08.12.1950
Neðri deild: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

82. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði út af spursmálinu um lán, þá er það hart, ef ríkisstj., sem á þrjá banka, ríkisstj., sem hefur veitt lán og styrki til að byggja upp mikinn hluta af húsum til sveita, — þá er það hart, ef hún getur ekki útvegað lán til að byggja upp á sínum eigin jörðum. Það er þá slæm stjórn á þessum málum, ef ríkisstj. á ekki auðvelt með að útvega þessi lán. Viðvíkjandi því, að byggingarnar verði dýrari, ef ríkið sér um þær, þá er það rétt, að framkvæmdir hins opinbera verða oft dýrari en hjá einstaklingum. En það ætti að mega komast hjá þessu til dæmis með því að semja við viðkomandi bændur um það, að þeir taki að sér byggingarnar í akkorði. Ef bændur gerðu ríkisstj. tilboð um byggingarkostnað eftir að hafa athugað sína möguleika, og ríkisstj. semdi við þá og hjálpaði þeim til að fá lán, þá mætti komast hjá því, að þetta yrði allt miklu dýrara. Hins vegar verður náttúrlega að fara eftir því, hve hagstæð tilboðin væru, og er auðvelt að hafa eftirlit með því, að kostnaðurinn fari ekki út í öfgar, enda er áhugi bænda á því að fá byggingarnar upp yfirleitt svo mikill, að ekki er mikil hætta á því, að þeir hefðu tilhneigingu til að draga framkvæmdirnar mjög á langinn, svo að það yrði til að auka byggingarkostnaðinn. En þessi mál er auðvelt að leysa, ef valdamenn þjóðfélagsins vilja hugsa um þau af sömu alúð og sinn eigin fjárhag.