06.02.1951
Efri deild: 65. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (2557)

160. mál, læknishéruð

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég held, að það sé engum vafa undirorpið, að það sé til bóta, að þessum læknishéruðum sé steypt saman og Súðavíkurhérað komi í staðinn með læknisbústað þar. Það hefur ekki litla þýðingu, að læknirinn á stórum auðveldara með að ná til þess fólks, sem hann á að þjóna, ef hann situr í Súðavík, heldur en ef hann situr í Ögri. Þegar læknisbústaðurinn var settur í ögur, var þar talsverð verstöð og vélbátar því tiltækir, ef á þurfti að halda. Þar voru svo engar hafnarbætur gerðar og verstöðin lagðist niður, svo að læknirinn varð því nær einangraður þarna, og reynslan hefur sýnt, að nær ókleift er að fá lækni þangað, og hefur verið læknislaust þar um margra ára skeið. Það er hafið yfir allan vafa, þegar litið er á hlutverk læknisins, að þá er hann bezt settur í Súðavík. Hinn möguleikinn, að setja lækninn á Ísafjörð, hefði það í för með sér, að aðalstörf hans yrðu praksís á Ísafirði. Eru þá ekki síður rýrð verðmæti með því, að ríkið festi fé í því, en hafi auðan og mannlausan læknisbústað Ögri.

Annars er læknisbústaðurinn í Ögri ágætt íbúðarhús, byggt nokkru fyrir stríð og stendur því ekki í mjög miklu verði. Hins vegar eru möguleikarnir fyrir að selja vaxandi, þar sem nú er búið að byggja bryggju í Ögri og ekki óhugsandi, að menn setjist þar að til þess að stunda sjóróðra, því að fólkið, sem fór þaðan, fór einmitt vegna þess, að þar var engin bryggja, og þá aukast auðvitað möguleikarnir á að selja húsið. Ég held, að öllu betra sé að athuga þetta eftir 1–2 ár heldur en nú á stundinni, og eins er hugsanlegt, að bóndinn í Ögri vilji kaupa húsið. Þótt ekki sé nema gott, að svona atriði séu athuguð, þá held ég þó, að engum verðmætum sé kastað á glæ, þó að ekki sé gengið úr skugga um möguleika á að selja húsið áður en frv. er samþ. Það hefur ekki tekizt að fá lækna til þess að þjóna Hesteyrar- og Ögurhéruðum, en það er náttúrlega meginatriði málsins, að fólkið í hinum dreifðu byggðum landsins fái læknisþjónustu.