06.02.1951
Efri deild: 65. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (2555)

160. mál, læknishéruð

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég lít einmitt svo á, að litlar líkur séu til þess, að hægt sé að selja læknisbústaðinn í Ögri. Það er einn bóndi á staðnum, og hann býr á góðri jörð og í góðu húsi. Þess vegna þarf að athuga þessi tvö sjónarmið. Það er að vísu þægilegra að ná lækninum í Súðavík, einkum fyrir íbúa í Sléttuhreppi og Grunnavíkurhreppi, en þó er munurinn ekki ýkjamikill. Ég vil gera upp við mig, hvort munurinn sé svo mikill, að rétt sé að fleygja eitthvað um 200 þús. kr., sem gamli og nýi læknisbústaðurinn mundu kosta. Ég er ekki viss um, að þetta sé rétt. Hefði n. getað sagt mér, að hægt væri að selja bústaðinn í Ögri, hefði verið öðru máli að gegna, og mér finnst málið illa undirbúið af n., að hún skuli ekki hafa aflað þessara upplýsinga.