27.10.1950
Efri deild: 10. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (2499)

44. mál, sveitarstjórnarkosningar

Flm. (Björn Stefánsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er fram komið vegna þess, að a.m.k. fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar kom það fram á nokkrum stöðum, að nærri lá, að árekstrar yrðu út af því, að lög þau, sem gilda um sveitarstjórnarkosningar, ganga skilyrðislaust út frá hlutfallskosningum í þeim sveitarfélögum, þar sem 3/4 hlutar íbúanna eru búsettir í kauptúni. Og þetta frv. um breyt. á sveitarstjórnarkosningal. felur í sér breyt. aðeins á þá leið, að á þeim stöðum, þar sem gert er ráð fyrir .hlutfallskosningu samkvæmt lögunum, sé einnig möguleiki til óhlutbundinnar kosningar í þeim tilfellum, að enginn framboðslisti komi fram.

Í því litla byggðarlagi, sem ég er búsettur í, lá nærri, að úr því yrðu vandræði við síðustu sveitarstjórnarkosningar, að lögin gera skilyrðislaust ráð fyrir hlutfallskosningum í þeim sveitarfélögum, þar sem 3/4 íbúanna búa í kauptúni. Þar var ekki vilji á að koma fram með lista. Sú sveitarstjórn, sem sat áður, óskaði ekki að bera sjálf fram lista með þeim mönnum, sem þar voru, og það komu ekki heldur áskoranir frá öðrum um breytingar á sveitarstjórninni. Þetta sat svona til síðustu stundar, að ekki leit út fyrir annað en að engin hreppsnefnd yrði þarna kosin og því yrði ekki nein lögleg sveitarstjórn í hreppnum næsta kjörtímabil. Ég hygg, að það hafi að síðustu orðið fyrir ákveðin tilmæli frá sýslumanni í héraðinu, sem áður hafði haft samband við félmrn. og tilkynnt því þessi vandræði, að síðast var farið í það af nokkrum mönnum að koma fram með lista með mönnum úr fyrrv. hreppsnefnd. En síðasta hreppsnefnd var mjög óánægð með þetta, þó að hún gæfi kost á sér til þessa, til þess að hreppurinn hefði löglega hreppsnefnd, og taldi hreppsnefndin, að hér væri mjög brýn þörf á breyt. á l. — Á síðustu árum hafa byggðir víða færzt saman úti á landinu, og sums staðar eru íbúar hreppanna að þrem fjórðu búandi í þorpi, þar sem byggðin var áður mjög miklu dreifðari. Víða er það svo í smærri hreppum, að þar er ekki áhugi fyrir pólitískum kosningum, og ég lít persónulega svo á, að það sjónarmið sé æskilegra og að líklegra sé, að fram komi starfhæfari og betri kraftar í sveitarstjórnir með því, að menn leggi til hliðar í fámennum hreppum við sveitarstjórnarkosningar alla stjórnmálatogstreitu, en reyni að velja menn í stjórn fyrir sveitarfélagið á hverjum stað eftir trú manna á starfshæfni og manngildi, en meti þá ekki eingöngu eftir pólitískum flokkum. Og þó er hitt enn þá þýðingarmeira, að það getur, eins og fram er tekið í grg., auðveldlega komið fyrir, að það komi alls ekki framboðslisti við sveitarstjórnarkosningar, af því að menn vilji halda sig svo fast við óhlutbundnar kosningar. Og í slíkum tilfellum, með því fyrirkomulagi, sem nú er eftir l., eru ekki möguleika,r á að koma á löglegri sveitarstjórn.

Ég hef rætt efni breyt. þeirrar, sem frv. felur í sér, við skrifstofustjóra félmrn., Jónas Guðmundsson, og hefur hann fallizt á, að breyt. þessarar sé þörf. Hann rak sig á það fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, að mjög lá við, að af þessu fyrirkomulagi, sem l. nú gera ráð fyrir, hlytust vandræði við sveitarstjórnarkosningar í þeim hreppum, sem ég hef minnzt á.

Ég vil því óska þess og vænti, að hv. Ed. sjái sér fært að samþ. að vísa þessu máli til 2. umr. og allshn.