04.12.1950
Neðri deild: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (2523)

44. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég get að sjálfsögðu ekki sagt neitt um, hvernig hv. meðnm. mínir kunna að líta á þessar brtt., því að það var nú verið rétt áðan að útbýta brtt. á þskj. 248, sem hv. þm. A-Húnv. ræddi um, og við höfum ekki átt þess kost í n. að eiga tal um hana sérstaklega.

Hvað fyrra atriðið áhrærir, tölul. 1, þá sé ég, að hv. flm. brtt. vilja þrengja þar nokkuð réttinn til þess að heimta hlutfallskosningar. Má vera, að ekki sé neitt sérstaklega að athuga við það. — Um síðari tölul. brtt. er það að segja, að þar er um mjög mikla breyt. að ræða frá því, sem er, hvað gildi atkvæða snertir innbyrðis á lista. En eigi að síður má vel vera, að slík breyt., á þennan hátt sem hér er farið fram á, eigi fullan rétt á sér og mundi koma í veg fyrir þann glundroða, sem stundum hefur komið fram við kosningar einmitt út af því, hvernig háttað hefur verið um gildi atkv., sem fallið hafa á einn lista, fyrir hvern mann fyrir sig, sem á listanum er. En eftir þeirri breyt., sem þarna er lagt til að verði gerð, má náttúrlega gera ráð fyrir, að það verði tæpast breytt um röð á lista, ef slíkt kosningafyrirkomulag yrði upp tekið eins og brtt. fer fram á, því að gildi atkv., sem falla á lista, verður svo miklu minna til handa þeim mönnum, sem neðar eru á lista, heldur en efsta manninum, að a.m.k. þar, sem fjölmenni er, má telja nærri útilokað, að breyt. um röð á lista komi til með að hafa nokkra þýðingu eftir brtt. þessari. Ég vil aðeins benda á þetta. Þetta þykist ég vita að háttv. flutningsm. brtt. hafi gert sér alveg ljóst. Og ég er ekki að láta neitt í ljós um það, að þetta kunni ekki að vera réttmætt. Eitt er víst, að þær breyt., sem stundum hafa verið gerðar við kosningar í sambandi við röð á listum, hafa verið mjög varhugaverðar, og stundum — eftir því sem ég hef fengið upplýsingar um — verið mjög óréttlátar.

Nú hefði ég gjarnan viljað eiga þess kost að ráðfæra mig við hv. meðnm. mína, og hefði því viljað fara fram á það við hv. flm. brtt., að þeir láti bíða að láta atkv. ganga um brtt. til 3. umr. Ég skal lofa því að taka þetta mál mjög fljótlega fyrir á fundi í n., þannig að það verði ekki til hindrunar því, að málið gangi fram, þó að þetta væri gert. Málið er nú hér í síðari d., og þó að frv. yrði breytt hér, þá gefst vafalaust nægur tími til þess að koma málinu til hv. Ed. og útkljá meðferð þess þar.