09.01.1951
Efri deild: 46. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (2265)

61. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál nokkuð að ráði nú, en vildi aðeins gera grein fyrir því, hvers vegna ég mun ekki greiða frv. þessu atkv. Eins og fram kemur í grg. hv. flm. frv., er eina breytingin, sem það gerir ráð fyrir frá núgildandi lögum um þetta efni, sú, að eins og er getur viðkomandi ráðherra því aðeins ákveðið frekari friðun einstakra svæða fyrir dragnótaveiðum, að fyrir liggi samhljóða meðmæli Fiskifélags Íslands og fiskideildar atvinnudeildar háskólans, en með þessu frv. er svo ákveðið, að ráðherra skuli aðeins leita umsagna þessara aðila, en geti síðan tekið ákvörðun um friðun alveg án tillits til þessara umsagna. Ég tel réttara að hafa ákvæði um þetta mál eins og áður, að þessir aðilar segi til um það, hvort frekari friðun sé nauðsynleg eða ekki, og að þeir hafi þá úrskurðarvald um það einnig, hvort henni verði komið á. Ég álít sem sagt ekki ástæðu til að gera breytingar á þessum lögum og mun því greiða atkv. á móti frv., en ég geri það ekki vegna þess, að ég sé á móti friðun þessara svæða, heldur er ég því fylgjandi, að hún fari fram, að svo miklu leyti sem fyrrnefndir aðilar telja heppilegt.