03.02.1951
Neðri deild: 61. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (2480)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að segja mörg orð um þetta mál hér úr þessu, en það er aðeins viðvíkjandi orðum hæstv. fjmrh., sem ég vildi segja nokkur orð. Hann sagði, að það hefði verið mjög uppi hjá okkur andstæðingum þessa frv., að við vildum láta löggjafarvaldið hafa afskipti af kaupgjaldi verkalýðsins. Nú neita ég því ekki, að ég álit, að málum verkalýðsins sé hvergi verr komið en hér á Alþingi. Ef við lítum á, hver aðferð þess hefur verið hvað snertir þetta mál, hvað kemur þá í ljós? Það byrjar með því, að fulltrúar verkalýðsins auglýsa, að þeir álíti hann eiga fullan rétt á þeirri kauphækkun, sem hér um ræðir. Þá rísa atvinnurekendur upp og auglýsa á móti, að þeir geti ekki fallizt á þessa kröfu verkamanna. Og hvað gerist þá? Jú, þá kemur Alþingi og hjálpar atvinnurekendum. Er það ekki að skipta sér af málum verkamanna?

Svo var það annað atriði í ræðu hæstv. fjmrh., sem mér þótti vænt um að heyra og ég vildi drepa á. Get ég hugsað, að er þetta mál var til umræðu fyrir jólin, hafi þessu atriði verið leynt. Hann sagði, að opinberir starfsmenn hefðu tryggari laun en verkamenn. En einmitt með því að viðurkenna það, þá er ekki óeðlilegt eða óréttmætt, að verkamenn fái nú þá kauphækkun, sem þeir fara fram á. Og þá kemur þessi gullvæga setning, sem er nýkomin inn í málið, eða fyrir tveim árum, og hefur aldrei verið rök gegn kauphækkun. Sem sé það, að ef eitt félag fái kauphækkun, þá komi annað með sömu kröfu á eftir og kauphækkun eins leiði af sér tap fyrir annan. Þetta hefur verið gegnumgangandi mótbára, er kauphækkun hefur borið á góma. En þessi rök eru mjög hæpin og byggð á alröngum forsendum. Þetta eru fullyrðingar sama eðlis og þær, sem ríkisstj. hafði í frammi við gildistöku gengisbreytingarlaganna um það, að þau mundu veita okkur nýtt og aukið atvinnulíf. Það var hægt að fullyrða slíkt, er lögin öðluðust gildi, en ég get ekki skilið, að nokkur maður geti komið með staðhæfingar í þá átt nú.

Út af ræðu hv. 1. þm. Rang. vil ég segja það, að ég er honum alveg sammála um það, er snertir málefni bænda. En það er annað, sem hann ætti að athuga og ég vildi víkja til hans. Hann er alveg með því, að kjör verkamanna séu skert, en finnst aftur á móti, að bændur hafi orðið illa úti. Nú vildi ég spyrja hann: Hafa verkalýðsfélögin staðið í vegi fyrir því, að bændur bættu sín kjör? Ég held, að bændur hafi einmitt fengið sin kjör bætt vegna aðstoðar verkalýðsins, en ekki þess flokks, sem þykist þó ætíð bera þá fyrir brjósti. Verkamenn hafa alltaf staðið með bændum í baráttu þeirra fyrir bættum kjörum, en það er ekki hægt að segja það sama um bændur eða fulltrúa þeirra hér á Alþingi, er mál verkamanna hefur borið á góma. Og það er hart, að þeir skuli hafa rétt til að dæma um málefni og afkomu verkamanna og þykjast vita betur en þeir, hvar skórinn kreppir að þeim. Ef bændur hafa rétt til að dæma um það, hvar skórinn kreppir að verkamönnum, þá hafa launþegar líka sama rétt gagnvart bændum, og það væri mjög æskilegt, að bændur sýndu launþegum sama skilning í baráttumálum sínum fyrir bættum kjörum og þeir hafa mætt í sinn garð af hálfu verkamanna. Vitandi það, að þessum málum verði aldrei vel komið, nema stéttirnar vinni saman, þá má segja það, að gott samkomulag getur aldrei orðið, ef bændastéttin ætlar að vera húsbóndastétt og hrifsa til sín málefni launþega. Ég held það þýði ekki fyrir mig að hafa fleiri orð um þetta nú, en hræddur er ég um, að þessi lög verði erfiðari í framkvæmd en margur vill viðurkenna og að það sé ekki búið að sjá fyrir því, að þau valdi ekki meira ergelsi en aðstandendur þeirra vilja vera láta.