02.02.1951
Efri deild: 60. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég get skilið, að mönnum þyki tvímælis orka, hvort þörf sé að setja þessa löggjöf, sem hér er ráðgerð, vegna þess að það, sem í frv. er sagt, sé þegar fullskýrt sagt í lögum nú þegar, og þess vegna sé frv. e.t.v. óþarft. Og vissulega fyndist mér stjórnin miklu ámælisverðari fyrir það heldur en fyrir það, að hún sé nú að reyna að byrja einhverja kúgunarstarfsemi á hendur verkalýðsfélögunum. Hv. 6. landsk. þm. hélt því fram, að hér væri nú ráðgerð mikil herferð á hendur verkalýðsfélögunum og að það ætti að beita þau fáheyrðu ofbeldi. — Sannleikurinn er sá, að það ofbeldi er ekki meira en svo, að verið er hér að lögfesta það, sem öllum kom saman um, að væri meining löggjafans að lögfesta fyrir jólin. Þá gaf enginn þá skýringu á núgildandi 1., sem síðan er komin fram. Það er vitað mál, að nú er kominn upp um þetta ágreiningur. Og það er eðlilegt, þegar slíkur ágreiningur er upp kominn, að þeir, sem settu l., — úr því að þeir eru staddir hér enn, — segi til um það alveg skýlaust, hver ætlan þeirra hafi verið. Það var alveg skýlaust sagt á þeim tíma af stjórnarandstöðunni, — það var sagt hér í þinginu og það var sagt í andstæðingablöðunum, og það var m.a. skýlaust sagt í málgagni hv. þm., sem síðast talaði, hv. 6. landsk. þm., Alþýðublaðinu, í gær, að sú hefði verið ætlun löggjafans, sem nú er verið að lögfesta. Það var einnig sagt í samþykktum Alþýðusambandsins, sem birtar voru í Alþýðublaðinu 20. des. s.l., þar sem því er mótmælt, að það sé kveðið svo á, að frá 1. febr. 1951 skuli laun ekki taka breyt. samkv. ákvæðum gengislaganna um vísitöluuppbót. Hvaða ástæða var til þess að vera að mótmæla því, að laun skyldu ekki eiga að taka breyt. á þeim tíma, 1. febr. 1951, ef það var ekki meint með l., að kaupið skyldi ekki hækka? Hví var þá verið að mótmæla því, að ekki mætti borga laun eftir hærri vísitölu en 123, ef ætlunin hefur verið eftir þeim 1., sem þetta frv. er breyt. við, að félögin gætu fyrirhafnarlaust fengið greidd laun eftir vísitölunni 128? Það var ekki nokkur hugsanlegur möguleiki til þess, að Alþýðusamband Íslands hefði verið að mótmæla þessari lagasetningu, þar sem það var afnumið, sem í eldri l. stóð, að vísitalan, sem kaup yrði greitt eftir, ætti að vera bundin í 123 fram á mitt ár 1951, ef það var álitið, að félögin hefðu getað fengið fyrirhafnarlaust tryggt kaup eftir vísitölunni 128 í febrúar 1951. Það er alveg ljóst, að mótmæli Alþýðusambandsins voru fjarstæða, ef það þá taldi, að þessi væri afleiðing laganna. Þetta liggur í augum uppi og þarf ekki frekari útskýringa við. Það er sannað, að það vakti bæði fyrir stuðningsmönnum l., sem sett voru fyrir jólin, og andstæðingum, að verið væri að lögfesta það sama sem nú er alveg skýlaust ákveðið í þessu frv., sem fyrir liggur og er um breyt. á þeirri löggjöf eða til að gera hana ótvíræða. Það er hins vegar kominn upp um þetta ágreiningur, sem byggist á því, að í