03.02.1951
Neðri deild: 61. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (2478)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Einar Olgeirsson: Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. þótti það viðunandi meðferð á þessu frv. að neita að vísa því til fjhn., ríkisstj., sem hafði óeðlilegan og vitlausan frágang á brtt. við frv. hér í þinginu og sóðaði því í gegn með offorsi, svo að hún þarf að koma nú nokkru seinna með nýtt frv. til þess að laga gömlu vitleysuna, — hún fæst ekki til að láta athuga þetta mál í fjhn. þessarar d. Ég held, að þetta sé rangt gert af hæstv. ríkisstj. Hún þarf ekki að kvarta yfir því, að fjhn. þessarar d., sem hefur fengið mörg af hennar málum til meðferðar, hafi tafið fyrir málum með því að athuga þau og skrifa um þau stuttar grg., enda man ég ekki eftir, að ríkisstj. hafi nokkurn tíma kvartað yfir slíku, og þá er það raunverulega óverjandi að neita með 9:8 atkv. að láta svona frv. koma til n.

Hæstv. fjmrh. talaði nokkur orð og svaraði þó litlu einu af því, sem sett hefur verið fram og gagnrýnt viðvíkjandi þessu máli við 1. umr. Hann kom seinast með afsökun á öllum þeim svikum, sem ríkisstj. hefur framkvæmt í kaupgjaldsmálum á þeim loforðum, sem hún hafði gefið, þegar hún setti gengisskráningarl. Hann kom með þá afsökun, að ástæður hefðu gerbreytzt og þess vegna hefði ekki verið hægt að standa við loforð um verðhækkanir, sem hefðu verið gefin, verðhækkanir á fiskinum hefðu brugðizt. Þetta er eina raunverulega ástæðan, sem hæstv. fjmrh. flytur fram fyrir því að hafa hlaupið frá öllu því, sem hann staðhæfði fyrir 10 mánuðum að hlyti að verða til góðs fyrir þjóðina hvað gengislækkunina snertir. Er það satt hjá hæstv. fjmrh., að þegar gengisskráningarl. voru rædd í þinginu, þá hafi verið ástæða til að búast við hækkuðu fiskverði, og gekk hæstv. ráðh. og ríkisstj. út frá, að fiskurinn yrði hækkaður? Ég skal nú athuga, hvort þetta var satt, sem hæstv. fjmrh. sagði þá. Gengislækkunarl. fóru til fjhn. þessarar d., sem þá samdi ýtarlegt nál., eins og eðlilegt var, þar sem það fylgdi löng grg. með frv. Fjhn. leitaði álits þeirra manna, sem voru fulltrúar útgerðarmanna og sérstaklega áttu að þekkja vel til í þessum efnum, um það frv. Það hafði staðið í grg. fyrir frv. ríkisstj., að gengislækkunarl. mundu hækka verð á freðfiski úr 75 aurum í 93 aura. Á fundi fjhn. spurðum við fulltrúa útvegsins um þeirra álit á þessum hlutum, og í því nál., sem ég samdi fyrir hönd 2. minni hl. fjhn., á þskj. 416, segir um afstöðu frv. til bátaútvegsins þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. er árás á bátaútveginn. Það gerir hlut hans lakari en nú er. Vörnin fyrir frv. þetta af hálfu forvígismanna þess er, að með því sé m.a. verið að bjarga bátaútveginum, smáútvegsmenn muni fá aðstöðu sína bætta með gengislækkuninni. Þetta er ekki rétt. Það upplýstist af viðtölum n. við ýmsa fulltrúa, er á fund hennar komu og vel þekkja til um aðstöðu hraðfrystihúsa og bátaútvegs, að hraðfrystihúsin mundu ekki treysta sér til þess að greiða meira en 75 aura fyrir kílóið af fiskinum eftir gengislækkunina og að líklega yrði heldur ekki greitt hærra verð fyrir fisk til söltunar. Nú er það verð, sem greitt er fyrir fisk bátanna samkvæmt fiskábyrgðarlögunum, 75 aurar fyrir kíló, en auk þess er vátryggingargjaldið greitt, svo að raunverulega fær útgerðin 85 aura fyrir kílóið nú. Raunverulega mundi því verðið á fiskinum til framleiðendanna lækka við gengislækkunina og afnám fiskábyrgðarinnar. Bátaútgerðin verður því fyrir tvöföldu tjóni, ef frv. þetta yrði samþ. Í fyrsta lagi hækkar verðið á olíu, veiðarfærum og öðrum aðkeyptum vörum sem útgerðarmenn og sjómenn þarfnast, um 74% í innkaupsverði. Í öðru lagi lækkar verðið á fiskinum, sem bátarnir selja í frystingu og salt, frá því, sem nú er.“

