02.02.1951
Efri deild: 60. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (2445)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Eins og gefur að skilja, vildi ég engan þátt eiga í flutningi þessa frv., enda er það hið hróplegasta ranglæti. Hér er um það að ræða, að verkamenn fái ekki neina uppbót á kaup sitt eftir 31. jan. 1951, þótt verðlag hækki. Þetta er í algerri mótsetningu við ákvæði gengislækkunarlaganna frá í marz í fyrra, þar sem lofað var kauphækkun samkv. vísitölu fram til 1. ágúst þessa árs. Þetta var líka meiningin með þeim lögum, sem sett voru fyrir jólin, þótt svona hafi nú tekizt til. Í greinargerð frv. og í ræðu hæstv. forsrh. var stefna ríkisstj. skýrð. Þessi stefna er ný upptugga á hagspeki Ólafs Björnssonar. Það þýðir ekki að hækka kaupið, því að það eykur aðeins dýrtíðina að sama skapi. Mætti ég þá spyrja: Hvers vegna var verið að setja inn í gengislækkunarlögin ákvæði um kauphækkun samkv. vísitölu fram til 1. ágúst 1951? Mér virðist, að hér séu þeir háu herrar komnir í alvarlega mótsögn við sjálfa sig. Þessar kenningar Ólafs Björnssonar hafa verið hraktar svo rækilega, að þar er ekki þörf að bæta neinu við. Meðan tekjur þjóðarinnar eru 40–50 þús. kr. á 5 manna fjölskyldu og sumir einstaklingar hafa hundruð þúsunda í árstekjur og verzlunareinokunin er í algleymingi, þá þýðir ekki að koma til verkamanna og segja þeim, að þeir verði að þrengja kost sinn, vegna þess að ekki sé meira til skipta. Það er staðreynd, að tekjur 5 manna verkamannafjölskyldu, þar sem fjölskyldufaðirinn hefur fasta vinnu, nema nú ekki hærri upphæð en svarar elli- og örorkubótum á hvern fjölskyldumeðlim, og síðan eiga tekjurnar eftir að rýrna enn meira, þar sem atvinnuleysið knýr á dyr. Þá verða tekjurnar enn minni en elli- og örorkubætur. Hvað segja hæstv. ráðherrar t.d. um kjör verkamanna í Bíldudal? Þar hafa meðaltekjur verkamannaheimilis verið í sumar 160–200 kr. á mánuði á hvern einstakling, meðan aðrir hafa árstekjur, sem nema hundruðum þúsunda. Er nú hægt að ætlast til, að þessir menn fallist á hagspeki Ólafs Björnssonar? — Spurningin er því sú, hvernig verkalýðurinn á að verjast þessum árásum, sem ekki eiga sinn líka í sögu Alþingis.

Þegar hæstv. viðskmrh. talaði hér um breytingarnar á gengislækkunarlögunum fyrir jólin, fullyrti hann, að breytingarnar á lögunum þýddu frelsi verkalýðsfélögunum til handa. Það var erfitt að skilja þessa yfirlýsingu öðruvísi en svo, að löglegir samningar verkalýðsfélaga skyldu vera í gildi án afskipta ríkisvaldsins. Þannig var bókstafur laganna, og samfara þessu bættist við yfirlýsing hæstv. ráðh., og auðvitað hlutu verkalýðssamtökin að taka hana alvarlega, og þess vegna auglýstu verkalýðsfélögin, að þau mundu krefjast kaups samkv. fullri vísitöluuppbót, eins og samningar þeirra heimila. Þetta frv. sannar nú, að orð hæstv. ráðh. voru ekki annað en fleipur og blekkingar og ríkisstj. ætlaði ekki að virða samninga verkalýðsfélaga. Og enn þá er vegið í sama knérunn. Þegar slík aðferð sem þessi er viðhöfð, er það hrein ósvífni og hræsni að segja, að verkamönnum sé frjálst að semja, þar sem hægt er að gera ráð fyrir, að Alþingi ógildi jafnharðan alla samninga. Af þessu hlýtur að leiða, að að því rekur, að öll verkföll verða verkföll gegn ríkisstj. Þetta var það, sem gerðist, þegar gerðardómslögin voru brotin á bak aftur. Þá varð ríkisvaldið að láta undan síga fyrir samtökum verkamanna.

Þá er líka annað atriði, sem vert er að hafa í huga, að þetta frv. sannar, að hinn lagalegi réttur verkamanna til að fá laun sín greidd samkv. vísitölu er fyrir hendi. Ef stjórnin telur, að hægt sé að skilja lögin öðruvísi en verkalýðssamtökin hafa túlkað þau, hvers vegna er hún þá að flytja þetta frv.? Það er áreiðanlegt, að annars hefði ríkisstj. ekki lagt út í þá Canossagöngu, sem þetta frv. er. Ríkisstj. hefði líklega ekki hikað við að treysta hér á þegnskap dómstólanna. En hér er lagastafurinn ótvíræður, og því var ekki hægt að leggja það á dómstólana að dæma atvinnurekendum í vil. Þetta sannar líka, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki haft neitt gott í huga, þrátt fyrir hin fögru orð hæstv. viðskmrh. Það hlýtur því að vera sár raun fyrir hann að þurfa nú að bera þetta frv. fram.

Hér er talað um, að lögin eigi að gilda frá l. febr., en mér sýnist, að slíkt ákvæði fái ekki staðizt. Það þykir ekki tækilegt, að lög verki aftur fyrir sig. Verði þetta samþykkt óbreytt, þá hefur Alþingi orðið á ein skyssan enn, og er það kannske til að fullkomna vanskapnaðinn. Ég skora því á deildina að fella þetta frv. Áður hef ég bent á, að frv. þetta muni stuðla að ófriði í atvinnulífinu, og það er óvarlegt að treysta atvinnuleysinu allt of mikið sem bandamanni.