03.11.1950
Neðri deild: 15. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (2427)

57. mál, lóðaskrásetning á Akureyri

Flm. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt að beiðni bæjarstjórnar Akureyrar, og er tilgangurinn sá að koma gleggri skipun en verið hefur á lóða- og fasteignamál bæjarfélagsins. Eftir því sem bærinn hefur stækkað, hefur þörfin aukizt á því að hafa sem beztar heimildir um lóðir og lönd í bænum og eignarrétt á þeim. Í frv. er gert ráð fyrir, að bæjarstjórnin láti mæla allar lóðir og lönd innan takmarka kaupstaðarlóðar Akureyrar og gera nákvæman uppdrátt af þeim. Skal uppdrátturinn sýna greinilega takmörk hverrar lóðar og afstöðu til nágrannalóða og grunnflöt húsa þeirra og mannvirkja, sem á lóðinni eru. Síðan eru nánari fyrirmæli um, hvernig þetta verk skuli unnið. Árið 1914 voru sett l. um mælingu og skrásetningu lóða í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, og er þetta frv. að mestu leyti samið eftir þeim lögum. Þó eru gerðar allmiklar breyt. í þessu frv. um skipun merkjadóms, og er aðalbreyt. sú, að bæjarfógeti Akureyrar skuli skipa forsæti í dóminum. Er gengið út frá í frv., að mál fyrir merkjadómi sæti sömu meðferð og einkamál í héraði. Að sjálfsögðu verður fylgt þeirri venju, sem skapazt hefur um meðferð merkjadómsmála í Reykjavík. Á þessu stigi tel ég ekki ástæðu til að fara frekar út í frv. og tilgang þess, en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og allshn.