17.01.1951
Neðri deild: 51. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (2346)

77. mál, jeppabifreiðar o.fl.

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það hefur verið gerð allmikil breyt. á þessu frv. í hv. Ed. Í fyrsta lagi á þann veg, að svo er nú mælt fyrir í frv., að skrásetja skuli dráttarvélar allar á landinu eins og bifreiðar, og er það út af fyrir sig nokkur breyt. til óþæginda og kostnaðar. Er mér óskiljanlegt, að nauðsyn sé á að skrásetja dráttarvélar, sem bændur nota. Ef á að gera það, þá mætti, að mér virðist, alveg eins skrásetja sláttuvélar þeirra og heyvagna o.þ.h. Því að vitanlega er hægt að fylgjast með, hvað er til af þessum tækjum, dráttarvélunum, án þess að eigendur þeirra þurfi að kaupa númer á þær eins og bifreiðar. Hér er talað um, að greitt sé tíu kr. skoðunargjald. En eitt númersskilti kostar 40 til 50 kr., að mig minnir, og það bætist a.m.k. við þessar tíu kr., auk þess sem hér verður töluverður kostnaður að auki.

Svo er annað, sem hefur verið fellt úr og þar með breytt frv. Það kom hér fram í hv. þd. fyrr og var samþ. till. frá hv. landbn. á þskj. 245, sem orðaðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 2. gr. Aftan við a-lið (13. gr.) bætist: og skal nefndin vinna að því, þegar innflutningur er ákveðinn, að umsóknirnar séu teknar til greina þannig, að rétt hlutfall haldist milli dráttarvéla og jeppabifreiða“. En eins og frv. er nú, er ekkert þar um þetta atriði, heldur er þetta miklu loðnara og óákveðnara nú í frv. en áður var, er það fór frá þessari hv. d. Og væri það gert að l. eins og frv. kemur frá hv. Ed., þá væri engin trygging fyrir því, að jeppabifreiðar yrðu teknar þarna með, þegar um er að ræða að úthluta dráttarvélum. Þessi breyt. á frv. er að mínu áliti mjög slæm. Því að hv. Nd. afgr. málið með tilliti til þess skilnings, að það bæri að taka tillit til umsókna og þarfa bænda í þessum efnum, hvort sem um væri að ræða dráttarvélar eða jeppabifreiðar. En hv. Ed. hefur alveg lokað augunum fyrir þessu. Það er vitanlegt, að einum bónda hentar betur jeppabifreið en dráttarvél, ef hann býr langt frá þjóðvegi og á afskekktum stað, en býr þannig hins vegar, að hann geti notað jeppabifreið við landbúnað sinn verulega, svo sem til að slá og draga hey og fleira við landbúnað sinn. En mér skilst, að eins og frv. er komið frá hv. Ed., þá sé alveg gengið fram hjá þessari þörf á að taka tillit til þeirra bænda, sem eru afskekktir og geta notað jeppabifreiðar að verulega miklu leyti í staðinn fyrir dráttarvélar og geta auk þess notað jeppa fyrir samgöngutæki. — Ég felli mig því vel við, að umr. um þetta mál verði frestað og að hv. landbn. fái tækifæri til þess að taka þetta frv. til athugunar á ný og endurbæta það.