allmörgum samningum milli atvinnurekenda og verkamanna er kveðið á um, að kaup skuli greitt eftir vísitölu. Nú er það þannig, að flestir þessir samningar eru, samkv. því sem stjórn Alþýðusambandsins tjáði ríkisstj. fyrir skömmu, frá 1939 og 1940 og hafa að þessu leyti haldizt óbreyttir síðan. A.m.k. eru þeir langflestir frá því áður en gengisl. voru sett. Þeir eru sem sagt miðaðir við allt annað grunnkaup en það, sem nú er búið að setja, allt aðra vísitölu og allt annan vísitöluútreikning. Frá því að þetta ákvæði var tekið inn í samningana, hefur það tvennt gerzt, að stjórn, sem Alþfl. veitti forustu, bannaði um áramótin 1947 og 1948 að borga uppbætur á kaup hærri en samkv. vísitölunni 300, þannig að þá var beinlínis skertur réttur launþeganna til þess að fá fulla vísitölu greidda, og var sú skerðing vissulega miklu meiri skerðing á rétti launþeganna en verið er að setja nú. — Enn fremur hefur það gerzt, að á s.l. ári var að vísu þessi skerðing á rétti til vísitölu felld úr gildi, en í stað þess var sett og ákveðin alveg gerbreyting á útreikningi grunnkaups og gerbreyting á útreikningi vísitölunnar. Það er því augljóst, að þeir samningar, sem eru gerðir áður en þetta tvennt kom til, geta ekki lengur átt við. Og þess vegna hygg ég að ekki geti leikið á tveim tungum, að það að ætla að krefjast vísitöluuppbótar samkvæmt þeim samningum, eins og verkalýðssamtökin nú a.m.k. að nokkru leyti hafa gert, fær ekki staðizt. En það breytir ekki því, að á löggjafanum hvílir ótvíræð skylda til að láta uppi, hver ætlan hans var í þessu, sú ætlan, sem öllum kemur saman um, að hafi verið ætlan löggjafans, þegar l. voru sett. Með því er komið í veg fyrir langvarandi deilur fyrir dómstólum og réttaróvissu, sem ekki má eiga sér stað í slíkum málefnum sem þessum. Í 1. gr. þessa frv. er sem sé ekkert annað sagt en það, sem ætlan manna var að ákveða í l., sem sett voru fyrir jólin. Ef þau ákvæði eru ekki talin nógu skýr, hvílir á engum frekar en því sama Alþ. sem þau setti að gera þau ótvíræð, — og það því fremur, sem ljóst er, að það, sem ætti að koma í staðinn samkv. kenningu verkalýðssamtakanna nú, getur ekki staðizt, því að hvernig ætti að vera hægt að krefjast vísitölu nú eftir samningum, sem miðuðu við allt aðra vísitölu, allt annað grunnkaup og allt annan vísitöluútreikning en nú er? Nei, það er sannast bezt að segja, að það kann að vera, að lögin frá því í vetur hafi ekki verið nógu ljós. Ég býst við, að það sé í góðri trú á það, sem þessum athugasemdum við þau hefur verið hreyft af alþýðusamtökunum og þessar kröfur bornar fram. En það liggur í augum uppi, að bæði eðli málsins, tilgangur löggjafans og afleiðingar af því, ef fallizt yrði á að hafa þessa óvissu, er slíkt, að ekki er um að deila, og að löggjafanum ber vissulega að staðfesta þá skoðun, sem hann fyrr lét uppi og ætlaði þá að væri ótvíræð. Ég get þess vegna ekki séð, hvernig hægt er að taka þetta frv. sem nokkra sérstaka ögrun við verkalýðinn eða hans samtök.

