12.01.1951
Efri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (2294)

82. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta mál hóf innreið sína í þingið á því, að hv. þm. Snæf. flutti frv. um að fá heimild til að selja jörðina Húsanes í Snæfellsnessýslu gegn því, að hún verði gerð að ættaróðali. Þá kom brtt. frá hv. þm. N-Þ. um, að upp í frv. verði tekin sams konar heimild viðvíkjandi jörðinni Skoruvík í N-Þingeyjarsýslu. Í 3. lagi kom fram till. frá hv. 1. þm. Eyf. um, að jörðin Bakkagerði í Svarfaðardal verði einnig seld með sama skilyrði, þ.e. að hún verði einnig gerð að ættaróðali. Þetta mál hefur velt upp á sig nokkuð miklu frá því, að það var fyrst fram borið. Í 4. lagi er komin till. um, að skógrækt ríkisins láti af hendi spildu af landi því, sem hún hefur til umráða. Og í 5. lagi boðar hæstv. landbrh. till. um að selja eina af eyðijörðunum á Ströndum, og sennilega án þess skilyrðis, að hún verið gerð að ættaróðali, en látið í veðri vaka, að hún kunni að byggjast, ef hún fer úr eigu ríkisins.

Það er ekki óeðlilegt, að umræðurnar snerti nokkuð grundvallar„principið“, hvort eigi að fara inn á það á næstunni að selja ríkisjarðir almennt. Þegar málið er komið í þennan farveg, get ég sagt, eins og hv. 4. þm. Reykv.: Ég er mjög smeykur við að taka afstöðu með frv. eins og þessu, því að mér finnst eins og það sé að byrja skriða, sem fellur þannig, að ríkið losar sig við þær jarðir, sem það hefur verið að kaupa á undanförnum áratugum, og þar tel ég vafalítið stefnt í öfuga átt við það, sem æskilegt er og við hagsmuni landbúnaðarins sjálfs. Það er ærið átak fyrir ungan bónda, sem ætlar sér að byrja búskap, að koma sér upp bústofni, þó að við það bætist ekki þungbær skuldabaggi við kaup á jörðinni, og þetta endurtekur sig svo hjá hverjum nýjum ábúanda. Við þessu er eingöngu hægt að gera með því, að eigandi jarðarinnar sé alltaf sá sami, þ.e. ríkið, og jörðin sé leigð með hóflegri rentu einum ábúandanum á fætur öðrum.

Ég tek eftir því, að í grg. fyrir frv. rökstyður hv. þm. Snæf. málið með því, að öll hús á jörðinni séu mjög úr sér gengin og því óhjákvæmilegt að byggja þau upp á næstu árum, en fé fæst ekki frá hinu opinbera nema af mjög skornum skammti. Vegna þess, hve ríkið rækir illa sína eigandaskyldu og byggir ekki upp á sínum eigin jörðum, þá vill bóndinn heldur kaupa jörðina og taka þannig á sig byrði í viðbót við bygginguna, til að byggja upp á sinni eigin jörð. Ástæðan er m.ö.o. sú, að ríkið svíkst undan sínum eigandaskyldum, og því er þessi skriða að byrja. Ríkið er eigandi að tugum ef ekki hundruðum af jörðum um allt land, en bregzt skyldu sinni gagnvart þeim. Menn vilja því heldur taka á sig aukna byrði með því að kaupa jörðina heldur en að byggja upp á annarra jörð.

Ég tók líka eftir því, að 1. þm. Eyf. rökstuddi sitt mál að nokkru leyti með því sama: Bærinn er að verða ónýtur, ríkið fæst ekki til að byggja eða taka þátt í því sem nokkru nemur. Bóndinn vill því kaupa, til að byggja svo upp á sinni eigin jörð. Það er fyrst og fremst vanræksla ríkisins á sínum eigin jörðum, sem gerir það að verkum, að verið er að sækjast eftir að kaupa þær aftur.

Ég er þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að leysa ríkið undan þessum skyldum, heldur stuðla að því, að það geti staðið betur við þær og ræki þær. Ég man ekki betur en að það séu veittar einar 200 þús. kr. á fjárlögum til endurbyggingar á ríkisjörðum í sveitum.

Ég spyr: Hverju sætir það, að landbrh. fram af landbrh. kemur ekki með neinar till. um, að þessar skitnu 200 þús. kr., sem veittar eru á fjárlögum til endurbygginga á ríkisjörðum, séu auknar? Er þeim ekki ljóst, að ríkið á að standa undir þessum skyldum? Það er ekki svo að sjá.

Ég hefði haldið, að það væri miklu nær, að ríkið legði fram nokkurt fé til að byggja upp á þessum jörðum og hjálpa ábúendunum þannig, en það verður ekki gert fyrir 200 þús. kr. á ári. Það er lagt fram fé af hálfu hins opinbera til að bæta hús manna, bæði í kaupstöðum og sveitum almennt, en til ríkisjarðanna er lagður smánarpeningur, sem kemur ekki að neinu gagni.

