08.12.1950
Neðri deild: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (2395)

46. mál, orkuver og orkuveita

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í hinum almennu raforkulögum frá 1946 er gert ráð fyrir því, að sérstök lög þurfi til þess að taka nýjar virkjanir í framkvæmd. Þetta hefur verið gert tvisvar síðan. 1947 var ákveðið að fela rafmagnsveitum ríkisins virkjun Fossár í Fróðárhreppi og Gönguskarðsár við Sauðárkrók og að koma upp aðalspennistöð fyrir Voga og Vatnsleysuströnd á Reykjanesi. Árið 1949 var ákveðið, að þrjár virkjanir skyldu teknar upp: Við fremri Laxá í Austur-Húnavatnssýslu, við Þverá úr Þriðriksvallavatni í Strandasýslu og Þrándargil í Laxárdal. Sumar þessar virkjanir eru þegar komnar í framkvæmd, þ.e.a.s. þær tvær virkjanir, sem samþ. voru 1947, og hinar þrjár nokkuð á veg komnar. Nú liggur fyrir frv. um að bæta hér við einni virkjun, þ.e. virkjun Fossár í Norður-Ísafjarðarsýslu, er framleiði raforku fyrir Bolungavík og Hólshrepp. Iðnn. hefur rætt við flm. þessa frv., hv. þm. N-Ísf., og fengið skriflega umsögn raforkumálastjóra, sem er prentuð sem fylgiskjal með nál. Hann hefur gert þá brtt., að í stað orðanna 700–1000 hestöfl komi allt að 700 hestöfl, því að stærri virkjun komi vart til greina sakir vatnsskorts. N. hefur í samræmi við þessa ábendingu raforkumálastjóra flutt eina brtt. Í öðru lagi hefur n. flutt aðra brtt. í samræmi við ákvæði l. frá 1949, um að framkvæmdir skuli ekki hafnar, fyrr en fyrir liggi kostnaðaráætlanir og fé til framkvæmdanna. Með þessum tveimur breytingum mælir n. eindregið með því, að frv. verði samþ.