04.12.1950
Neðri deild: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (2522)

44. mál, sveitarstjórnarkosningar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég nokkra grein fyrir því, að ég teldi nauðsyn til bera að breyta tveimur atriðum í þeim 1., sem hér er til umr. frv. um breyt. á, um kosningar til sveitar- og bæjarstjórna. Og í samræmi við það hef ég hér, ásamt hv. 1. þm. Rang. og hv. 3. landsk. þm., flutt tvær brtt. við þetta frv. — Eins og brtt., sem eru á þskj. 248, bera með sér, þá er það svo, að fyrri brtt. snýr að sveitahreppunum einum, því að samkv. lögum er það ákveðið, að hlutfallskosningar skuli ófrávíkjanlega við hafðar við kosningar sveitar- og bæjarstjórna í kaupstöðum og kauptúnum, en til þess að hlutfallskosningar eigi sér stað við sveitarstjórnarkosningar í sveitahreppum, þarf ákveðinn hluti kjósenda að krefjast þess. Og samkv. frv. er gert ráð fyrir því, eins og mun hafa verið, að til þess þurfi 1/10 hluta kjósenda, sem óski þess. Nú hefði ég að vísu helzt kosið, að afnuminn væri alveg rétturinn til þess að hafa nokkrar hlutfallskosningar við kosningu í hreppsnefndir í sveitahreppum, því að sú aðferð hefur reynzt illa þar. En til þess að gera það nú frjálslegra en svo, þá höfum við hér lagt til, að settar verði þó þrengri dyrnar fyrir þá, sem fá vilja framgengt, að hlutfallskosningar verði við hafðar við hreppsnefndarkosningar í sveitahreppum, með því að það þurfi þó 1/5 hluta kjósenda til þess að geta heimtað, að hlutfallskosningar fari þar fram. Og þetta er þá miðað við það, að víðast í sveitum eru fimm hreppsnefndarmenn, þannig að eftir þessari till. sýnist það nokkurn veginn tryggt, að þeir, sem hér er gert ráð fyrir að þurfi til að heimta hlutfallskosningu í þessu efni, komi manni að í hreppsn. Um þessa brtt. sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum.

Hin brtt. okkar er miklu víðtækari að efni. Hún nær yfir allar hlutfallskosningar til sveitar- og bæjarstjórna í landinu og er um það að breyta reglunum um það, hvernig atkv. skuli tekin til greina við útreikning á atkvæðamagni einstakra manna, sem í framboði eru á hverjum lista. Og eftir okkar till. skal taka upp þá venju, sem gilt hefur við hlutfallskosningar á Alþ. um langan tíma, þannig að fyrsti maður fái 1 atkv., annar 1/2 atkv., þriðji 1/3 úr atkv. o.s.frv. Og með þeim útreikningi þarf fleiri kjósendur en hefur þurft til þess að strika út eða breyta til um röð á lista, til þess að það hafi áhrif. En það hefur komið í ljós, með þeim reglum, sem gilt hafa undanfarin ár, að þetta er svo næmt, að það þarf ekki nema örfáa menn til þess að strika út og færa til á lista, til þess að jafnvel efsti maður listans falli o.s.frv.,

því að eins og kunnugt er, er reglan sú, að þar, sem kjósa skal í fimm manna sveitarstjórn, eru kosnir fimm aðalmenn og fimm varamenn. Og þar er reiknað 1 atkv. fyrsta manni, öðrum manni 9/10 úr atkv. o.s.frv., og þar sem kosnir eru 15 menn í bæjarstjórn, og þá 15 varamenn, þar er fyrsta manni reiknað eitt atkv., öðrum manni 29/30 úr atkv. o.s.frv.

Þetta geri ég ráð fyrir að liggi svo ljóst fyrir hv. þm., að það þurfi ekki að skýra það nánar. Og okkur flm. brtt. finnst eðlilegast, að það gildi um þessar kosningar þær venjulegu reglur, sem verið hafa um langan aldur gildandi hér í Alþ., þegar hlutfallskosning er við höfð. — Ég vænti þess, að hv. þdm. geti tekið þessum brtt. með velvilja og samþ. þær.