26.02.1951
Sameinað þing: 47. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

Almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður)

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur. Árið 1927 urðu merk tímamót í stjórnmálasögu Íslendinga. Landinu hafði þá lengi undanfarið verið stjórnað út frá íhaldssömum sjónarmiðum. En 1927 vann Framsfl. mikinn kosningasigur á Íhaldsflokknum og myndaði ríkisstj., sem var í algerri andstöðu við afturhaldsöflin í landinu, enda hafði hann letrað á gunnfána sinn hið fræga vígorð: „Allt er betra en íhaldið.“ Þá hófst nær aldarfjórðungstímabil, sem var merkilegt um margt, en er nú nýlokið. Á fyrri hluta þess stjórnuðu Framsfl. og síðar Framsfl. og Alþfl. landinu í harðri andstöðu við Sjálfstfl. Á síðari hluta þess var landinu lengst af stjórnað með málamiðlun milli þriggja flokka, þó ekki alltaf hinna sömu, og áttu allir flokkar hlut að ríkisstjórn á þessum tíma. En það var eitt megineinkenni stjórnarháttanna á þessu nær 25 ára tímabili, að engin stjórn, sem sat að völdum, var hrein íhaldsstjórn. Þótt áhrifa Sjálfstfl. hafi gætt mjög mikið síðasta áratug og Framsfl. hafi snúizt æ meir til hægri, hafa áhrif Alþfl. á stjórn landsins valdið því, að ekki hefur verið gengið í berhögg við hagsmuni almennings. — Nýtt tímabil hófst með valdatöku flokksstjórnar Sjálfstfl. fyrir rúmu ári, sem lagði fram gengislækkunarfrv., og þó einkum með valdatöku þeirrar stj., sem nú situr, stj., sem framkvæmdi gengislækkunina og er nú í þann veginn að hrinda í framkvæmd nýjum ráðstöfunum í gjaldeyrismálum. Þessar ríkisstj. eru fyrstu hreinu íhaldsstjórnirnar, sem setið hafa á Íslandi í meira en tvo áratugi, þessar ríkisstj. eru fyrstu stjórnirnar í aldarfjórðung, sem grundvalla ráðstafanir sínar á ómenguðum íhaldssjónarmiðum, fyrstu stj. í 25 ár, sem talið hafa sér fært að stjórna landinu í beinni andstöðu við hagsmuni hins vinnandi manns til sjávar og sveita.

Mér er ljóst, að þetta er þungur dómur um þá hæstv. ríkisstj., sem nú situr. Slíkan dóm er skylt að rökstyðja, og það skal ég gera.

Þegar hæstv. ríkisstj. tók við völdum, lýsti hún yfir, að það væri stefna sín:

1) að útflutningsatvinnuvegirnir yrðu reknir hallalaust og án greiðslu útflutningsuppbóta úr ríkissjóði og skattar því lækkaðir;

2) að fiskverð skyldi hækka upp í 93 aura;

3) að komið skyldi áfram í veg fyrir atvinnuleysi og vöruframboð stóraukast, en það átti að vega á móti þeirri dýrtíðarhækkun, sem að sjálfsögðu var gert ráð fyrir af völdum gengislækkunarinnar;

4) að verzlunin yrði frjáls og jafnvægi í utanríkisviðskiptum.

Ráðstafanirnar, sem tryggja áttu, að þessi markmið næðust, voru: gengislækkun krónunnar um 43% og heilbrigð stefna í fjárfestingarmálum og peningamálum innanlands.

Óhætt mun að fullyrða, að stefna engrar stjórnar, sem hér hefur setið að völdum hin síðari ár, hafi brugðizt jafnhrapallega og þessi stefna núv. ríkisstj.