Í sjálfu sér fyndist mér það ekki skipta ýkjamiklu máli, hvort ríkisstj. þyrfti að láta í minni pokann eða „skríða á maganum“, til þess að ná sættum við verkalýðssamtökin, ef slíkar sættir mættu takast. Mér finnst það eigi að ganga ofar öllu öðru í okkar þjóðfélagi, að sættir geti átt sér stað um slíkt mál sem þetta, og tel það miklu meira máli skipta en stærilæti eins eða annars. Og ég tel sannast sagt, í sambandi við ögranir hv. 6. landsk. þm. og ásakanir á hendur ríkisstj. fyrir óbilgirni, sem einmitt á að hafa lýst sér í því, að ríkisstj. lét undan óskum verkalýðssamtakanna og afnam lög, sem ríkisstj. viðurkenndi að kæmu harkalega niður, — mér finnst þetta, sem ríkisstj. þar gerði, ekki benda til þess, að ríkisstj. hafi sýnt hörku eða óbilgirni, heldur að hún hafi sýnt samningalipurð og vilja til þess að afstýra vandræðum. Það er þess vegna svo gersamlega ástæðulaust að vera með þær ásakanir á ríkisstj., að það er þvert á móti hægt að sýna fram á, að hún hefur sýnt ýtrasta vilja til þess að hafa gott samstarf við verkalýðssamtökin og vill vissulega enn hafa það samstarf.

Og hver er þá bessi ógurlega kúgun, sem er verið að lögfesta? Hvaða helfjötur er það, sem er verið að leggja á verkalýðsfélögin? Er það sá fjötur, að þau megi kannske ekki breyta sínu kaupi á þessu ári? Er það sá fjötur, að vísitöluhækkun á kaupi sé með öllu bönnuð? Nei, það er síður en svo. Það stendur allt óhaggað, sem hv. þm., sem síðast talaði, 6. landsk., las úr ræðum þeirra hv. þm. Barð. og hæstv. viðskmrh. Það stendur allt óhaggað. Verkalýðsfélögin hafa fullt samningsfrelsi samkv. þessum l. Öll þau félög, sem nú hafa ósamið, mega fyrir þessum 1. setja í sína kjarasamninga þau ákvæði, sem þau geta þar að komið með samningum við atvinnurekendur. Það er ekki ætlunin með þessari löggjöf að banna það á einn eða annan veg. Og félögin hafa fulla heimild til þess að segja upp samningum og koma fram þeim svo kölluðu kjarabótum, sem þau frekast geta gert. Þau hafa fullan rétt til þess. Það eina, sem sagt er með þessari löggjöf, sem nú á að setja, er, að það sé ótvírætt, að það sé ekki hægt að nota tíu ára gömul ákvæði, sem eðli málsins samkvæmt eru fyrir löngu fallin úr gildi, til þess að knýja fram fyrirhafnarlaust hækkun, sem engum manni datt í hug fyrir jólin að falizt gæti í þeirri löggjöf, sem þá var verið að setja. Eða hverjum dettur í hug, að það hafi vakað fyrir Alþ. að afnema þá takmörkun, sem var á vísítöluútreikningnum, til þess að gera verkalýðsfélögunum hægt fyrirhafnarlaust að hækka kaup þannig, að greidd væri á það full vísitöluuppbót? Hverjum datt í hug fyrir jólin, að þetta vekti fyrir löggjafanum? Og hverjum dettur í hug, að þetta hafi verið meiningin hjá þeim, sem eru, e.t.v. af veikum mætti, — því að um það verður að taka gild frýjunarorð hv. 6. landsk. þm., að það sé af veikum mætti, — að berjast gegn dýrtíðinni? Það er hægt að kúga ríkisvaldið íslenzka, það er ekki svo sterkt. En það er verið af veikum mætti að berjast gegn dýrtíðinni. Og hverjum dettur í hug, að ætlunin hafi verið sú að afnema þær litlu hömlur, sem lágu gegn því, að full vísitöluuppbót yrði greidd þannig að félögin gætu tekið fulla vísitölugreiðslu sér alveg að fyrirhafnarlausu? Nei, það, sem vakti fyrir mönnum fyrir jólin, er það, sem vakir fyrir mönnum enn í dag. Og það vil ég biðja hv. 6. landsk. þm. að athuga og skírskota til vitsmuna og drengskapar og