17.11.1950
Neðri deild: 23. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (2516)

44. mál, sveitarstjórnarkosningar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég held, að um það sé enginn ágreiningur milli okkar hv. þm. A-Húnv., að það sé sjálfsagt að takmarka ekki með óeðlilegum hætti hin beinu áhrif kjósenda á það, hverjir hljóti kosningu af einstökum listum, hvorki við sveitarstjórnar né alþingiskosningar. Ég held, að um það geti heldur ekki verið ágreiningur, að það sé óeðlilegt að tryggja mjög miklum minni hl. úrslitaáhrif um það, hvaða menn nái kosningu, og ég hygg, að hv. 2. þm. Reykv. hafi ekki gert sér nægilega grein fyrir því, hver áhrif núgildandi ákvæða geta orðið. Ég vil leyfa mér að taka dæmi um bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík og nefni Sjálfstfl., sem er stærsti flokkurinn hér, til þess að . hafa ákveðna tölu við að miða. Við skulum gera ráð fyrir, að hann fái 13 þúsund atkv. og að hann telji sig munu fá meiri hl. í bæjarstj., eða 8 fulltrúa af 15. Við skulum enn fremur hugsa okkur, að það sé ágreiningur innan flokksins um það, hver skuli skipa 8. sæti á listanum, sem er meirihlutasætið, og að það séu tvær skoðanir um það mál, tveir nokkuð jafnstórir hópar; annar hópurinn fylgir þeim, sem skipar 8. sætið, en minni hl. manninum í 9. sætinu. Nú unir minni hl. ekki þessum úrslitum og vill fá 9. manninn inn í bæjarstj. Allir vita, að flokkurinn fær ekki nema 8 menn kjörna, og nú skulum við athuga, hve margir úr minni hl. þurfa að strika út 8. manninn, til þess að 9. maðurinn nái kosningu en ekki sá í 8. sætinu. Ef miðað er við, að flokkurinn fái 13 þúsund atkv., þá eru það aðeins 434 menn, sem geta ráðið því, að 9. maður listans verði kosinn, en ekki 8. maðurinn. Þó gert sé ráð fyrir, að prófkosningar hafi farið fram og að verulegur fjöldi hafi tekið þátt í þeim og að meiri hl. hafi verið fylgjandi því að hafa þann mann í 8. sæti, sem var þar, er listinn var lagður fram til kosninga, þá getur 434 manna hópur samt komið í veg fyrir, að sá maður komist í bæjarstj., heldur kemst 9. maðurinn inn, sem minni hl. fylgdi. Mér er ómögulegt að sjá, að þetta væri í nokkru samræmi við lýðræðishugmyndir eða að slíkt gæti talizt að tryggja kjósendum eðlilegan rétt. Mér virðist þetta þvert á móti ýta undir klíkuskap, valda rangindum og veita minni hlutanum rétt til óeðlilegra áhrifa.

Ég get fallizt á það, sem hv. þm. A-Húnv. sagði, að það væri mjög miklum erfiðleikum bundið og kannske líka vafamál, hvort rétt væri að miða einungis við tölu þeirra manna, sem komast að, en í öllu falli finnst mér, að ekki megi miða við fleiri en þá, sem kjósa á. Mergurinn málsins er sá, að eins og kosningafyrirkomulaginu er nú háttað, geta 434 menn úr 13 þúsund manna hópi ráðið úrslitum, og sá hópur er óeðlilega lítill.

Til þess að hér verði eitthvert vit í, þarf að stækka þennan minni hl. mjög verulega. Beinasta leiðin til þess er að láta miða við a.m.k. tölu þeirra fulltrúa, sem kjósa á, en ekki að hafa varamennina með. — Við höfum dæmi um það í einu bæjarfélagi, Akureyri, að óeðlilega lítill minni hluti hefur hvað eftir annað notað þessa aðstöðu sína, og hefur slíkt orðið undirrót alls konar klíkuskapar og orðið til að spilla því, að lýðræði nyti sín. Þess munu og dæmi, sem hv. þm. A-Húnv. nefndi, að andstæðingar ákveðins lista hafa getað skapað glundroða með því að láta nokkra af flokksmönnum sínum kjósa andstæðingalistann til þess að breyta röðun hans og hafa þannig áhrif á, hvaða menn af honum ná kosningu. Þegar slíkt er unnt, sýnist mér augljóst, að meira en lítið sé bogið við þetta kosningafyrirkomulag. — Ég vil því ítreka, að n. taki þetta mál til rækilegrar athugunar.