Ég gæti sagt ýmsar sögur í þessu sambandi, t.d. er í N.-Ísafjarðarsýslu ungur bóndi að taka við vildarjörð. Ríkið á hana 1/2, en foreldrar hans áttu hinn helminginn. Þarna þarf að byggja upp. Á jörðinni eru milli 20 og 30 nautgripir, stærsta kúabú við Ísafjarðardjúp. Það hefur verið farið fram á það 3 undanfarin ár, að ríkið legði fram nokkurn pening til að létta undir með bóndanum, stæði t.d. undir sinni eigandaskyldu til jafns við hinn fátæka, unga og efnilega bónda. En þessar 200 þús. kr. fóru auðvitað á fyrsta hálftímanum eftir að fjárlögin höfðu verið samþykkt. Það er ekkert hægt. Ríkið getur ekki stutt á neinn hátt að endurbyggingu á jörðum, þó að það eigi í þeim. Þá fara menn að neyðast til að fá jarðirnar til kaups og standa einir undir byggingarkostnaðinum í viðbót. Þarna er vafalaust stefnt í öfuga átt. Ríkið ætti að leggja fram margfalt fé á við það, sem nú er gert, annars fara jarðirnar í niðurníðslu; það mundi fara á sömu leið, ef það væri einstaklingurinn, sem svikist undan sínum eigandaskyldum. Góðir kostir góðs skipulags eru fótumtroðnir með þessari framkomu ríkisins.

Þá er það sá liður, sem hæstv. ráðh. boðaði, að hann mundi tengja við þetta frv., þ.e. að fá heimild til að selja jörðina Birgisvík í Strandasýslu. Hann. túlkaði það á þann veg, að ef jörðin kæmist í eigu einstaklings, þá mundi hún e.t.v. byggjast, og þar með yrði brúaður vegleysukafli, sem yrði til stórra bóta. Ég skal ekki mótmæla því út af fyrir sig, en ég álít, að rekajarðirnar á Ströndum eigi ríkið sízt af öllu að selja af þeim jörðum, sem það á á landinu; ég teldi mikla nauðsyn á, að ríkið eignaðist allar eyðijarðir á Ströndum, allt frá Reykjanesi að Aðalvík. Það hefur mikið verið sótzt eftir því af einstaklingum að kaupa þessar jarðir fyrir „sportprís“, og nokkrir einstaklingar hér í Reykjavík eru búnir að eignast jarðir þarna, og bændur, bæði í N.-Ísafjarðarsýslu og í Strandasýslu, vilja eignast þær fyrir lítið, til að geta gripið til að nota eitthvert hrafl af rekanum. Hver sem fer nú eða mun fara næstu ár meðfram strandlengju Hornstranda, mun sjá þar mikið gjaldeyrisverðmæti, sem lítið er notað, en stendur þar í mannhæðarháum stöflum frá ári til árs, skemmist og gengur úr sér sem verðmæti. Það er hörmung að horfa upp á slíka sóun gjaldeyrisverðmæta.

Ég álít, að ef ríkið ætti allar þessar jarðir samfelldar, þá væri hægt að koma fótum undir eina byggð einhvers staðar á þessari strandlengju og fela þeirri byggð að nýta á nýtízku hátt rekann á ströndinni, og þetta timbur, sem þarna er fyrir hendi, yrði svo notað í byggingarþörf þjóðarinnar.

Það eru þarna fleiri verðmæti, sem þarf að nota og eru illa nýtt núna. Það þykir dýrt að flytja inn ávexti, og það þykir kannske dýrt líka að framleiða egg, en það er hægt að taka egg í björgunum á Ströndum fyrir hundruð þúsunda króna á ári. Ég get nefnt eitt dæmi. Þrír ungir menn frá Ísafirði tóku egg fyrir 60 þús. kr., sem þeir seldu á Ísafirði og alla leið til Reykjavíkur. Þeir fengu þar 20 þús. kr. hlut á stuttum tíma, en þetta er bæði ill og lítil nýting á verðmætunum í Horn- og Hælavíkurbjargi. Ef byggð væri skipulögð til að nýta verðmætin þarna, þá væri betur farið. Ég álít, að ríkið þurfi að eiga jarðirnar þarna með öllum gögnum og gæðum og vinna að því með oddi og egg að koma þarna góðu skipulagi á, svo að eina nýtingin verði ekki hraflkennd rányrkja, eins og nú er. Ég vil því ekki mæla með, að Birgisvík eða nein önnur ríkisjörðin á Ströndum verði seld, þó að veik von sé til að hún byggist.

Það vilja margir einstaklingar eignast svona jarðir fyrir hagstætt verð, svo að þeir geti gripið til verðmæta þeirra, ef þeim býður svo við að horfa.