15.01.1951
Efri deild: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (2301)

82. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég tók satt að segja ekki eftir því, að fram kæmi fsp. frá 4. þm. Reykv. um þetta atriði, sem hv. þm. Barð. talaði um. Ég skildi ummæli hans þannig, að rétt væri að gera skrá yfir allar jarðeignir ríkisins, og er ég honum sammála um það, því að enda þótt slík skrá sé til, þá er hún engan veginn fullkomin. Auðvelt ætti að vera að gefa yfirlit um það, hve margar jarðir hafa verið keyptar á undanförnum árum. Síðan ég tók við þessu starfi, hefur engin jörð verið keypt, og þær munu vera fáar á þessu tímabili. Annars virðist þetta ekki standa í beinu sambandi við afgreiðslu þessa máls, og auk þess held ég, að hv. þm. Barð. hafi eitthvað misskilið 4. þm. Reykv. hvað þetta snertir.