12.01.1951
Efri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (2288)

82. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að þakka hv. n. fyrir það, að hún hefur tekið upp mína brtt. á þskj. 357. Varðandi brtt. n. um fyrirsögn frv. þá get ég fallizt á, að það sé réttara að orða fyrirsögnina eins og n. leggur til. — En úr því ég kvaddi mér hljóðs, þá vil ég aðeins minnast á þessa brtt. mína og ástæðurnar fyrir því, að hún er fram komin.

Menn munu minnast þess, að í fyrra var samþ. heimild fyrir ríkisstj. til að selja þjóðjörðina Bakka í Svarfaðardal ábúandanum þar, Þór Vilhjálmssyni. Nú legg ég til, að jörðina Bakkagerði í sömu sveit sé heimilað að selja ábúandanum Gesti Vilhjálmssyni, en Gestur er bróðir Þórs, og bjó faðir þeirra á Bakka, en Bakkagerði er nýbýli, sem byggt er úr Bakkalandi. Það liggja í rauninni alveg sömu ástæður til þess, að farið er fram á að selja Bakkagerði, eins og lágu til þess í fyrra, að farið var fram á að selja Bakka. Það sýnist jafnt á komið með þessum bræðrum, sem á þennan hátt hafa tekið við föðurleifð sinni, þó að sú föðurleifð hafi verið í ríkisins eign. Ég vil geta þess, að hv. 1. þm. N-M., sem ég átti tal við í gær og nú er forfallaður, lét þess getið við mig, að þessi heimild mundi vera óþörf, því jafnvel þó jörðin sé ekki í erfðaábúð, — og mér virðist þar af leiðandi að ábúandinn þyrfti að bíða í 3 ár þangað til hann gæti fengið jörðina keypta, — þá mundi mega selja honum jörðina nú þegar án heimildar, ef hann gerði hana að ættaróðali.

Ég skal ekki segja um það, hvort þetta er nákvæmlega eftir l. eða ekki, en a.m.k. ætti heimildin ekki að skaða, og þessi maður óskar frekar eftir sérstakri heimild, jafnvel þó það skilyrði sé sett fyrir sölunni, að gera þyrfti jörðina að ættaróðali eftir að sala færi fram. Mér sýnist þess vegna, hvað sem þessu liður, sem hv. 1. þm. N-M., búnaðarmálastjóri, segir um þetta, að það hljóti að vera útlátalaust að samþ. þessa heimild.