Tókst henni í fyrsta lagi að koma því til leiðar, að útflutningsatvinnuvegirnir yrðu reknir hallalaust? Allir vita, að þrátt fyrir ráðstafanir þær, sem hæstv. ríkisstj. gerði síðastliðið vor, reyndist erfiðara að koma bátaflotanum á veiðar nú á þessari vertíð en nokkru sinni fyrr. Ef engar ráðstafanir hefðu verið gerðar aðrar en þær, sem hæstv. ríkisstj. taldi nægilegar, þegar hún tók við völdum, væri nú enginn bátur á sjó og bein neyð í landi hjá öllum þeim, sem eiga afkomu sína undir rekstri bátaflotans. Þess vegna á nú enn að gera ráðstafanir, sem leggja almenningi tugmilljóna byrðar á herðar, eins og ég mun víkja nánar að síðar. Þær ráðstafanir eru höfuðsönnunin fyrir íhaldseðli þessarar ríkisstj. Og voru skattar lækkaðir? Nei, öll eldri skatta- og tollalög hafa verið framlengd, svo að tollar hafa hækkað vegna gengisbreytingarinnar, og auk þess voru nú fyrir jól lögð á ný gjöld, að upphæð um 10 millj. kr.

Í öðru lagi: Tókst að koma því til leiðar, að fiskverð hækkaði á síðustu vertíð upp í 93 aura, eins og heitið var? Fiskverð mun á síðustu vertíð ekki hafa verið hærra en á næstu vertíð á undan, heldur beinlínis lægra, eða yfirleitt 75 aurar. Látið hefur verið í veðri vaka, að þetta hafi fyrst og fremst stafað af lækkuðu verði á afurðum bátaflotans erlendis. Þetta er að verulegu leyti beinlínis rangt. Á saltfiski og freðfiski varð ekki verðlækkun erlendis á árinu 1950. Saltfiskur hafði fyrir gengislækkunina lækkað um 5–6%, en síðan Kóreustríðið brauzt út hefur hann fremur hækkað, og markaðshorfur eru góðar á því sviði. Hins vegar hafa verið erfiðleikar á sölu hraðfrysts fisks, svo að framleiðsla hans hefur minnkað, en verðlag hans var ekki lægra erlendis en t.d. 1949. Meðalútflutningsverð hans 1950 mun hafa verið yfir 10 pence fyrir enskt pund, en með því verði var reiknað í grg. fyrir gengislækkunarfrv. Þá hljóta menn að spyrja: Hvað hefur orðið um þá næstum 73% tekjuaukningu, sem af því hlauzt í íslenzkum krónum, að gengið var lækkað? Hún hefur sumpart gengið til að mæta þeirri aukningu á framleiðslukostnaði, sem orðið hefur, bæði af völdum gengislækkunarinnar og öðrum orsökum. En sumpart hefur hún orðið til þess að færa frystihúsaeigendum og fisksaltendum aukna áhættuþóknun og aukinn gróða. Eftir að ábyrgðarverðið var afnumið og söluáhættan lagðist með fullum þunga á frystihús og saltendur, hafa þeir vegna óvissunnar reiknað sér mjög verulega áhættuþóknun. Þegar verðið reynist svo ekki lægra en áður erlendis, verður hin háa áhættuþóknun að ágóða. Kostnaðurinn við áhættuna hefur m.ö.o. fyrst og fremst lent á sjómönnum og rýrt hlut þeirra. — Það er hreinn íhaldssvipur á ráðstöfunum, sem hafa slíkar afleiðingar.

Í þriðja lagi: Hefur tekizt að koma áfram í veg fyrir atvinnuleysi og auka vöruframboð? Í meira en áratug hefur ekki bólað verulega á atvinnuleysi á Íslandi fyrr en nú á þessum vetri. Víða úti um land er hörmulegt ástand, og í Reykjavík voru nú nýlega skráðir 418 atvinnuleysingjar.