Með öðrum orðum, það liggur beinlínis fyrir, þegar gengisskráningarl. eru rædd, yfirlýsing frá þeim mönnum, sem bezt þekkja til, að þeir muni ekki treysta sér til að greiða meira en 75 aura fyrir kg, þó að gengislækkunarl. kæmust í gegn, vegna þess að verð á olíu og því, sem þurfi að kaupa, þurfi að hækka. Þetta eru staðreyndir, sem ríkisstj. voru kunnar við meðferð gengislækkunarl. Þetta kom fram við 2. umr. í fyrri d., og þetta eru staðreyndir, sem ríkisstj. reyndi aldrei að mæla á móti. Þetta eru staðreyndir, og þegar haldið var áfram að ræða málið, kom í ljós, að hætta var á, að verðið lækkaði í 65 aura, þannig að það er ómótmælanlegt, að gengislækkunin eingöngu hefur skaðað vélbátaútveginn og hraðfrystihúsin og bakað honum tjón. Þetta vissi hæstv. ríkisstj. allt. Hvað gerði svo hæstv. ríkisstj.? Hún skeytti ekkert um staðreyndir. Hvað varðaði hana um staðreyndir? Þetta voru amerískar fyrirskipanir, og þar með skyldi gengislækkunin í gegnum þingið; þótt það stangaðist við staðreyndir, það gerði ekkert til. Það er ekki rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að ástæðurnar hefðu breytzt, þær hafa ekki breytzt frá 10. marz, þegar ég gaf út þetta nál., sem ég las upp úr áðan. Hann vissi þetta, sem síðan hefur verið sannað af staðreyndunum, hann vildi aðeins láta líta svo út sem hann vissi það ekki, meðan l. voru pískuð í gegnum þingið. Með öðrum orðum, eftir þessa lausn, sem gengisskráningarl. áttu að vera, er nú komin önnur lausn á sama vandamáli aftur. Ríkisstj. stöðvar útveginn allan janúar, til þess að hún geti komið að nýrri lausn. Hver eru endalok þeirrar lausnar? Það voru gefnar út frómar áskoranir um, að það ætti að greiða 96 aura til sjómanna. Hver er svo reyndin? Hvaða hraðfrystihús kaupir fisk yfir 76 aura í dag? Þekkir ríkisstj. þau hraðfrystihús, sem greiða 96 aura fyrir fiskinn? Það er ef til vill ekki við miklu að búast, því að lausnin byggist á loforðum, sem ríkisstj. hefur ekki einu sinni sett í l. hvað þá grg., og þegar þjóðin er búin að upplifa allt, sem ríkisstj. er búin að svíkja, hvað skyldu þá vera margir, sem treysta loforðum ríkisstj., sem hún þorir ekki einu sinni sjálf að segja, að hún sé fær um að standa við? Eins og allir vita, er ríkisstj. að tala um, að hún muni ef til vill gera eitthvað fyrir útveginn, ef hún fái eitthvert lán, en hvort hún fái það lán, hafi hún ekki hugmynd um. Hins vegar er hún stundum að gefa út yfirlýsingar um að greiða 96 aura fyrir fiskinn. Nei, það er rangt, sem hæstv. fjmrh. sagði um þetta með ástæðurnar, það er yfirborðsátylla sem ekki hefur við nein rök að styðjast. Hæstv. fjmrh. sagði, að ein af þessum ástæðum væri sú, að verð á erlendum mörkuðum hefði brugðizt. Af hverju vill hæstv. ráðh. ekki gefa okkur yfirlýsingu um, hvað verðið hefur lækkað og á hvaða erlendum mörkuðum? Ég held, að það væri nær fyrir hæstv. ráðh. heldur en að slá einhverju slíku fram. Mér er nær að halda, að á síðasta ári hafi það verð, sem hingað til hefur haldið uppi freðfiskframleiðslu Íslendinga, verð á fiski í Tékkóslóvakíu, haldizt í sama horfinu, og það væri æskilegt, að hæstv. ráðh. gæfi yfirlýsingu um það, hvernig verðbreytingarnar hafi orðið og á hvaða mörkuðum. Það er sem sé ekki til neins að slá fram slíkum fullyrðingum og geta svo ekki staðið við neitt af því, en banna landsmönnum að selja sjálfir sína framleiðslu og reyna að tryggja hærra verð fyrir þessa stærstu og veigamestu framleiðslu landsmanna, freðfiskinn. Með öðrum orðum, það sem hæstv. fjmrh. sagði um ástæðurnar fyrir því, að ríkisstj. hefði svikið allt, sem hún lofaði fyrir 10 mánuðum, er rangt.

