12.01.1951
Efri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

82. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, en hún er sú sama og til annarra sams konar mála, sem fram hafa komið hér í þinginu. Ég er andvígur því, að ríkið selji jarðir í sinni eigu og tel, að of langt hafi verið gengið í því. En ég vil ekki mótmæla því, að stöku sinnum álít ég það réttara, að ríkið selji jarðir úr sinni eigu. Það er eftirtektarvert, hversu fjölgað hefur beiðnum um að selja þjóðjarðir, og eru bersýnilega fleiri á leiðinni. Þetta er ekki undarlegt, þegar þess er gætt, að allir hlutir hækka í verði dag frá degi. Ég vil minna á og bendi jafnframt á, að samtímis því, að ríkið selur jarðir, er það að kaupa aðrar jarðir á ýmsum öðrum stöðum.

Hæstv. landbrh. sagði réttilega, að jarðirnar væru slæmar, og um það er ekki minnsti ágreiningur. Hann taldi, að það sé útilokað, að menn fari að braska með jarðirnar. Ég er honum ekki fyllilega sammála um þetta atriði, enda eru lögin ekki það gömul, að það liggi fyrir mörg dæmi um það. Það er hæpið, að nokkur maður geti staðið undir því að byggja upp á þessum jörðum, nema ríkissjóður leggi fram meira fé til bygginganna. Það mætti taka til athugunar, hvort ekki mætti eftir samkomulagi leggja fé til bygginganna og tryggja þá ábúandanum ábúðarréttinn. Er ekki rétt að gera yfirlit yfir þjóðjarðir og kirkjujarðir og athuga, hverjar ætti að selja? Ég álit, að rétt sé að vinda bráðan bug að þessu. Ég mun ekki veita þessu frv. lið á þeim rökum, sem ég hef drepið á áður í ræðu minni. Mér finnst full ástæða til þess að selja Árneshreppi þessa jörð, sem hæstv. landbrh. drap á, ef hreppurinn telur, að hún sé góð til að beita fé hreppsbúa á hana.