Hefur vöruframboð aukizt. Allir vita, að á síðastliðnu ári var vöruskortur meiri og sárari en árin á undan, auk þess sem dýrtíð jókst mjög, bæði af völdum gengislækkunarinnar og sökum verðhækkana í viðskiptalöndum. Nú mun ríkisstj. að vísu hafa í hyggju að stórauka innflutning, einkum á neyzluvörum. En hvernig á að fá þessar neyzluvörur? Gerir hæstv. ríkisstj. sér von um að auka útflutninginn eða fá hærra verð fyrir afurðir landsmanna? Nei. Hæstv. ríkisstj. gerir sér von um að fá nýja stórfellda fjárveitingu frá Marshallstofnuninni og auk þess nýtt framlag frá greiðslubandalagi Evrópu, samtals að upphæð tæplega 100 millj. kr. Þessi framlög á að nota til þess að flytja inn neyzluvörur handa almenningi. Auk þessa mun svo fyrirhuguð stórfelld lántaka erlendis til kaupa á neyzluvörum. Í skjóli þessara óafturkræfu framlaga og slíks láns á svo að gefa 60% af innflutningnum frjálsan. Það ber ekki vott um neina fyrirmyndar stjórnarstefnu, þótt hægt sé að auka innflutning á þennan hátt. Það gæti hvaða stjórn sem er. En hæstv. ríkisstj. ber skylda til að gera þjóðinni skýra grein fyrir því, hvað hún ætlar að gera, þegar hún á ekki lengur kost á slíkri rausn af hálfu erlendra stjórnarvalda, og hvernig hún ætlar að endurgreiða slík eyðslulán. Hún getur trauðla treyst því að geta árum saman greitt þriðjung innflutningsins með erlendu gjafa- og lánsfé. Hvernig á að tryggja innflutning til landsins, þegar slíku sleppir? Hæstv. atvmrh. sagði hér á Alþ. í morgun í spaugi, að það rigndi yfirleitt ekki gulli, þegar Framsfl. væri í forsæti í ríkisstj. En það hefur einmitt rignt gulli yfir Íslendinga, þótt

Framsfl. sé í forsæti. Að meðtöldum þeim framlögum frá Marshallstofnuninni og greiðslubandalaginu, sem nú munu í vændum, fá Íslendingar á tímabilinu 1. júlí 1950 til 1. júlí 1951 um 14 millj. dollara, eða um 225 millj. kr. Og samt gengur þessari stjórn ekki betur að stjórna landinu en raun ber vitni. Það eru þessi erlendu framlög, það er þetta gullregn, og það eitt, sem gerir hæstv. ríkisstj. kleift að gera þær ráðstafanir, sem í vændum eru. Og samt þurfa þær að valda gífurlegri dýrtíð. Ef hæstv. ríkisstj. hefur engin úrræði á takteinum til þess að auka útflutninginn, þannig að fyrirsjáanlegt er, að innflutningurinn hlýtur að stórminnka og lífskjör að stórversna, strax og Marshallaðstoðinni og greiðslubandalagsframlögunum lýkur, þá eru það hreinir fjárglæfrar að sleppa nú lausum taumunum af þessum málum, láta berast út í kviksyndi ringulreiðar og erlendrar skuldasöfnunar og þurfa svo að grípa til örvæntingarráðstafana til þess að ná aftur föstu landi undir fætur og afstýra vandræðum. Það er ósvikinn íhaldsblær yfir þeirri stefnu, sem hefur slíkar afleiðingar.

Og í fjórða lagi: Hefur það loforð verið efnt að gera verzlunina frjálsa og koma jafnvægi á utanríkisviðskiptin? Hæstv. ríkisstj. mun nú hafa í hyggju að gefa verulegan hluta af innflutningsverzluninni frjálsan. Hins vegar virðist það ekki vera stefna hennar, að útflutningsverzlunin skuli vera frjáls. Er þó erfitt að skilja, hvers vegna svipuðu máli gegnir ekki um báðar greinar utanríkisverzlunarinnar. Það átti að vera einn megintilgangur gengislækkunarinnar að gera alla utanríkisverzlunina að hreinum gjaldeyrisviðskiptum. Vöruskiptin áttu með öðrum orðum að hverfa úr sögunni. Sú hefur ekki orðið raunin á. Enn hafa verið gerðir beinir vöruskiptasamningar, svo sem samningurinn við Ungverjaland, en þaðan fengum við hveitið, sem bráðlega mun hækka brauðin um liðlega 10%. Við Austurríki hafa og verið gerð viðskipti með tilstyrk þess, að krónan hefur enn verið lækkuð gagnvart austurrískum shilling, en gengi hans er nú 47% hærra en vera ætti samkv. gengislækkunarl. Almenningur borgar með hækkandi verðlagi. Þarf nokkur að efast um íhaldskeiminn af þessum ráðstöfunum?

