ráðh. eins, hvort þetta eða annað fiskisvæði sé friðlýst. Tel ég svo óþarft að fara um þetta fleiri orðum, en vona, að hv. d. sjái, að þetta frv. á þskj. 101 er alveg óþarft.