13.02.1951
Neðri deild: 68. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (2603)

175. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta var sent fyrir nokkru síðan til heilbr.- og félmn. Nd. og kom til n. frá félmrn. með ósk um, að n. bæri það fram á þessu þingi. Frv. mun upphaflega vera samið af Sambandi íslenzkra sveitarfélaga, og forstöðumenn sambandsins óskuðu þess mjög eindregið við n., að hún legði frv. fram, hvort sem það yrði lögfest á þessum dögum, sem nú eru eftir af þinginu, eða ekki. Eftir að þessar óskir höfðu komið fram, fyrst frá rn. og voru ítrekaðar síðar af stjórn Sambands íslenzkra sveitarfélaga, þá taldi n. það sjálfsagt að leggja frv. fram.

Ákvæði um laun oddvita hafa verið og eru raunar nokkuð á reiki. Samkv. l., sem um þetta gilda, er oddvitum ákveðin sem þóknun fyrir störf sín í grunnlaun, miðað við verðlag 1939, ein króna fyrir hvern mann, sem hefur verið búsettur í hreppnum. Til þess mun hafa verið ætlazt, að á laun oddvita kæmu þær launauppbætur, sem opinberir starfsmenn njóta á hverjum tíma, en reynslan hefur orðið sú, að nokkur misbrestur hefur orðið á í þessum efnum, og eru laun oddvita því nú nokkuð á reiki. En ef teknar eru með allar launaviðbætur, sem opinberir starfsmenn hafa fengið síðan 1939, ber oddvitum nú kr. 4,56 fyrir hvern mann í hreppnum. Hér er lagt til í þessu frv. að binda upphæðina við 5 kr. fyrir hvern mann, og virðist það ekki vera ósanngjarnt, þegar tekið er tillit til þess, að störf oddvita hafa aukizt að undanförnu, m.a. vegna ákvæða, sem Alþ. hefur sett um ýmiss konar afskipti ríkisvaldsins.

Ég mun svo ekki fara fleiri orðum um málið við þessa umr., nema sérstakt tilefni gefist, og vænti þess, að því verði vísað til 2. umr.