Þannig hefur hæstv. ríkisstj. mistekizt í öllum meginatriðum. Og nú er hún einmitt að viðurkenna í verki, að sér hafi mistekizt, því að með þeim ráðstöfunum, sem kunngerðar voru í morgun, er hún sumpart að breyta um stefnu. Ef hún væri enn þeirrar skoðunar, að stefnan frá því í fyrravor hefði verið hin eina rétta, væri það rökrétt afleiðing af breyttum forsendum, að hún hefði nú lækkað gengið enn á ný. Slíkt leggur hæstv. ríkisstj. þó ekki til, heldur er nú til viðbótar gengislækkuninni lagt út á brautir, sem taldar voru hættulegar í fyrra.

Þær ráðstafanir, sem nú á að gera, eru í aðalatriðum fólgnar í því, að útgerðarmenn eiga að fá að ráðstafa sjálfir helmingi þess gjaldeyris, sem fæst fyrir afurðir bátafisksins, að frádregnu þó lýsi, síld og síldarafurðum. Fyrir þennan gjaldeyri á að mega flytja inn vissar vörur, og mega útgerðarmenn gera hvort sem þeir vilja heldur, flytja vörurnar inn sjálfir eða selja kaupmönnum réttinn til þessa innflutnings. Innflytjandinn, hvort sem það verður útgerðarmaður eða kaupmaður, á svo að mega selja þessar vörur án alls verðlagseftirlits, þ.e.a.s. fyrir það verð, sem hann getur fengið neytandann til að borga. Meðal þeirra vörutegunda, sem þannig mun eiga að flytja inn, eru ýmsar nauðsynjavörur, svo sem vefnaðarvörur ýmsar og tilbúinn fatnaður, hreinlætistæki, ávextir, varahlutir til bifreiða og bækur frá Evrópu, vörur fyrir um 90 millj. kr. alls. Hér er um að ræða furðulegar ráðstafanir, ráðstafanir, sem eru í algeru ósamræmi við nær öll rök, sem færð voru fram á síðastliðnu vori til stuðnings gengislækkuninni. Það var talinn einn höfuðkostur gengislækkunarinnar, að hún samræmdi innlent og erlent verðlag og drægi þannig úr milliliðagróða og ýmiss konar braski og spákaupmennsku. Í hinni hagfræðilegu álitsgerð þeirra dr. Benjamíns Eiríkssonar og prófessors Ólafs Björnssonar, sem fylgdi gengislækkunarfrv. í fyrravor, er „leið hins frjálsa gjaldeyris“ fordæmd algerlega. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Til greina kemur að fara þá leið, að útgerðarmenn fái ákveðinn hluta gjaldeyrisins til frjálsrar ráðstöfunar. Þeim væri t.d. leyft að selja þriðjung eða helming hans á frjálsum markaði.... Ekki er þó hægt að mæla með þessari leið. Má fyrst og fremst á það benda, að hún mundi hafa í för með sér engu minni verðhækkun en almenn gengislækkun.... Hins vegar mundi vísitala framfærslukostnaðar hækka minna, ef þessi leið væri farin, þar sem nokkrar nauðsynjavörur mundu flytjast inn áfram á gamla genginu. Vísitalan mundi enn síður en nú sýna rétta mynd af hinu almenna verðlagi.

Með því að fara þessa leið mundi raunverulega sett tvenns konar gengi á íslenzku krónuna og þá um leið tvenns konar verðlag á innfluttar vörur.

...Hin tvö gengi og tvenns konar verðlag innanlands mundu gera nauðsynlegt að halda mjög ströngu eftirliti með verðlagi og dreifingu allra innfluttra vara. Sterk öfl mundu reyna að hækka álagningu og verðlag á vörum, sem fluttar væru inn fyrir ódýrari gjaldeyrinn, til samræmis við verðlag á þeim vörum, sem fluttar væru inn fyrir frjálsa gjaldeyrinn. Með því væri skapaður jarðvegur fyrir margs konar brask og óheilbrigða verzlunarhætti“. Kaflanum lýkur með þessum orðum: „Við mælum því eindregið gegn þessari leið.“

