03.02.1951
Neðri deild: 60. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (2473)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Það mun nú kannske ekki þýða mikið að halda langa ræðu um þetta mál, því að það lítur út fyrir, að stjórnarflokkarnir séu ákveðnir í að afgreiða þetta mál og breyta engu. En mér fannst ég ekki geta látið þetta mál fara fram hjá mér án þess að gera dálitla athugasemd við afgreiðslu þess. Ég er hissa á, að ekki var hafður sami háttur á þessu máli og venjulegt er um slík mál, að láta félagsdóm dæma í málinu, en láta það ekki koma fyrir þingið, og hlýtur annað að liggja til grundvallar en sést á þessu frv. Árið 1948, þegar vísitalan var bundin, — hún var bundin frá 1. jan., — hafði sá háttur verið á hafður að reikna vísitöluna út eftir á og greiða laun með vísitölu næsta mánaðar á undan, þannig að launþegar væru búnir að vinna fyrir desembervísitölunni, en hún skyldi ekki greiðast fyrr en í janúar. Öllum opinberum starfsmönnum var greidd þessi vísitala, en verkamönnum neitað um það. Þá var ekki farið með það mál í þingið, heldur var það lagt í félagsdóm, og hann dæmdi, að verkalýðurinn ætti ekki rétt á þessu kaupi, sem hann þó var búinn að vinna fyrir, en ekki skyldi borgast fyrr en í janúar. Ég skal ekki um það segja, hvers vegna þetta er ekki haft svona nú, en viðvíkjandi því, sem búið er að taka hér fram áður, þegar rakinn var gangur gengislækkunarlaganna, þá var í öllum umræðum sagt, að séð yrði fyrir því, að launþegarnir fengju sitt. Sú saga er kunn, sem rakin var allýtarlega hér áðan, hvernig reynt var að hlaupast burt frá þessu loforði með brbl., sem tvisvar voru gefin út, og með breyt., sem gerð var í vetur, þegar ríkisstj. var búin að sjá, hve erfiðlega gengi að svíkja loforð sín. Þá var vísitalan komin upp í 123 stig, en þegar gengislækkunarlögin voru samþykkt, var sagt, að hún mundi hæst verða 118, en sú hækkun, sem orðið hefur frá samþykkt gengislækkunarlaganna og til áramóta, er þó smáræði hjá því, sem yrði í júlí í sumar. Svona hækkar allt áfram þrátt fyrir allar aðgerðir ríkisstj. Björgun bátaflotans og allar aðrar bjarganir ríkisstj. bæta aðeins við hækkun dýrtíðarinnar, og hún er þegar orðin svo tilfinnanleg, að ég efast um, að ríkisstj. geri sér grein fyrir því. Þá er um að gera að binda kaupið.

Viðvíkjandi þessu frv. er það 1. gr., sem binda skal verkalýðinn, og við, sem unnið höfum fyrir verkalýðinn, erum glöggir á, að ekki hefði verið komið fram á þingi með frv., ef annað lægi ekki á bak við, en af hvaða ástæðum er það þá? Það er vegna þess, að sama krafan er komin frá landbúnaðinum, og mér finnst það dálítið undarlegt, að Framsfl. skuli taka það að sér að ganga á rétt bænda, það er nýtt fyrirbæri, sem gæti orðið dálítið erfitt að eiga við, vegna þess að bændur eiga betri aðstöðu pólitískt en verkamenn, því að hafi verið erfitt fyrir verkalýðinn áður að ná rétti sínum, þá hefur það þó aldrei verið erfiðara en nú, meðan stjórnin verndar atvinnurekendur og er alger málsvari þeirra á kostnað verkalýðsins. Þessar aðferðir eru slíkar, eins og hv. 2. þm. Reykv. gat um viðvíkjandi kosningunum í verkalýðsfélögunum, að útsendarar þessara manna komu og létu uppi prógram um, hvað á að gera, ef þeir nái kosningu. Þessir menn koma og segja: Þið hafið verið sviknir, og þið eruð ekki nógu harðir, — en segjast ætla að bæta verkalýðnum það upp. Það fer ekki hjá því, að manni þyki þetta dálítið undarlegt, þegar vitað er, að þessir menn hafa, í hvert skipti sem verkalýðurinn hefur lent í deilum, verið í hópi þeirra 500–700 manna, sem greiða atkvæði á móti verkföllum, enda er verkalýðurinn ekki trúaður á, að þetta verði sterkt baráttulið í hagsmunabaráttu fyrir verkalýðinn.

Svo kemur þessi gamla klausa, sem alltaf hefur fylgt verkalýðnum, frá þeim, sem alltaf hafa verið á móti öllum kjarabótum honum til handa, að allar þessar kjarabætur séu að setja þjóðfélagið á höfuðið, sem sagt þjóðfélagið geti ekki látið verkalýðnum í té sæmileg lífskjör. Það eru verkamenn, sem eiga að svelta, og það enda þótt það séu þeir, sem öll þróun þjóðfélagsins byggist á. Og ef þeir hafa sæmileg lífskjör, er rokið upp og byrjað að gera gengislækkun og svo áfram. Ofan á þetta færir ríkisstj. verkalýðnum atvinnuleysi. Það hefði verið gaman fyrir hana að standa uppí í Hverfisgötu í gær og sjá fólkið streyma til atvinnuleysisskráningar. Þá hefði hún getað séð árangur verka sinna. Nei, það er alveg klárt mál, að þetta er beinlínis ögrun við verkalýðinn og þessir menn hljóta að sjá, að verkalýðurinn getur ekki annað en risið upp gegn þessum þrælalögum. Eitt er víst og það er alveg hægt að slá því föstu, að verkalýðurinn lætur þetta ekki afskiptalaust. Það er ekki hægt að bjóða neinum manni svona aðfarir hvað eftir annað, eins og gert er nú.

Af þessu öllu leiðir, að ekki er um frið að ræða. Hitt er annað mál, að ástæða hefði verið til þess fyrir verkalýðinn að rjúka upp miklu fyrr, en það er nú einu sinni svo, að þegar mest er þörf á baráttu fyrir verkalýðinn, þá er hann verst undir hana búinn. En þegar þeir svelta hvort sem er hálfu hungri, þá geta þeir það alveg eins í verkfalli eins og í atvinnuleysi, þá er þeim orðið sama, hvort er verkfall eða ekki verkfall, og þá verður erfitt að ráða fram úr, þegar ríkisstj. er einu sinni búin að særa verkalýðinn af stað, búin að neyða hann út í kjarabaráttu, þegar ekki er bara deilt um mat, heldur beinlínis um líf fjölskyldna þeirra. j þessa aðstöðu er ríkisstj. að koma verkalýðnum með aðgerðum sínum.

Eins og ég tók fram í upphafi, þá þýðir víst ekki að hafa um þetta mörg orð, en ég vara ríkisstj. og aðra, sem að henni standa, við því ástandi, sem hún er að skapa með samþykkt þessa frv.