Þá kom hæstv. fjmrh. að öðru. Hann kom að því og vildi sanna, að þetta mundi valda atvinnuleysi. Mér liggur við að spyrja: „Hverju reiddust goðin, er hraunið brann, þar sem nú stöndum vér?“ Hvaða kauphækkanir hafa valdið því atvinnuleysi, sem við búum nú við? Því fer fjarri, að það atvinnuleysi, sem við nú búum við á Íslandi, stafi af því, að kaup íslenzkrar alþýðu sé of hátt; kaup íslenzkrar alþýðu síðustu 3 árin hefur raunverulega lækkað, frá því að Framsfl. kom í ríkisstj. Það hefur verið viðkvæðið hjá þessum flokki, hvernig sem á hefur staðið um kaupgjaldið, að eitt væri allsherjar meinabót, það væri að lækka kaupið. Það er sú trú, sem sérstaklega hæstv. fjmrh. alltaf hefur haft og alltaf barizt fyrir að framkvæma, og ég þykist næstum því vita, að hann sé með sínum áróðri búinn að berja það inn í höfuðið á sjálfum sér og sé farinn að trúa því. Það atvinnuleysi, sem Íslendingar nú búa við, er eingöngu af völdum ríkisstj., að svo miklu leyti sem aflaleysi á vissum hluta landsins hefur ekki skapað það. En hitt vil ég taka fram í því sambandi, að allt það aflaleysi, sem við höfum haft árlega, sérstaklega á síldveiðum, það hefur ekki orðið eins þungbært fyrir landsmenn eins og aðgerðir ríkisstj. Ríkisstj. hefur reynzt landsmönnum verri en hafís, harðindi og síldarleysi; hún hefur með sinni pólitík valdið landsmönnum meira tjóni en slíkar þungar búsifjar af náttúrunnar völdum, enda býst ég ekki við, að hæstv. fjmrh. treysti sér til þess að reyna að finna staðhæfingum sínum nokkurn stað. Hann slengdi þessu fram, að kauphækkanir mundu valda atvinnuleysi, en hann reyndi ekki einu sinni að mæla á móti því, sem ég sýndi fram á við 1. umr., að nú væri atvinnuleysið skipulagt af ríkisstj., til þess að hún stæði betur að vígi að hindra kauphækkanir.

Þá sagði hæstv. fjmrh., að það, sem fælist í núverandi l., væri að láta afskiptalausa samninga atvinnurekenda og verkalýðsins. Ríkisstj. varð það óvart á að selja ákvæði 18. des. um að láta afskiptalausa slíka samninga.

Þá sagði hæstv. fjmrh., að íslenzkar útflutningsafurðir hefðu ekki farið hækkandi í verði nú að undanförnu. Ég vildi nú gjarnan spyrja hæstv. ráðh.: Hefur ekki t.d. lýsi farið hækkandi í verði? Hefur síldarmjöl og fiskimjöl ekki hækkað í verði? Hefur ull ekki farið hækkandi í verði? Hefur ísfiskur ekki farið hækkandi í verði? Hins vegar hefur ríkisstj. haft sérstök afskipti af freðfisknum og saltfisknum, og hún setti gengisbreytingarlögin sérstaklega vegna þeirrar framleiðslú. Afskipti stjórnarflokkanna af þessum málum leiddu til togaraverkfallsins og urðu til þess að tryggja ríkisstj. einokun hvað freðfisksframleiðsluna snertir, sem síðan leiddi af sér, að framleiðsla og útflutningur á freðfisknum minnkaði stórkostlega, eða næstum um helming. 1949 voru flutt út 33 þús. tonn, sem gáfu 88 millj. kr., en á siðasta ári kom ríkisstj. útflutningnum niður í 17 þús. tonn, sem gáfu þó 72 millj. kr., m.ö.o., verðmæti freðfisksins í ár slagar hátt upp í verðmæti hans 1949, enda þótt magn hans sé um helmingi minna. Verðmæti íslenzka útflutningsins jókst á 11 síðustu mánuðum, frá því, sem það var síðustu 11 mánuðina þar á undan, úr 266 millj. kr. í 338 milljónir, og það hefði aukizt meir, ef ríkisstj. hefði ekki hindrað meiri framleiðslu með afskiptum sínum af atvinnulífinu.

