30.11.1950
Neðri deild: 31. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

61. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Ég efast um, að hv. dm. hafi kynnt sér málið eins og þörf er á og langar til að víkja að nokkrum staðreyndum málsins. Það er nú í sannleika sagt svo komið þessum málum, að hin friðuðu fiskisvæði eru orðin mjög víðáttumikil. Öll dragnótaveiði er bönnuð í landhelgi bátum, sem eru stærri en 35 rúmlestir. Það eru sem sagt aðeins smábátar, sem hafa heimild til veiða með dragnót innan þriggja mílna svæðisins. En það er ekki nóg með þetta, heldur er smábátunum einnig bönnuð þessi veiði meiri hluta ársins, þannig að svæðið frá Eystrahorni suðaustanlands norður með Austfjörðum og að Straumnesi er öllum fleytum lokað fyrir dragnótaveiðum í 61/2 mánuð og strandlengja hins hluta landsins frá Eystrahorni vestur með Suðurlandi og alla leið að Straumnesi er lokuð í 51/2 mánuð. Til viðbótar þessari miklu lokun er svo, að heimilt er fyrir sveitarfélög og sýslufélög að samþ. friðun á öllum hafnarsvæðum, og undir það falla flestir firðir og víkur, og er það algerlega á valdi viðkomandi staða að loka alveg fyrir dragnótaveiðar. Margir hafa gert það, og svo bætist enn við, að allt svæðið fyrir Norðurlandi er lokað yfir sumarmánuðina frá Horni að Langanesi. Svo hafði Alþingi sett ákvæði um heimild til enn frekari friðunar, en þá var málum svo komið fyrir, að til þeirrar auknu friðunar þurfti samhljóða samþykki Fiskifélags Íslands og fiskideildar atvinnudeildar háskólans, sem er fyrst og fremst Árni Friðriksson fiskifræðingur, en nú þykir nokkrum hv. þm. þetta ekki nóg, sem þó stappar nærri því, að dragnótaveiðar séu útilokaðar hér við land, og una því ekki, að samþykki þurfi frá Fiskifélaginu og atvinnudeildinni og vilja veita ráðh. ótakmarkaða heimild til að friðlýsa fiskisvæði fyrir dragnótaveiðum. Ég vil vekja athygli á því, áður en þetta er samþ., að þá er eins gott að banna alveg dragnótaveiðar í landhelgi Íslands, því að með þessu frv. er stefnt að því að útiloka dragnótaveiðar. Sumir telja, að dragnótaveiðar séu svo hættulegar upp við land. að banna beri þær með öllu, og það er sjónarmið út af fyrir sig, og segja má, að dragnótin sé hættulegri en önnur veiðarfæri. En önnur skoðun hefur verið ríkjandi til þessa, og m.a. hefur færasti fiskifræðingur okkar, Árni Friðriksson, haldið því fram, að dragnótaveiðarnar væru sízt hættulegri hér en í öðrum löndum, þar sem þær eru leyfðar í miklu ríkara mæli. Dragnótaveiðarnar þýða það, að okkur hefur auðnazt að veiða dýrmætari fisktegundir, sem ekki væru tök á að veiða annars.

Ef dragnótaveiðarnar eru útilokaðar, þýðir það mikla skerðingu á framleiðslu sjávarútvegsins, og er tilfinnanlegt áfall fyrir hraðfrystihús og fiskiðjuver, sem reist hafa verið fyrst og fremst til að vinna þessar dýrmætu fisktegundir. Þetta er atriði, sem ég vildi láta koma fram. Við höfum sett ýtarlegar friðunarreglur gegn dragnótaveiðum, og víða um land eru firðir og víkur alveg lokaðar, og þar sem er opið, þar er heimildin miðuð við smábáta og það á takmörkuðum svæðum, og enn er svo heimild fyrir ráðh., ef samþykki Fiskifélagsins og fiskideildar atvinnudeildarinnar liggur fyrir, til að auka enn við friðunina.

Viðvíkjandi þeim tveimur veiðisvæðum, sem minnzt hefur verið á, skal ég ekki segja mikið. En mér hefði fundizt það viðkunnanlegra, ef þessir þingmenn hefðu flutt frv. um það að loka þeim fyrir dragnótaveiðum, en ekki að fá fram heimild fyrir ráðh. til að útiloka þær með öllu.

Af þessum ástæðum er ég algerlega andvígur því, að frv. þetta nái fram að ganga, og hef því lagt til, að það verði fellt.