03.02.1951
Neðri deild: 61. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (2481)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að blanda mér inn í deilur þær, sem átt hafa sér stað um frv. þetta hér. Þegar greidd voru atkvæði um það fyrir hádegi, hvort þetta frv. skyldi fara til fjhn., sem ég á sæti í, þá greiddi ég atkv. á móti því, því að ég taldi það þarflaust, þar sem um mál er að ræða sem rannsókn er raunar búin að fara fram á. Ég hafði þó hugsað mér að koma fram með eina brtt. við þetta frv., en það er aðeins orðalagsbreyting, og taldi ég því ekki ástæðu til að vísa málinu til nefndar þess vegna. Brtt. felst í því að færa orðalag í 1. gr. frv. til samræmis við notkun gengisbreytingarlaganna á hugtakinu laun. Það segir í 1. gr.: „Frá 1. febr. 1951 skulu laun ekki taka breytingum frá því, sem greitt var,“ — o.s.frv., og þar er átt við með orðinu laun grunnkaup og verðlagsuppbót, eins og hugtakið laun er yfirleitt notað í gengisl., og er það í samræmi við 5. gr. l., sem hljóðar þannig: „Við gildistöku laga þessara skal hætt að greina á milli grunnkaups og verðlagsuppbótar, eins og verið hefur, og skal hvort tveggja framvegis talið laun í einu lagi.“ En til samræmis við þetta er notkun hugtaksins í upphafi 1. gr., þar sem orðið laun er látið tákna bæði grunnkaup og verðlagsuppbót, og væri eðlilegra, að síðari málsliðurinn væri umorðaður, og í samræmi við það er brtt., sem við ætlum að leyfa okkur að flytja, ég og hv. 7. þm. Reykv. Liðurinn er umorðaður þannig, að í stað orðanna „Greiða skal verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna árið 1951, er miðuð sé við kaupgjaldsvísitölu 123“ komi: „Laun opinberra starfsmanna árið 1951 skulu miðuð við kaupgjaldsvísitölu 123.“ Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. telji þessa brtt. óþarfa, þetta sé svo ljóst, að það geti ekki orkað tvímælis, við hvað sé átt, og má það til sanns vegar færast, en með þessu móti er þetta fært til samræmis við notkun hugtaksins laun í þessu frv. innbyrðis og miðað við notkun þess í gengisl. í heild, sem þetta frv. er breyt. á. Ég vildi því leyfa mér að leggja fram þessa skrifl. brtt.