12.01.1951
Neðri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (2408)

46. mál, orkuver og orkuveita

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er langt síðan gerðar voru áætlanir á vegum raforkumálastjóra, hvernig hægt væri að koma raforkumálum Austurlands eitthvað áleiðis. Fyrir nokkrum árum var gerð áætlun um að byggja mjög stóra rafveitu fyrir svo að segja allt Austurland, sem gerð væri í Lagarfljóti eða Gilsárvötnum á Fljótsdalsheiði. En eftir því sem þetta var skoðað betur, þótti sýnt, að hér væri svo mikið mannvirki, að ekki væri hægt að gera ráð fyrir, að í þetta yrði ráðizt. Það varð því niðurstaðan að koma upp í flestum þorpunum diselrafstöðvum, en fyrir sveitirnar er ekkert hægt að gera að þessu sinni. En áfram var haldið að athuga virkjunaraðstæður, og þar kom, að raforkumálastjóri áleit, að helzta úrræðið væri að byrja framkvæmdirnar með því að virkja Grímsá í Skriðdal á þann hátt, sem lagt er til í brtt. iðnn. Þessum undirbúningi öllum, sem búinn er að standa lengi, var ekki að fullu lokið, fyrr en langt var liðið á þennan þingtíma. Kom þá tvennt til álita fyrir okkur þm., að flytja sérstakt frv. eða að flutt væri í samráði við iðnn. brtt. við frv. það, er fyrir lá um rafveitu fyrir Bolungavík, og varð það ofan á. Það má vel vera, að hitt hefði verið réttara, en þar sem þessi háttur hefur verið hafður áður hér, að fleiri en ein rafveita væri ákveðin í sama frv., fannst okkur eðlilegt að fara þá leið. N. hefur tekið þessu máli vel og athugað það gaumgæfilega, og niðurstaðan varð sú, að hún tók þessa till. upp. Áætlaður virkjunarkostnaður er tæpar 2 millj. kr., og er ætlazt til, að Egilsstaðaþorp, sem nú er í myndun, fái þaðan raforku og sömuleiðis Eiðar, sem líka eru í vexti, og bæir í hreppunum þar í kring, fyrst tiltölulega fáir, en síðar vonandi fleiri.

Málið hefur verið athugað í n., og hefur undirbúningur staðið lengi yfir af hendi raforkumálastjóra. Þetta er einasta framkvæmdin í raforkumálum, sem hægt er að gera fyrir Austfirðingafjórðung, eins og nú standa sakir. Og þegar þess er gætt, hvað miklar raforkuframkvæmdir hafa verið gerðar í öðrum landsfjórðungum, þá vænti ég, að hv. þm. skilji, að það er ekki til mikils mælzt, þó að þess sé farið á leit, að þessi rafveita komist upp, svo að það sé hægt að sýna einhverja viðleitni í þessum málum, því að ef ekki er hægt að sýna neina viðleitni víðs vegar um land, þar sem aðstaðan er lakari, þá er hætt við, að fólkið missi kjarkinn og trúna á, að þessi miklu þægindi, sem raforkan er, muni nokkurn tíma falla því í skaut, missi kjarkinn til að halda uppi sinni framleiðslu. Og með tilliti til þess, að mjög er áliðið þessa þings, vil ég eindregið fara þess á leit, að hv. þm. treysti sér til að styðja n., sem er einhuga um þetta mál, og það er mjög mikil trygging, treysti sér til að fylgja málinu, án þess að til þess þurfi að koma, að það verði fyrir töfum. Stofnkostnaðurinn er um 2 millj. kr., og síðan koma orkuveiturnar til viðbótar á sínum tíma, og verður þá metið, hversu mikinn stuðning skuli veita þar af hendi ríkisins.

Ég vænti því af þessum upplýsingum, að menn sjái sér fært að styðja málið, en tefja ekki fyrir því.