Hér er hvert orð rétt. En það er leið slíks frjáls gjaldeyris, sem hæstv. ríkisstj. er nú í þann veginn að halda út á. Hér er um að ræða nýja gengislækkun, — í mjög varhugaverðu formi. Enn verður almenningur látinn borga með stórhækkuðu vöruverði, og þó veit í rauninni enginn fyrir fram, hversu mikil þessi skattlagning verður, þar sem álagningunni verða engin takmörk sett af ríkisvaldinu, en minni en 50 millj. verður hún aldrei. Í þessum ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. felst því mikil stefnubreyting frá því í fyrra, og því miður ekki til hins betra, heldur þvert á móti til hins verra. Höfuðgalli slíkra ráðstafana sem þessara er, að með þeim er lagður hinn ákjósanlegasti grundvöllur að alls konar braski og hvers konar óheilbrigðum verzlunarháttum. Dýrtíð mun vaxa gífurlega. Vísitalan verður 1. apríl komin upp í 135 stig og verður á miðju sumri varla lægri en 145 –150 stig. Viðskipti með þessar vörur verða flókin og óhrein, og það verður okrað á almenningi. Og sjómaðurinn, sem veiðir fiskinn, getur aldrei vitað, hvað fæst fyrir hlutinn hans og hvað rennur í vasa milliliða. Nú er ekkert fast fiskverð í landinu, og enginn veit, hvað það verður á næstunni. Af þessu hlýzt ýmiss konar tortryggni, sem hlýtur að valda ókyrrð á vinnumarkaðnum. Mikil verðhækkun lendir á herðum almennings. Sjómenn fá e.t.v. nokkra hækkun á sínum hlut, en þó allsendis ónóga. En alls konar milliliðir stórgræða. Það er vissulega ómengað íhaldsbragð að slíkum ráðstöfunum.

Hinn óhóflegi gróði af innflutningsverzluninni hefur undanfarna áratugi verið mjög gagnrýndur. Æ fleirum hefur orðið ljóst, að hér verður að ráða bót á. En hvað er hæstv. ríkisstj. nú að gera? Hún er ekki að gera ráðstafanir til að draga úr þessum gróða. Nei, hún er að reyna að leysa vandræði bátaflotans með því að gefa ávísun á hluta af honum. Almenningur á ekki að fá bætta verzlunarhætti, heldur á brask og milliliðastarfsemi þvert á móti að aukast og verðlag að stórhækka. Það, sem neytendur greiða í hækkuðu vöruverði, á þó ekki að fara fyrst og fremst til sjómanna sem aukin laun fyrir hina erfiðu vinnu þeirra. Og það mun ekki heldur lenda allt hjá útvegsmönnum. Verulegur hluti þess mun lenda hjá alls konar milliliðum. Og þetta á að gerast undir forustu ríkisstj., þar sem Framsfl. er í forsæti!

Síðan stríði lauk, hafa verið uppi tvær stefnur í efnahagsmálum í nálægum löndum. Á Norðurlöndum og Bretlandi, þar sem jafnaðarmenn hafa verið við völd, hefur megináherzla verið lögð á að tryggja öllum atvinnu, bæta lífskjör almennings og stuðla að auknum jöfnuði. Það hefur tekizt. Á Bretlandi hefur framfærslukostnaður hækkað um aðeins 21% síðan 1945 og í Noregi og Svíþjóð um aðeins 11%. Í þessum löndum Evrópu hefur og orðið mest aukning á þjóðartekjum síðan stríði lauk. Í öðrum löndum, svo sem Vestur-Þýzkalandi, Belgíu, Frakklandi og Ítalíu, þar sem íhaldssinnaðir flokkar hafa farið með stjórn, hefur verið farin leið hinna svokölluðu „frjálsu viðskipta“. Þar er alls staðar víðtækt atvinnuleysi og mikil dýrtíð. Í sumum þessara landa, svo sem Frakklandi, eru þjóðartekjurnar nú minni en þær voru 1939. Sú stefna, sem fylgt hefur verið hér á landi, hefur verið eins konar málamiðlun milli þessara tveggja meginstefna. Mér er vel ljóst, að á slíkum málamiðlunum eru ávallt ýmsir annmarkar. En nú er hæstv. ríkisstj. að taka upp íhaldsstefnuna, sem fylgt hefur verið í Vestur-Þýzkalandi, Frakklandi og Ítalíu, stefnuna, sem fært hefur þessum löndum atvinnuleysi, dýrtíð og ójöfnuð, og meira að segja slæmt afbrigði af henni. Það er rétt, að í löndum „hinna frjálsu viðskipta“ er meira að sjá í búðargluggum og hægt að borða betur á veitingahúsum. Á slíku mun nú einnig von hér. En hvorki hér né annars staðar hefur almenningur lifað af því, sem hann hefur mátt horfa á í búðargluggum, án þess að geta keypt, og það er ekki alþýðan, sem nýtur þess, þótt krásir séu á borðum veitingahúsa. Almenningur krefst þess að geta keypt nauðsynjar sínar, mat, föt og húsnæði, við hóflegu verði. Við það vilja jafnaðarmenn í öllum löndum láta miða stefnuna í efnahagsmálum. Fylgjendur „hinna frjálsu viðskipta“ telja það aðalatriðið, að búðirnar séu fullar, þótt almenningur geti lítið keypt; það liggur við, að þeir telji velmegunina þeim mun meiri, sem meira er af vörum í búðunum, en minna hjá almenningi. Það er þessi stefna, þessi íhaldsstefna, sem hæstv. ríkisstj. er nú að leiða Yfir Íslendinga.