þjóðhollustu forustumanna verkalýðshreyfingarinnar um það, að þeir geti ekki skotið sér undir nein kúgunarákvæði eða lögþvingun af hálfu Alþ. og ríkisstj., heldur verða þeir sjálfir að gera upp sinn hug um það, hvort þeir telji efnahagsástandið í málefnum landsmanna vera þannig, að það gefi tilefni til nýrra stórfelldra kauphækkana. — Ég játa, að forustumenn verkalýðsfélaganna, þar á meðal hv. 6. landsk. þm., hafi ekki átt annars úrkosta, úr því að samningarnir voru eins og þeir voru, heldur en að reyna að gera þá gildandi, vegna þess að annars hefðu kommúnistar sagt við þá: Þið eruð svo aumir, að þið reynið ekki að framfylgja gildandi rétti. Og það viðurkennist, að þetta var ill aðstaða fyrir þá. — En þá verður að ætlast til þess, að löggjafinn láti koma fram, hvað fyrir honum vakti. Og það hefur ekki staðið á ríkisstj. að gera það. Og þess vegna er þetta frv. fram borið. En það liggur þá líka fyrir, að þessir samningar verkalýðsfélaganna, sem gerðir voru undir allt öðrum atvikum, þeir gilda ekki og leiða ekki til sjálfkrafa hækkunar. En réttindi verkamanna í verkalýðsfélögunum eru alveg óskert til þess að koma fram hverjum þeim umbótum á kjörum sínum sem þeir treysta sér til og telja skynsamlegt að gera, hafa afl til að knýja fram og fá atvinnurekendur til að sætta sig við. Þeir hafa öll réttindi til þess. alla möguleika til þess. Sannleikurinn er sá, að hvað sem menn segja um þessi ákvæði, samninga, sem segja má, að hér verði felldir úr gildi. þá vitum við það auðvitað allir, að verkalýðsfélögin gerðu sér það ljóst, að sá réttur var svo hæpinn undir öllum kringumstæðum, að það var meir en óvíst, að hann yrði tekinn til greina. Þess vegna var ekkert hægara fyrir félögin. ef þau vildu fá alla samninga lausa, en að knýja fram kauphækkun þegar í stað eða að segja upp samningum strax um áramót, til þess að geta byrjað kjarabaráttuna, sem þeir svo kalla, strax 1. febr. Það var tekið sem merki um skilning hessara manna á ástandinu og vilja verkamanna til þess að hleypa ekki öllu hér í öngþveiti, að þetta var látið hjá líða, og þá datt mönnum ekki í hug, að stæði fyrir dyrum, að samningunum yrði beitt á þennan veg, sem nú er ætlazt til.

Ég vil nú eindregið beina því til þess hv. þm., sem síðast talaði, — ég veit, að hann tekur ekki mikið mark á orðum mínum, ég geri mér engar tyllivonir um það, en segi það nú við hann af heilum hug og áhyggjum yfir því ástandi, sem er fram undan í okkar þjóðfélagi, að hann ætti að hugsa sig tvisvar um, áður en hann beitir þeim miklu áhrifum, sem hann hefur í verkalýðshreyfingunni, til þess að koma á stað verkfallsöldu eingöngu til þess að fjandskapast við ríkisstj. (HV: Slík er ekki ástæðan.) Þá er það allt annað mál. Ef þm. telur. að atvinnuástandið sé þannig og efnahagsástandið, að það sé rétt að knýja fram kauphækkanir, þá hefur hv. þm. alla möguleika til þess, því að það eru samkvæmt því, sem hann sagði sjálfur, lausir margir samningar, og hann veit, að flest félögin hafa eins mánaðar uppsagnarfrest. En það skyldi þó ekki vera þannig, að bæði þessum hv. þm., þegar hann athugar málið rólega, og eins verkamönnum væri ljóst, að hagur þeirra af nýjum kauphækkunum væri meir en vafasamur? Ég er ekki vanur að bera með mér svona heimildarskjöl. en ég hef þó séð bækling, sem Alþýðusambandið lét gefa út í sumar um þessi málefni. þar sem mjög ýtarlega er gerð grein fyrir því, að verkamönnum sé