02.02.1951
Efri deild: 61. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (2464)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil gera grein fyrir minni afstöðu til þessa frv., af því að hún er önnur en fram hefur komið í umr. yfirleitt. Ég lýsti því yfir í vetur, þegar verið var að samþ. frv., sem nú er verið að breyta, — og ég var með því, því að ég taldi, að það væri nauðsynlegt að koma í veg fyrir þennan víxlgang, sem hefur verið á milli kaupgjalds og afurðaverðs, þar sem hvort hefur hækkað annað til skiptis og aukið á þá verðbólgu, sem í landinu var. Ég sagði þá, að ég teldi það óráð að festa vísitöluna við 123 stig, heldur ætti að greiða eftir 115 stiga vísitölu, og ég spáði, að það mundi hefna sín að fara svona hátt upp. Í þessu frv. er ekki gert annað en að reyna að festa það sama sem hafði verið reiknað með í vetur og allir voru sammála um, að meint væri með l., áður en ágreiningur kom upp um þau ákvæði, sem þar voru sett. Í framhaldi af því, sem ég sagði þá, get ég þess vegna líka nú verið með því að reyna enn á ný að koma í veg fyrir þann víxlgang í þessum efnum, sem nú á eftir að koma fram, ef þessir menn fá að ráða, sem leggja þann skilning í l. frá því í vetur, að laun eigi að hækka eftir vísitölu, sem þeir vilja byggja á samningum, sem gerðir voru fyrir 10 eða 20 árum og þeir halda fram að eigi að haga kaupgreiðslum eftir. Ég veit, að þetta er ranglæti gagnvart bændum landsins, því að afurðaverð landbúnaðarvara er miðað við 115 stig.

En ég ætla samt að vera með í því að gera þetta ranglæti, því að ég vil ekki fá þennan sama víxlgang aftur, og fylgi ég því þessu frv. og sætti ég mig við þessa rangsleitni gagnvart umbjóðendum mínum, sem eru bændur, og ætla að þola þessar aðgerðir, sem hér er um að ræða, til þess að fyrirbyggja, að stríðið milli kaupgreiðslna og afurðaverðs haldi áfram. Þess vegna fylgi ég þessu frv., þrátt fyrir það ranglæti, sem í því felst.