En hvað vill Alþfl. láta gera? Alþfl. telur, að fyrir þjóðarheildina hefði verið ódýrast að leysa vandamál bátaflotans nú með því, að ríkisstj. ábyrgðist útvegsmönnum ákveðið fiskverð, en útflytjendum ákveðið útflutningsverð, sem miðað væri við nauðsynlegan frystingar- og söltunarkostnað. Jafnframt væru vissir kostnaðarliðir greiddir niður, e.t.v. bæði við útgerð og vinnslu, en það gert að skilyrði fyrir slíkum niðurgreiðslum, að rekstri bátanna, hraðfrystihúsanna og söltunarstöðvanna væri komið í hagkvæmara horf en nú, en á því er enginn vafi, að með skynsamlegri endurskipulagningu á þessum rekstri mætti spara þjóðfélaginu mikið fé. Fjárins, sem nauðsynlegt væri í þessu sambandi, mætti afla á ýmsan hátt, t.d. með því að koma lagi á skattheimtuna og gera alla jafna fyrir skattayfirvöldunum, með gjöldum á ýmsa óhófseyðslu og ýmsan óhófsinnflutning. Ef gerðar væru ráðstafanir til stórfellds sparnaðar í útveginum og útvegsmönnum og útflytjendum tryggt ákveðið verð, þannig að þeir þurfi ekki að reikna sér háa þóknun vegna áhættu, er augljóst, að útvegurinn þarf mun minna fé frá öðrum stéttum en honum er nú ætlað að fá. En það er í rauninni óverjandi, að ár eftir ár skuli lagðar byrðar á allan almenning til þess að auka tekjur bátaútvegsins, hraðfrystihúsa og saltenda, án þess að um leið séu gerðar gagngerar ráðstafanir til þess að koma rekstri þessara atvinnugreina í eins hagkvæmt horf og unnt er. Útvegsmönnum er enginn greiði gerður með slíku, og sjómönnum er það í raun og veru til tjóns. — En Alþfl. leggur líka á það áherzlu, að vandamál bátaútvegsins séu ekki leyst nema í tengslum við önnur vandamál. Það er ranglátt að krefjast mikilla fórna af almenningi til þess að tryggja rekstur bátaflotans, nema gerðar séu um leið allar hugsanlegar ráðstafanir til þess að létta honum þessar byrðar, þ.e.a.s. ráðstafanir til þess að gera verzlunina hagkvæmari og ódýrari, til að bæta húsnæðisástandið, efla almannatryggingarnar, gera skattheimtuna réttlátari, ríkiskerfið ódýrara o.s.frv. Það eru einmitt slíkar ráðstafanir, sem algerlega skortir hjá hæstv. ríkisstj. Þess vegna sverfur nú að öllum, nema hinum ríku. Framsfl. varð tíðrætt um þess háttar aðgerðir fyrir síðustu kosningar og kallaði þær þá nauðsynlegar hliðarráðstafanir. Þau loforð hefur hann efnt með því að afnema húsaleigulögin, draga stórlega úr verðlagseftirliti og hyggjast fella niður opinbera vinnumiðlun.

