15.01.1951
Efri deild: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (2303)

82. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Út af ræðu hv. 6. landsk. vildi ég segja það, að þó það sé svo orðað í frv. eins og hann las, að ríkissjóði sé heimilt að selja eftirtaldar jarðir með umræddu skilyrði, þá yrði það ekki skilið svo, að gera þurfi jörðina að ættaróðali nema þegar einstaklingur kaupir; annað væri ekki hægt, því að sýslun. og hreppsn. eiga að vísu afkvæmi, en ekki sem heild. Hér er við það miðað, að einstaklingar kaupi jarðirnar, og ég held, að engum misskilningi geti valdið, þótt þetta standi eins og það er.

Viðvíkjandi rekanum á þessari jörð, þá upplýsti ég, að hann væri sáralítill, og sjálf er jörðin hin næstminnsta í Árneshreppi. Mér fannst eins og nokkurs misskilnings gætti hjá hv. þm. í þessu sambandi; rekajarðir, sem ríkið gæti sameinað, liggja norðar, og þessi jörð er þvert úr leið, innst í Árneshreppi. Það mætti þá alveg eins hugsa sér að taka jörð eins og Kolbeinsvík, sem er rétt hjá og Árneshreppur keypti og á og lætur ekki nema með skilyrðum um ítök. Það ætti að vera trygging fyrir því, að hér fari ekkert í handaskolum, að jarðirnar eru ekki seldar nema með samþ. sýslun. eða hreppsn., og leyfi verður ekki veitt nema íbúum í viðkomandi hreppi í þessu tilfelli, og sennilega einum af þremur bændunum í Veiðileysu.