12.01.1951
Efri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í B-deild Alþingistíðinda. (2292)

82. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir vinsamlegar undirtektir undir tili. mína, þó að hann teldi ekki þörf á henni. Hefði ég heyrt þessa skýringu fyrr, hefði ég ekki borið fram þessa till. Þegar sams konar till. kom fram í fyrra, þá sagði þáv. landbrh., að heimild væri ekki fyrir hendi í lögum, nema um jarðir í erfðaábúð.

Ég hef ástæðu til að gera aths. við ræðu hv. 4. þm. Reykv., en ég sé, að hann er ekki í sæti sínu, og ætla ég því að hafa það örfá orð. Hann vill ekki selja jarðir í opinberri eign, og þýðir ekki að deila um það við hann. En það þarf ekki mikla þekkingu á sveitum landsins til þess að sjá, að undantekningarlitið er búið betur á jörðum, sem eru í eigu einstaklinga, heldur en á jörðum, sem eru í opinberri eigu. Frá því sjónarmiði, hvað henti landbúnaðinum betur, þá tel ég, að það sé bezt, að sem flestar jarðir séu í eigu ábúenda, því að það er staðreynd, að menn hugsa betur um sína eign en annarra. Hann taldi líka ástæðu til þess, að allt færi hækkandi, og væri þetta þá gróðavegur. Hæstv. landbrh. hefur minnzt á þetta, og vil ég engu bæta þar við, en ég vil benda á, að víða er önnur ástæða til þess, að menn vilja fá þessar jarðir keyptar, og hún er sú, að menn hika við að leggja tugþúsundir króna í byggingarkostnað, þegar þeir eiga ekki jarðirnar sjálfir. Við brottflutning eða dauða fá menn lítið endurgreitt af því fé, sem þeir hafa lagt í þessar byggingar. Ég hef flutt till. um, að jörð í Eyjafirði væri seld ábúandanum, en sú till. var felld vegna þess, að á henni er skóli, en þó var gert ráð fyrir því, að nóg landrými yrði tekið af jörðinni fyrir skólann. Ástæðan fyrir því, að ég bar þessa till. fram, var sú, að bærinn, sem bóndinn býr í, er að verða ónothæfur og framlag fæst ekki úr ríkissjóði til þess að byggja upp á jörðinni. Hv. þm. minntist á undantekningarákvæði í lögum um að ríkið legði fram vissa upphæð af byggingum í sveitum. Það eru undantekningarákvæði í lögum, en ekki eins og hann taldi, heldur í þveröfuga átt. Hvað mína till. snertir, þá er þessu ekki til að dreifa á þessari jörð, því að hún er eins konar ættaróðal, þó að hún sé í eigu ríkisins, og er það því eðlilegt áhugamál bræðranna að eignast hana. Auk þess fylgja till. meðmæli landbn. og efnislega meðmæli hæstv. landbrh., og ætla ég því ekki að fjölyrða frekar um hana, en tel hins vegar, að henni sé borgið.