Ég hefði haft gaman af að spyrja hæstv. fjmrh. um nokkur atriði varðandi útflutninginn, ef hann hefði séð sér fært að vera hér til að standa fyrir sínu máli, og það, sem hann segir, að það sé ekki hægt að verða við kröfum verkalýðsins um kaup samkvæmt gildandi vísitölu, ef ekki fáist hærra verð fyrir útflutningsafurðirnar. Mundi hann vilja setja í viðbót við þetta lagafrv., að lögin skuli falla úr gildi um leið og íslenzkar útflutningsafurðir hækka í verði? Nei, tilgangur frv. er fyrst og fremst sá að koma í veg fyrir, að kaupgjald hækki í samræmi við dýrtíðina. Það má ekki ske, að verkafólk fái það kaup, sem það á kröfu til, með góðu, heldur þarf endilega að stofna til deilna og verkfalla. Þetta er viðhorf hæstv. ríkisstj. og það sömu ríkisstj., sem talar sífellt um, að það þurfi að gera allt til að auka framleiðsluna. Og það mun engin ríkisstj. áður hafa gert svo mikið sem þessi til að drepa niður eða lama meira og minna alla framleiðslu, og engin hefur haldið framleiðslunni í þvílíkum helgreipum sem hún. Það, sem þarf að gera, er að brýna verkalýðinn til að fara út í kaupdeilur, bara að hann fái ekki þá sanngjörnu og friðsamlegu lausn sinna mála að leyfa gildandi samningum hans að vera áfram í gildi. Ég verð að segja það, að mér finnst frámunalegt, að ríkisstj. skuli taka slíka afstöðu til mála, og ég get ekki fundið, að hún hafi ástæðu til að ætla sér slíkt fært eftir hina hrapallegu niðurstöðu af hinni vísindalega útreiknuðu gengisbreytingu, sem brást gersamlega. Og að síðustu: Af því að þessu máli fékkst ekki vísað til nefndar, þar sem þurfti að hespa það svo fljótt af, þá skal ég ekki fjölyrða um það, hvað þessar greinar þýða fram yfir þá merkingu, sem hæstv. ráðherrar leggja í þær. En hvað 1. gr. viðvíkur, þá sýnist hún vera í mótsögn við það, sem stendur í greinargerðinni. Í henni stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar lög nr. 117 1950 voru sett nú í desember, var tilætlunin sú, að kaupgjald breyttist ekki fyrir tilhlutun löggjafarvaldsins frá því, sem verða mundi í janúar 1951.“ — Og hinum megin á síðunni stendur: „Frv. tekur ekki til neinna umsaminna breytinga á grunnkjörum verkamanna, t.d. aldursuppbóta, greiðslna af afla o.s.frv.“ — Skyldu nú þessi atriði úr greinargerðinni ekki vera í mótsögn við 1. gr. frv., þar sem kveðið er svo á, að laun skuli ekki taka breytingum frá því, sem þau voru í janúar þ. á.? Ef laun eiga ekki að taka breytingum frá því, sem þau voru í janúar, skyldi það þá ekki verða lagabrot, ef menn fara fram á kauphækkun samkv. þessum ákvæðum greinargerðarinnar? Ætli það væri ekki bezt fyrir ríkisstj. að athuga orðalag þessarar greinargerðar? Eða er meiningin, að héðan í frá skuli greiða öll laun á Íslandi, eins og þau voru í janúar síðastliðnum? Skyldi nú hæstv. ríkisstj. ekki skjóta yfir markið með þessum hroðvirknislega frágangi sínum á frv.? Að minnsta kosti held ég væri betra að láta ekki greinargerðina fylgja frv. Og ríkisstj. virðist nú vera hrædd um, að dómarar mundu ekki dæma henni í vil, ef þeir fengju að dæma eftir lögunum frá því í desember. Ég skal ekki segja um það, hvort hægt verður að finna smugur á þessum lögum, enda bezt að tala sem minnst um það, ef svo væri. En óviðkunnanlegt er það, að löggjafarvaldið sjálft skuli hindra það, að n. geti fjallað um lagafrv., sem borið er fram til leiðréttingar á öðrum lögum, til þess að athuga, hvort ekki sé þar einhver ný vitleysa, máske hálfu verri en hin. Nei, ég er hræddur um, að hæstv. ríkisstj. skjóti rækilega yfir markið með þessu frv.