12.01.1951
Neðri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (2411)

46. mál, orkuver og orkuveita

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Út af þeim ummælum hv. 2. þm. Rang., að óeðlilegt sé að koma með þessa skrifl. brtt. við 3. umr., langar mig til þess að skýra það nánar.

Málið kom til iðnn. skömmu fyrir þinghlé, og óskuðu þá einstakir nm. að því yrði frestað, til þess að þeir gætu kynnt sér málið nánar. Nú var það ætlunin að athuga það í n. fyrir þinghlé, en form. n. gat ekki mætt á fundi þá, svo að fundur var afboðaður.

Svo vil ég vekja athygli á einstökum atriðum í bréfi raforkumálastjóra. En hann hefur gert grein fyrir kostnaði og tekjuliðum og finnur hann út í því sambandi, að styrkþörfin sé allmikil, til að vega á móti hallanum, eða 1.150.000 kr., og yrði þá að veita 850.000 kr. úr ríkissjóði. Síðan segir hann: „Það er ekki hærri styrkur, miðað við notendafjölda, en veittur hefur verið til ýmsra annarra héraðsrafveitna til sveita.“

Í umsögn raforkumálastjóra um orkuveituna til Bolungavíkur segir, með leyfi hæstv. forseta: „En ef treysta má því, að rafmagnsveitum ríkisins verði séð fyrir nauðsynlegu fjármagni til að leysa af hendi þau verkefni, sem þeim eru ætluð, og ef sýnt þykir, að fjáröflunar vegna sé heppilegra, að framkvæmd á virkjun Fossár í Hólshreppi verði í höndum rafmagnsveitna ríkisins heldur en í höndum hreppsins, þá kemur að sjálfsögðu til mála að fela rafmagnsveitunum byggingu og rekstur virkjunarinnar.“

Hann hefur ekki sterkari orð um þetta, og í bréfi sínu um Grímsárvirkjunina segir hann á sama hátt, að til mála komi að reisa 750 ha. orkuver við Grímsá, „ef ganga má út frá því, að samtímis verði komið upp héraðsrafmagnsveitu ríkisins um framangreint orkuveitusvæði með styrk úr ríkissjóði, er svari til þess, sem veitt hefur verið til ýmsra veitna um sveitabyggðir.“

Þessi ummæli eru hliðstæð þeim, sem hann hefur viðhaft um virkjun Fossár og orkuveitu til Bolungavíkur.

Það er fyrirsjáanlegt, að framkvæmd á stórum virkjunum fyrir Austfirði alla verður ekki í náinni framtíð, en að því er raforkumálastjóri heldur fram, er þessi virkjun við Grímsá heppileg.

Það er á valdi hæstv. forseta að segja til um, hvort hann vill fresta málinu nú, en ég sé enga þörf á því. Þessi viðbót hefur engu minni rétt á sér en það, sem nú þegar er í frv.