Heildarniðurstaða þess, sem ég hef sagt, er þessi: Ráðstafanirnar, sem hæstv. ríkisstj. taldi, er hún tók við völdum, að mundu leysa vandamál atvinnuveganna, hafa brugðizt algerlega. Þess vegna er nú enn gripið til nýrra ráðstafana, sem studdar eru rökum, er þóttu ekki frambærileg í fyrra. Jafnframt á svo að gefa verulegan hluta af innflutningi til landsins frjálsan og afnema verðlagseftirlit að mestu, og þessar glæfralegu ráðstafanir á að gera einvörðungu í skjóli stórfelldra fjárveitinga frá erlendum aðilum, án þess að nokkuð sé fyrir því hugsað, hvað við taki, þegar slíku sleppir. Afleiðing alls þessa hlýtur að verða gífurleg aukning dýrtíðar. Jafnhliða kveður svo verulega að atvinnuleysi, og horfur eru á, að það fari vaxandi. En engar, bókstaflega engar ráðstafanir eru gerðar til þess að létta almenningi lífsbaráttuna. Og næstum því eini sparnaðurinn, sem hæstv. ríkisstj. hugkvæmdist, er að draga úr framlögum til almannatrygginga, vinnumiðlunar og slíkra félagsmála.

Þessi stjórnarstefna er ómenguð íhaldsstefna. Íslendingar hafa ekki haft af að segja jafnhreinræktaðri afturhaldsstefnu síðan á árunum 1924– 27. Hér virðist allt eftir forskrift Sjálfstfl., eins og hann var, meðan hann hafði kjark og hreinskilni til þess að kalla sig íhaldsflokk. En þeim mun furðulegra er það, að framsóknarmenn skuli sitja í öðrum hverjum ráðherrastóli.

Ég veit ekki, hversu margir muna hin róttæku orð frambjóðanda Framsfl. hér í Rvík fyrir síðustu kosningar. Það átti að segja allri fjárplógsstarfsemi stríð á hendur, útrýma bröggum og bæta húsnæði, efla almannatryggingar o.s.frv. Allt hefur þetta gleymzt í framkvæmd, en í stað þess hefst nú sannkallað blómaskeið fyrir margháttaða fjárplógsstarfsemi. Ráðamenn Framsóknar óska vafalaust, að stóru orðin gleymist líka. En kjósendur hans munu minnast þeirra og ekki trúa þeim öðru sinni. Þeir hafa verið illa leiknir, bæði hér í Rvík og annars staðar. Flokkurinn gekk til kosninga með róttæka stefnuskrá. Eftir kosningar tók hann þátt í myndun fyrstu hreinu íhaldsstjórnarinnar, sem mynduð hefur verið á Íslandi í 25 ár. Kjósendur Framsfl. verða að gera annað tveggja, að kippa flokknum út úr þessum leik eða yfirgefa hann.

Þrátt fyrir allt er þó eitt gott um hæstv. ríkisstj. Flokkarnir, sem að henni standa, villa nú ekki á sér heimildir. Undanfarin ár hefur stundum verið erfitt að sjá, hvað hver flokkur í raun og veru vildi. Nú hafa Íslendingar fengíð stjórn, sem hefur hreina stefnu, hreina íhaldsstefnu. Þeir, sem fagna slíkri stefnu, fylkja sér að sjálfsögðu um ríkisstj. En allir þeir, sem eru henni andvígir, hljóta nú að fylkja sér um Alþfl. Hann er eini flokkurinn, sem með árangri getur barizt gegn þeim íhaldsráðstöfunum, sem á döfinni eru. Það er aðeins með því að efla hann, sem almenningur getur knúið fram stefnubreytingu. Sósfl. mun aldrei framar geta haft áhrif í íslenzkum stjórnmálum. Með augljósri þjónustu sinni við erlend sjónarmið og erlenda hagsmuni hefur hann í raun og veru dæmt sig úr leik, og því fyrr sem óbreyttir stuðningsmenn hans sjá þetta, því betra. Það er Alþfl. einn, sem haft getur sigurvonir í baráttunni gegn því afturhaldi, sem nú stjórnar landinu. Hann heitir á alla frjálslynda Íslendinga að fylkja sér til þeirrar baráttu og heyja hana til sigurs.