18.01.1951
Neðri deild: 52. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (2352)

77. mál, jeppabifreiðar o.fl.

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Mér finnst, að hv. 2. þm. Rang. sé að gera stórt mál úr litlu máli, þegar hann er að tala um kostnað og bifreiðarstjórapróf manna, sem stjórni dráttarvélum. Hér er alls ekki verið að tala um það, heldur er hér aðeins verið að tala um skrásetningu á þessum tækjum, sem hefur mjög lítinn kostnað í för með sér. Við vitum ekkert, hvað koma skal, og má vera, að það eigi eftir að koma á skyldutryggingum, og ef til vill verður svo eftir nokkur ár, að hæstv. Alþingi ákveður, að bifreiðarstjórapróf sé nauðsynlegt fyrir menn, sem stjórna eiga dráttarvélum. Þetta getur komið alveg eins, þótt við samþ. nú í dag þessa till. Það er ekki áfall, þótt komið verði á skyldutryggingum. Eins og kunnugt er, eru til vátryggingafélög, sem taka að sér tryggingu á þessum tækjum. Eru ýmsir, sem koma af frjálsum vilja og tryggja þessi tæki sín. Má vera, að það geti reynzt hentugt að hafa þau tryggð, ef slys ber að höndum, og hefur oft reynzt heppilegt að hafa tækin tryggð. Get ég ekki séð, að þetta geti orðíð óbærileg kvöð fyrir eigendurna. Í frv. er engin krafa um bifreiðarstjórapróf. en hvað verður í framtíðinni, vitum við ekki. Ég tel, að skrásetning sé mikils virði og jafnvel nauðsynleg. Nefndin, sem úthlutar tækjunum, þarf að vita, hverjir eiga tæki í landinu, en eins og nú er, er ekki hægt fyrir hana að vita það. Það er óeðlilegt, að þeim sé úthlutað, sem áður hafa átt þessi tæki. Oft er skipt um eigendur, og getur þá svo farið, að menn, sem eru nýbúnir að fá tæki, fái þau að nýju. Á s.l. ári reyndi jeppanefndin að fá upplýsingar um, hverjir ættu þessi tæki, en þær voru ekki nægilegar, og voru allmörg tæki, sem ekki fengust upplýsingar um hvar væru. Fellst nefndin á frv. óbreytt, en vill ekki, að því verði kastað milli deilda og dagi uppi.