06.02.1951
Neðri deild: 64. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (2533)

44. mál, sveitarstjórnarkosningar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er nú búið að ræða mikið um þetta mál, en þó vildi ég segja um það nokkur orð, áður en það færi til atkvæða.

Ég er fullkomlega með því, að 2. liður á þskj. 248 sé tekinn til baka, enda álít ég þá till. ófæra. Ég skal viðurkenna, að till. frá formanni allshn. á þskj. 626 er miklum mun skárri og gengur ekki eins á rétt kjósenda, gefur ekki flokksstjórnum samsvarandi veldi eins og brtt. 2 á þskj. 248. Ég er samt sem áður þeirrar skoðunar, að heppilegra sé að halda því, sem nú er, heldur en að breyta til, eins og hv. 1. þm. Árn. leggur til. Eftir brtt. á þskj. 248 þarf 1/5 kjósenda til að ákvarða, að hlutfallskosning skuli viðhöfð við kosningu hreppsnefndar. Það þurfa m.ö.o. eins margir að skrifa undir áskorun eins og þarf til að koma að einum manni. Þetta þýðir, að það á að heimta opinberlega fram nöfn þeirra manna, sem geta myndað fimmta hluta kjósenda og notað sér rétt stjskr. og kosningalaga til þess að koma að einum manni. Ég sé ekki betur en að slík till. brjóti í bága við allan anda stjskr. og kosningalaganna um leynilegar kosningar. Það á beinlínis að knýja fram opinberlega nöfn þeirra manna, sem ekki ganga inn á þann lista, sem meiri hl. í viðkomandi hrepp kemur sér saman um. Við vitum að vísu, að í mörgum hreppum er samkomulag, t.d. sveitahreppum, þar sem tveir sterkustu flokkarnir, Sjálfstfl. og Framsfl., hafa mikið meirihlutafylgi. Bændurnir koma sér saman um að halda hreppsnefndinni óbreyttri, og þeir vilja kæfa alla mótspyrnu gegn þessu, sem oft og tíðum kann að vera frá sveitaalþýðu, sem máske á minna undir sér en viðkomandi bændur. Fyrir slíka, þá smærri, eru l. um leynilegar kosningar sett. Með því að gera lágmarkið fyrir undirskriftum 1/5 hluta kjósenda, á að gera þeim mönnum óhagræði og rýra rétt þeirra, sem eru í minni hl. og vilja nota sér rétt kosningalaganna. Ég álít þess vegna, að það eigi að halda l. eins og þau eru, að 1/10 geti krafizt hlutfallskosninga. En þessi breyt. mundi verða beint spor aftur á bak, því að það mundi þýða að fækka hlutfallskosningum í landinu og rýra rétt manna til leynilegrar atkvgr. Ég álít þess vegna, að d. beri að fella þessa brtt., nr. 1 á þskj. 248.