08.12.1950
Neðri deild: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (2272)

82. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Landbúnaðarnefnd hefur haft þetta mál til athugunar, og jafnframt því, sem upphaflega frv. hefur verið athugað, hafa komið fram 2 viðaukatillögur, önnur frá hv. þm. N-Þ. og hin frá hv. 1. þm. Rang.

Hvað snertir brtt. hv. þm. N–Þ., þá eru mjög svipaðar ástæður með þá jörð eins og þá, sem frv. er flutt um. Þessar jarðir hafa hvorug verið í erfðaleigu, og því þarf sérstaka löggjöf til að heimila, að þær séu seldar. Það virðast ekki vera neinir meinbugir á, að þessar jarðir séu seldar, það liggja fyrir frá sýslunum leyfi til þess frá þeirra hálfu. Að því er snertir kirkjujörðina Skoruvík, þá hefur nefndin enn fremur átt tal við vitamálastjóra, vegna þess að maðurinn, sem hefur gætt vitans, er jafnframt ábúandi, hvort vitamálastjórnin vildi hafa afskipti af þessu. Það var ekki, og mælti hann frekar með því, að svona væri breytt til.

Þá kom fram erindi frá 1. þm. Rang. um, að það væri heimiluð sala á 10 hektara spildu úr Tjaldhólalandi, sem skógrækt ríkisins keypti árið 1943, og var þá fyrirhugað að koma þar upp uppeldisstöð fyrir trjáplöntur; síðan var horfið frá því, og uppeldisstöðin sett að Tumastöðum í Fljótshlíð.

Þar sem þetta land hefur ekki verið nytjað af skógræktinni, sýnist ástæðulaust að halda því frekar, enda er þetta með fullu samþykki skógræktarstjóra, sem telur sig ekki hafa þörf fyrir landið eins og nú er. Þetta var selt undan býli, sem átti að verða nýbýli. Það var borgað upp lánið, sem á því hvíldi, svo að nýbýlastjórn hefur ekki neinar tekjur af því. Með sölu þessa lands til Þórarins Guðjónssonar er gert ráð fyrir, að landið verði aftur lagt undir hetta býli, eins og það var upphaflega. Nefndin mælir með. að þetta verði gert, en setur auk þess þau skilyrði, að þetta sé með fullu samþykki skógræktar ríkisins, og að jarðirnar verði gerðar að ættaróðali, svo að þær lendi ekki síðar í braski. Ég hef ekki meira að segja um þetta og óska eftir, að málið gangi til 3. umræðu.