sízt hagur að því að knýja fram almennar kauphækkanir, eins og nú standa sakir. Ég tel, að það væri þjóðarógæfa, ef út í þá baráttu væri lagt, því að ég tel, að ástandið sé þannig, að ekki sé hægt að borga hærra kaup. Ég segi það ekki sem neina hótun við neinn, en tel, að ef nú yrðu knúðar fram nýjar kauphækkanir, þá mundi afleiðing þess annaðhvort verða ný gengisfelling eða nýir stórfelldir skattar í einhverri mynd, sem Alþ. neyddist til að leggja á til þess að greiða halla atvinnuveganna. Já, hvaða afleiðingar aðrar sjá menn af þessu? Ég tek það fram, að ég er ekki með neinar hótanir í þessum efnum, heldur vil ég eindregið, eins og aðrir í núv. ríkisstj., hafa gott samstarf við Alþýðusambandið og tek rólega við öllum frýjunarorðum um skriðdýrshátt og annað slíkt, sem borið er fram við okkur. Við viljum hafa gott samstarf við þessa menn, og ef sá hv. þm., sem síðast talaði, meinar það, að hann vilji ekki koma á stað verkfalli eingöngu gegn ríkisstj.. þá á að vera grundvöllur til þess að ræða þetta mál efnislega til þess að gera sér rólega grein fyrir því, hvort grundvöllur er fyrir því efnahagslega hjá þjóðinni að hækka kaupið.

Þá var hv. 4. þm. Reykv. eitthvað að tala um leiktjöld í sambandi við 2. gr. frv. Ég get fullvissað hann um það, að þetta er mesti misskilningur, og ég hygg. að hv. þm. geti fengið upplýsingar um það t.d. hjá mönnum í stjórn Alþýðusambandsins, að beim hefur verið kunnugt um það í nokkra daga, að það er enginn leikaraskapur, að bændur hafa haft fullan hug á því að knýja fram allverulega hækkun á mjólkurverði nú begar. Réttur bænda til þess að gera þetta er að vísu umdeildur meðal lögfræðinga, og ég t.d. er þeirrar skoðunar, að bændur eigi ekki rétt á þessu, en það eru færri lögfræðingar, sem segja, að réttur bænda sé ótvíræður. Þess vegna þótti óhjákvæmilegt að setja þessi ákvæði, sem nú eru sett í 2. gr. frv. — En ég vil benda á það, að ef nú ættu sér stað miklar og óvæntar kauphækkanir, þá er vitanlega ómögulegt að standa á móti kröfum bænda til þess að fá þegar í stað uppbætur á sitt afurðaverð til jafns við verkamenn, eins og það er kallað. Og launþegar verða að gera sér grein fyrir því, að fyrsta afleiðingin af kauphækkun yrði sú, að allar innlendar afurðir, hvort sem það eru afurðir bænda eða framleiðsla innlend, mundu hækka, og menn ættu að vera búnir að fá nóg af þessum sífellda víxlskrúfugangi til þess, að menn langi ekki til að fá hann hafinn á ný. Og ég verð að segja það, að ef hv. 6. landsk. þm. bregzt nú þannig við þessu meinlausa frv., að hann vill svara því með harkalegri baráttu, getur hann ekki komizt hjá því að verða grunaður um, að hjá honum hafi ráðið meir pólitísk togstreita en umhyggja fyrir þeim mönnum, sem hann telur sig hafa umboð fyrir.

Nei, hvað sem menn segja um frammistöðu stjórnarinnar í þessu máli, þá er ekki hægt að segja, að þetta frv. sé neitt stórmál, heldur aðeins endurstaðfesting á þeim ákvæðum, sem sett voru fyrir jólin. Og þeir, sem vilja fara út í vitfirrta kauphækkunarskrúfu á ný, hafa alla möguleika til þess þrátt fyrir þessa löggjöf. Og ef menn vilja fara út á þá óheillabraut, er það það minnsta, að viðkomandi aðilar sjálfir, verkamenn og atvinnurekendur, taki á sig ábyrgðina á þeim ófarnaði, og það er tilgangurinn með þessari löggjöf að knýja þessa aðila til þess, að þeir sjálfir verði að taka ábyrgðina, en geti ekki skotið sér undan gerðum sínum.