02.02.1951
Efri deild: 61. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (2456)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. 6. landsk. var að rifja upp gömul heilræði, sem ég gaf honum varðandi hv. þm. Barð. Svo er um mig og hv. þm. Barð., að við erum ekki sammála um allt, og fer í skapið á báðum, og má segja, að við stöndum jafnréttir á eftir og erum jafngóðir vinir eftir sem áður. Er málið aðeins skýrt á báða bóga.

Ég játa, að Alþýðusamband Íslands og verkalýðurinn hefur sýnt skilning á framkvæmd gengislaganna, og vænti ég þess, að þótt hvessi í nösunum í bili, megi takast að skapa samstarf, enda verði orðið við öllum sanngjörnum kröfum af verkalýðsins hálfu í þessu efni. Það var einkennilegt, að hv. 6. landsk. sagði, að ef vísitölureglurnar væru felldar niður, þá mundi ríkisstj. missa allt aðhald til þess að halda dýrtíðinni í skefjum. Ég vil benda á, að það er svo mikil hætta og alvara í atvinnulífinu, að það er nóg aðhald fyrir hverja ríkisstj. Þau rök, að kaup hafi ekki hækkað mánaðarlega, en vörur hækkað, fá ekki staðizt. Stjórnin vissi um s.l. áramót, hvað það þýddi, ef kaup hækkaði þá. Ríkisstj. varð að horfast í augu við staðreyndirnar, og hún vissi, hvað alvarlegar afleiðingar það hefði, ef kaup hækkaði þá. Hún hafði ástæðu til að standa gegn kauphækkun.

Sumir gera mikið úr því, að gengislækkunin hafi mistekizt. Ég veit, að allir þm. vita, að hér hefði orðið hrun, ef gengið hefði ekki verið lækkað. Hitt er annað mál, að öll vandræði verða ekki leyst með gengislækkuninni. Því er haldið á lofti, að dýrtíðin hafi aukizt meira en gert var ráð fyrir, er gengislögin voru sett. Það má deila um orsakirnar. En hækkun á erlendu vöruverði á drjúgan þátt í því, og er alls ekki í samræmi við gengislækkunina. Fróðir menn telja, að það nemi um 5 stigum í vísitölunni, sú hækkun erlendis, sem var ófyrirsjáanleg, þegar gengislögin voru sett.

Ég held, að það sé rétt, sem segir í grg. frv., að það er fráleitt að ætla að bæta tap, sem þjóðin verður fyrir vegna hækkunar erlendis á innfluttri vöru, með almennri kauphækkun, þegar íslenzkar útfluttar vörur hækka ekki einnig. Menn geta ekki veitt sér kauphækkun. Það er þjóðin í heild, sem tapar. Þegar athuguð er umsögn sérfræðinga Alþýðusambands Íslands, þá sögðu þeir, að eins og nú horfði í atvinnumálum, væri íslendingum ekki bót að áframhaldandi kauphækkunum. Þær hækkanir, sem orðið hafa eftir gengislækkunina, eru þess vegna að verulegu leyti sífelldar víxlhækkanir, sem er afleiðing af hækkunum, sem voru orðnar áður. Er áætlað, að það nemi um það bil 10 stigum. Það er greinilegt, að ef þessu heldur áfram, verður þessi hækkun meiri og meiri án nokkurs gagns. Ég játa, að þetta kemur hart niður á almenningi og verður að reyna að stöðva það.

Mikið er talað um atvinnuleysi og að ríkisstj. noti sér það. Ég veit nú ekki, hvort það er rétt. Vélbátaflotinn hefur legið í höfn, og hefur það sagt til sín. Auk þess er það síldarleysið í sumar, og ekki er það ríkisstj. að kenna. Það þarf ekki að rifja frekar upp.

Hv. 1. landsk. fór með mín orð eins og viss persóna fer með biblíuna, en gat þó fengið einn félaga sinn til að kinka kolli, þegar hann fór með þessa útúrsnúninga. Hann sagði, að ég vildi, að efnt væri til verkfalla. Þetta er alger útúrsnúningur. Ég sagði, að ég vildi mikið til vinna, til þess að sættir héldust í þessu máli. Ég sagði, að löggjafarvaldið gæti ekki staðið undir sjálfkrafa hækkun dýrtíðarinnar, sem yrði, ef vísitölureglurnar héldu áfram að gilda. Vísitölureglurnar voru settar fyrir 10 árum, þegar allt annað viðhorf var í atvinnumálum. Ég benti á, að í lófa er lagið að koma fram hækkunum með samningum við atvinnurekendur eða knýja þær fram með verkföllum. Þetta er það frjálsræði, sem verkalýðurinn vill hafa. Er mikils um vert, að samningsaðilar fái notið sín. Þegar á móti hefur blásið, hafa atvinnurekendur leitað til ríkisstj., til þess að geta haldið atvinnurekstrinum áfram. Í þessu þjóðfélagi verður atvinnureksturinn að geta staðið á öruggum fótum, en ekki vera styrkþegi ríkisins. Það verður hann ekki nema atvinnurekendur hafi ákvörðunarrétt um þau laun, sem þeir eiga að greiða. Það verður að láta kaupákvæðin vera eftir samkomulagi. En ég geri ráð fyrir, að hætt sé við verkföllum. Allir hv. þm. vita, að atvinnuvegirnir eru ekki þannig, að þeir geti staðið undir hærra kauplagi, nema þá með því að koma til Alþingis og heimta styrki. Það sjá allir, að hér er ekki verið að egna til ófriðar, heldur stuðla að eðlilegu og heilbrigðu atvinnulífi í landinu. Það er ekki verið að banna atvinnurekendum neitt. Síður en svo. Þeim er heimilt að greiða fulla vísitölu eða tvö- eða þrefalda. Það eina, sem gert er, er, að gömlu samningsákvæðin eiga ekki að halda gildi. Einfaldast er, að sá, sem setti lögin fyrir jólin, kveði á um, hvað þar er átt við.

Það, sem hv. 1. landsk. sagði að lögfræðingur hefði sagt, eru alveg helber ósannindi, það styðst ekki við flugufót. Þetta hefur enginn lögfræðingur sagt, enginn lögfræðingur né annar. Sumir hafa aðeins sagt, að málið væri ekki alveg ljóst, og aðrir, að það væri vafasamt.