02.02.1951
Efri deild: 60. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Það er talað mikið um það, að þetta hafi ekki verið nógu skýrt ákveðið í þeim lagabálki, sem gerður var fyrir jólin. Þetta er alger misskilningur. Í upphaflegu l. stendur ákvæðið þannig: „En frá 1. ágúst 1951 skulu laun ekki taka breytingum samkvæmt ákvæðum þessara laga.“ En í frv. eins og það er nú stendur: „En frá 1. febr. 1951 skulu laun ekki taka breytingum samkvæmt ákvæðum þessara laga.“ Hér er því engin breyt. önnur en sú, að 1. ágúst er breytt í 1. febr. Þess vegna verða menn að athuga það, að þrætan hefði komið upp 1. ágúst, fyrst hún kemur upp á annað borð, þannig að hér er ekki um neina efnisbreyt. að ræða. Ef verkamenn snúast almennt illa við þessari lagabreyt. og til átaka kemur og vinnudeilna, mundi það með sama hætti hafa orðið 1. ágúst. Eins og fram kemur í þessu lagafrv., er það skoðun ríkisstj., að bændur eigi ekki rétt til að hækka mjólkurverð eins mikið og þeir hafa farið fram á og kunnugt er. En hitt vil ég taka fram fyrir hönd ríkisstj., að hún mundi láta afskiptalaust eða jafnvel hlutast til um það, ef hækkun verður á kanpgjaldi vegna þess, að kaupsamningar milli launþegasamtaka og atvinnurekenda væru látnir frjálsir, að hækkað yrði verðlag landbúnaðarvara, svo að bændur fengju þegar hlut sinn bættan í samræmi við aðrar stéttir. — Frekar sé ég ekki ástæðu til að taka fram að sinni.