06.02.1951
Neðri deild: 64. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (2531)

44. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Það er nú alllangt síðan þetta mál var til meðferðar í þessari hv. deild. Umr. um það var frestað sakir þeirra . brtt. á þskj. 248, sem nokkrir hv. þm. hafa borið fram. Ég vil þegar taka það fram, að það, sem ég kem til með að segja um þetta mál í sambandi við brtt. mína á þskj. 626, segi ég frá eigin brjósti, en á engan hátt fyrir hönd nefndarinnar.

Nefndin í heild tók enga afstöðu til fram kominna brtt. á þskj. 248, en yfirleitt býst ég við, að nm. hafi verið þeim andvígir. — Hvað fyrri lið brtt. snertir, um það, hvað marga kjósendur þurfi til þess að krefjast hlutfallskosninga, þá get ég ekki mælt með samþykkt hans. Ég hygg, að eins og sú tala er nú ákveðin í lögum og í þessu frv., þá sé hún við hóf og ekki vert að breyta til frá því. Þar sem það mun mjög torvelt að fá svo mikinn hluta kjósenda til að undirrita slíka kröfu, get ég ekki mælt með því.

Hvað 2. lið brtt. áhrærir, þá sýnist mér, ef hann nær samþykki, að tæplega sé um það að ræða að hreyfa til á lista. Ef reiknað er með því, að fyrsti maður hljóti öll greidd atkvæði, annar maður helming, þriðji maður þriðjung o.s.frv., þá sýnist mér það fyrir fram vonlaust að breyta nokkru um röð á listanum. Hins vegar get ég sagt það fyrir fram, að mín skoðun er sú, að þurfi ekki nema örfáa menn til að breyta á lista, er tæpast hægt að líta á þær breytingar sem almennan vilja kjósenda. Vera má, að það sé ekki aðkallandi að gera breytingar á þessum lögum nú, og gæti verið heppilegra að taka lögin í heild til athugunar fyrir næsta þing. Það eru ekki fyrirsjáanlegar kosningar á þessu næsta ári, svo að engin brýn nauðsyn rekur á eftir að gera þessa breytingu nú, og mætti finna margt því til réttlætingar að vinda ekki svo bráðan bug að þessu nú.

Ég taldi rétt að gera nokkra leiðréttingu við síðari brtt. á þskj. 248, og hef ég flutt brtt. við hana á þskj. 626. — Mönnum kann að virðast svo við fyrstu sýn, að ekki sé svo ljóst, hvað við sé átt í þessari brtt., og vera má, að orða hefði mátt þessa reglu öðruvísi og betur. En ég hygg nú, að þegar menn lesa þessa till. yfir með athygli, þá muni menn sjá, við hvað er átt. Og ég tel sjálfsagt, ef þessi brtt. mín yrði samþ., að leiðbeiningar fylgdu til kjörstjórna í fyrsta sinn sem kosið væri eftir þessari reglu, svo að engin óregla hljótist af þeim sökum.

Mín brtt. lýtur að því að reikna aðeins með aðalmönmun, þegar fundið er út, hverjir kosnir hafa verið, en taka ekki líka varamenn, eins og gert hefur verið hingað til. Ef Reykjavík er tekin sem dæmi, þá á að kjósa 30 menn, 15 aðalmenn og 15 til vara. Fær þá 1. maður 1 atkv., 2. maður 29/30, 3. maður fær 28/30 o.s.frv., ef miðað er við núgildandi lög. Ef hins vegar er miðað við það fyrirkomulag, sem mín brtt. gerir ráð fyrir, fengi 1. maður hér í Reykjavík 1 atkv., 2. maður 14/15, 3. maður 13/15 o.s.frv. — Ég vona, að menn hafi nú skilið, hvaða regla yrði höfð á, ef þetta fyrirkomulag yrði tekið upp. Svo er eftir að athuga, hvaða listar koma mönnum að og hvaða menn af hverjum lista komast að.

Ef miðað er við Reykjavík, þá fær Sjálfstfl. þar 8 menn kjörna, og eru þá 7 menn eftir á listanum til vara, og vantar þá einn mann upp á, að listinn sé fullskipaður. En þá á hér eftir minni reglu að finna varamenn eftir alveg sömu reglu og aðalmenn. Ég ætla, að þessi till mín geri þetta einfaldara og léttara í vöfum. Ég hygg og að með þessari till. sé komið svo til móts við þá, sem vilja breytingar, að hún ætti þess vegna að ná samþykki.