13.02.1951
Neðri deild: 68. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (2594)

138. mál, virkjun Sogsins

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Síðan l. um Sogsvirkjunina voru sett, 1946, hafa ýmsar breytingar orðið á þeim málum; í fyrsta lagi sú lagabreyt., að ríkissjóður hefur gerzt meðeigandi að Sogsvirkjuninni. Var um það gerður samningur, sem á sínum tíma var prentaður — að ég ætla fyrir tveimur árum — með þskj., en er nú birtur með nál. fjhn. Ed. á þskj. 486, dags. 30. júlí 1949. Sogsvirkjunin er þannig orðin sameign ríkissjóðs og Reykjavíkurbæjar. — Í öðru lagi hefur sú breyting á orðið, að þær kostnaðaráætlanir, sem lágu fyrir 1946, þegar l. voru sett, hafa náttúrlega gerbreytzt vegna hinna miklu breytinga á verðlagi og gengisbreytingarinnar, er síðan hefur orðið. Af þeim ástæðum eru þær upphæðir, sem getið er í l. frá 1946, með öllu úreltar. Þetta frv. er flutt af fjhn. Ed. að beiðni ríkisstj. til þess að færa lántökuheimildir og tölur til samræmis við núgildandi verðlag. Efni frv. er það að heimila stjórn Sogsvirkjunarinnar að taka lán til virkjunarinnar, er nemi allt að 158 millj. kr., en það er nú í dag áætlaður heildarkostnaður virkjunarinnar. — Þá er ákvæði um það, að ríkisstj. geti fyrir hönd ríkissjóðs tekið þau lán, sem þarna um ræðir, og endurlánað þau Sogsvirkjuninni gegn gildum tryggingum, en um ýmis þessara lána verður það svo, að Sogsvirkjunin tekur þau sjálf án milligöngu ríkissjóðs, en þannig, að ríkissjóður verður formsins vegna að vera lántakandi. — Loks fjallar 3. mgr. 1. gr. um það, að Sogsvirkjunin sé sameign ríkíssjóðs og bæjarsjóðs Rvíkur og að báðir aðilar beri sameiginlega ábyrgð gagnvart þriðja aðila á skuldbindingum virkjunarinnar, en sin á milli beri aðilar, þ.e. bæjarsjóður og ríkisstj., ábyrgð á lánum í réttu hlutfalli við eignarhlut þeirra í virkjuninni á hverjum tíma. — Iðnn. Nd. fékk þetta mál til meðferðar, og leggur hún einróma til, að frv. verði samþykkt.